02.04.1946
Neðri deild: 100. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (3733)

63. mál, vegalagabreyting

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er nú langur tími liðinn síðan þetta frv., sem hér er til umr., var tekið til 1. umr. og vísað til hv. samgmn. Ég man ekki nákvæmlega, hvaða dag það var, en það munu vera um 5 mánuðir síðan það skeði, — mér er tjáð, að það séu nákvæmlega 5 mánuðir síðan málinu var vísað til hv. n., það hafi verið 2. nóvember 1945. Af þessum 5 mánaða tíma hefur þ. staðið í 4 mánuði, og þar sem ég hef ekki orðið þess var, að hv. samgmn. þessarar d. hafi fengið mjög mörg mál til athugunar, hafði ég gert mér vonir um, að hún gæti skilað málinu frá sér fyrr. Að vísu er nokkuð síðan nál. kom frá n., en þá var málið tekið af dagskrá. Það væri nú fyrir sig, þó að þetta hafi dregizt nokkuð, ef afgreiðsla n. væri á þann veg, að við mætti una. En því miður er það nú þannig, að flm. frv. og brtt. við það eru ekki ánægðir með afgreiðsluna þegar hún loksins kemur, og ég held, að það hefði verið hægt á þessum langa tíma, sem liðinn er, að afgr. málið á annan hátt, sem sagt að taka til greina sanngjarnar og eðlilegar óskir um breytingar á vegal., og afgr. málið þannig. Það kann vel að vera, að það sé orðið nokkuð seint nú, þó að raunar liggi ekki fyrir neinar ákvarðanir um það, hvað þ. stendur í marga mánuði enn. Mér skilst, að afgreiðsla þeirra stóru mála, sem óhjákvæmilega þurfa að fá afgreiðslu nú á þ., sé svo skammt á veg komin, að þinghaldið geti dregizt nokkuð enn. Það væri því möguleiki til að bæta úr afgreiðslu þessa máls enn þá.

Ég vil láta í ljós óánægju mína sem flm. frv. yfir því, hvaða meðferð þetta mál hefur fengið, og ég vil einnig taka undir það, sem komið hefur fram hjá hv. þm. Borgf., að ég tel, að það geti verið dálítið vafasöm meðferð, þegar ákveðið er, hvaða vegi skuli taka í þjóðvegatölu, að miða við það, hvort hlutaðeigandi sveitarfélög hafi stofnað sýsluvegasjóði, en eins og bent hefur verið á, er frjálst að gera það, en vitanlega verða þessi héruð að leggja nokkuð fram frá sér í þessa sjóði. Og ég tel vafasamt, að það sé réttlæti í því að verðlauna þá, sem hliðra sér hjá því að stofna sýsluvegasjóði, með því að taka þeirra vegi í þjóðvegatölu umfram það, sem eðlilegt er, miðað við aðra vegi.