18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

16. mál, fjárlög 1946

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú að verða endir á þessum umr. um fjárl., sem búnar eru að standa alllangan tíma. Þegar litið er á allar þær ádeilur, sem fram hafa komið frá ýmsum háttv. þm. á fjvn., þó undanskilin skot úr baunabyssu hv. þm. Vestm. (JJós), þá held ég, að fjvn. megi vel una þeim móttökum og þeim dómi, sem verk hennar hafa fengið hér á Alþ.

Það verður engan veginn sagt, ef nokkuð má marka þskj., sem fram hafa komið, að fjvn. hafi verið bruðlsöm. Það eru hvorki meira né minna en brtt. fyrir um rúmar 10 millj. kr., sem liggja fyrir fram yfir það, sem fjvn. leggur til, svo að það verður ekki annað sagt en hún hafi ekki verið bruðlsöm, þó að hæstv. fjmrh. þyki nóg um hallann á fjárl., sem ég er honum alveg sammála um. Þó verður varla heldur sagt, að hún hafi verið ákaflega sparsöm, ef miðað er við afgreiðslu fjárl. undanfarinna ára, og hefur henni þá tekizt að þræða hinn gullna meðalveg, sem fjvn. hefur ekki tekizt áður að gera, ef marka má nokkuð þau plögg, sem fyrir liggja.

Þá vil ég leyfa mér að víkja nokkuð að ræðu hæstv. fjmrh. (PM) og þá fyrst og fremst till., sem hann hefur borið fram á þskj. 372. Fjvn. hefur ekki haft tækifæri til að ræða hana og athuga, því að hún kom fyrst fram í kvöld, eins og kunnugt er, og þykir mér að sjálfsögðu nokkuð miður að hafa ekki haft tækifæri til að ræða um þetta atriði við n. Get ég því ekki talað um till. í nafni n., heldur mun ég tala um hana frá mínu eigin sjónarmiði og ætlast ekki til, að það verði tekið til ábyrgðar af n. hálfu. Hæstv. fjmrh. fer hér fram á að fá heimild til að skera niður fjárveitingar til verklegra framkvæmda allt að 30%, ef þess gerist þörf, og fyrir mín tilmæli hefur þetta verið orðað þannig, að þetta skuli gert eftir jöfnum hlutföllum, eftir því sem við verður komið. En ég vil í sambandi við þetta leggja aðaláherzluna á, að ég tel, að fjvn. mundi ekki fella sig við, að þetta væri látið ganga út yfir þær brýnu vega- og brúaframkvæmdir, sem tilheyra hinum strjálu byggðum. En það er vitanlegt, að hæstv. fjmrh. hefur lýst yfir því, að hann teldi ranga stefnu að eyða miklu fé til vega úti um landið, og það er einnig vitað, að hæstv. samgmrh. (EmJ) hefur haldið þessu sama fram. Þegar fjárlfrv. var fyrst lagt fram, bar það svip þess, að skera ætti niður þorrann af smærri vegaframkvæmdum í landinu. Út af þessari till. vil ég taka það fram, að ég lít ekki svo á, þó að ég mundi ljá henni samþykki, að hún sé til þess, að framkvæmdir verði algerlega skornar niður, því að ég hef óskað eftir því, að þetta yrði gert hlutfallslega. Það á að gera margar aðrar framkvæmdir, eins og margar stórbyggingar, sem vafasamt er að byggja á næsta ári, ekki einasta af því að þær eru stórar, heldur vegna þess, að þær eiga ekki hvað minnstan þáttinn í að auka dýrtíðina í landinu, vegna þess, að því meiri sem eftirspurnin er eftir fólki og efni til þessara nota, því dýrari verða þessar byggingar og því erfiðara verður að halda dýrtíðinni niðri við aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. Um heimild til lántöku er það að segja, að ég tel það sjálfsagt og rétt, enda ekki annars úrkosta nú eftir að búið er að ganga frá fjárl, eins og þau líta út í dag, hvað þá eftir að búið er að ljúka afgreiðslu þeirra við 3. umr.

Hæstv. fjmrh. ræddi hér um till. út af Steingrími Matthíassyni lækni. Ég minnist þess, að þegar þetta var rætt í n., tóku allir því mjög vel, en sökum þess að það var þá ekki komið í það form, sem það er nú komið í, og ekki var vitað, í hvaða formi ráðh. óskaði að hafa það, þá var ekki gengið frá því í n. Hins vegar hefur n. fjallað um till. viðvíkjandi Guðjóni Samúelssyni. N. varð ekki sammála um hana, og munu sumir nm. greiða atkv. á móti, að ég held til að lækka hina aðaltill., og hef ég gert grein fyrir því í framsöguræðu minni. Þriðja till., sem hæstv. ráðh. minntist á, var aldrei borin undir n. Hún var um ljósprentaða útgáfu á fornritum. Hins vegar var till. um námsstjórn, frá hæstv. menntmrh. og fjmrh., borin undir n., en hún gat ekki fallizt á að samþ. hana eins og hún lá fyrir.

Ég vil þá snúa mér að þeim atriðum, sem hæstv. atvmrh. (ÁkJ) minntist á út af Rauðkuábyrgðinni. Ég verð að segja það, að ég er undrandi yfir þeim starfsaðferðum, sem hæstv. ráðh. hefur valið sér í þessu máli. Það fyrsta, sem skeður í þessu máli, er það, að bæjarstjórnin á Siglufirði samþ. 21/11, eða fyrir rúmum 3 vikum, að senda til þm. kjördæmisins beiðni um að bera fram þáltill. um ábyrgð til handa síldarverksmiðjunni, eins og nú er borið fram í ábyrgðarheimild hér í þinginu. Hvers vegna hefur hæstv. atvmrh., hv. þm. Siglf. (ÁkJ), daufheyrzt við þessu máli, þegar hann telur það nú lífsskilyrði fyrir síldarverksmiðjur bæjarins, að þetta nái fram að ganga hér á fjárl.? Það næsta er, að bréf er sent til fjvn. með beiðni um, að hún flytji þessa till., og getur fjvn. ekki skilið það öðruvísi en svo, að hv. þm. kjördæmisins hafi viljað víkja þessu verki frá sér. Honum bar þó fyrst og fremst skylda til að flytja till. Nú tók fjvn. mjög vel á þessu máli og hæstv. atvmrh. var mjög vel kunnugt um það. Hún vildi aðeins ekki hafa málið í þessu formi, að setja þetta inn á fjárl., og telur, að slíkt stórmál eigi ekki að koma fram í þ. á síðustu stundu, og sannleikurinn er sá, að hér hefur hæstv. atvmrh. gert róttæka tilraun til að tefja þessa umr. og afgreiðslu fjárl. því að hann veit, að þetta mál hlýtur að vekja stórkostlegar deilur, og það er engin önnur ástæða fyrir því, að málið er lagt fram í þ. á elleftu stundu. Hann veit, að hæstv. forseti mun ekki hafa þolinmæði til að halda fundinum áfram svo lengi sem menn vildu ræða um þetta mál. Sannleikurinn er sá, að það vantar allar upplýsingar um þetta mál, til þess að hægt sé fyrir þm. að greiða um það atkv. Fyrir það fyrsta er það ekki rétt meðfarið eins og það er sett inn í till., að það sé eingöngu verið að fá ábyrgð til að stækka verksmiðjuna, heldur til að standa við þær greiðslur af skuldum, sem hún hefur ekki getað innt af hendi. Og þannig er þetta tilkomið, að verksmiðjan á ekki einu sinni sjálf þessi áhöld. Það eru aðrir aðilar, sem eiga þetta í verksmiðjunni, og geta þeir tekið það, hvar sem er í verksmiðjunni, sem nemur 2 millj. kr. Og þó að hér sé verið að sækja um ábyrgð fyrir 600 þús. kr. og 540 þús. kr. til stækkunar, þá vildi ég benda hæstv. atvmrh. á, að það liggur engin grg. fyrir því hér, að verksmiðjan sé 10 þús. mála verksmiðja, þegar búið er að setja þessa hluti í hana, sem ekki kosta nema 540 þús. kr. Þetta eru þær upplýsingar, sem n. vildi fá, og það má hver lá henni sem vill, að hún hefur ekki viljað leggja nafn sitt við það að mæla með þessari ábyrgð, þegar ekki var hægt að fá þessar upplýsingar. Hæstv. ráðh, var bent á það, að eðlilegasta leiðin væri, að hann sjálfur, sem þm. kjördæmisins, flytti þáltill. um þetta mál, og honum var jafnframt skýrt frá því, að fjvn. mundi taka mjög vel í það mál og gera allt til þess að hjálpa því máli áfram og krefjast upplýsinga um það, á hvaða stigi málið stæði. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að þessi skýrsla, sem hér hefur verið lögð fyrir fjvn., er ekki nákvæmari en það, að þar er sagt, að verksmiðjan sé annaðhvort 5000 eða 7000 mála verksmiðja. Það er ekki kunnugt um það enn, hvort hún er 5000 eða 7000 mála verksmiðja, og höfum við þá heldur ekki fengið að vita, hvort hún verður 8000 eða 10000 mála verksmiðja, þegar búið er að lána í hana 540 þús. kr. í viðbót, eins og farið er fram á. Ég segi þetta ekki til þess að vera á móti málinu, en vil aðeins benda á þær veilur, sem voru á þessu máli frá hendi hæstv. atvmrh. og ekki var hægt að laga, svo að n. geti tekið pósitiva ákvörðun í málinu, Það er hægt að setja fram þessa ákvörðun um 5000–10000 mála verksmiðju, en hitt er annað atriði, að þessar tölur hafa ekki sannfært mig enn þá, til þess þarf betri upplýsingar en þessar, en séu þær réttar, að þessi verksmiðja sé talin vera 5000–7000 mála verksmiðja, getur hún ekki haft meiri ágóða en 200000 kr., en 10000 mála verksmiðja á að hafa komizt upp í næstum 1 millj. kr. ágóða með öllum sömu skilyrðum.

Þá vildi ég spyrja hæstv. atvmrh.: hvers vegna hefur hann þá undir sinni stjórn ætlazt til, að byggð yrði verksmiðja á Skagaströnd; sem væri aðeins 500 málum stærri en sú verksmiðja sem hér á að byggja við á Siglufirði, því að hann upplýsir, að verksmiðjan á Skagaströnd eigi ekki að vera nema 7500 mál? Hvers vegna hefur hann ekki verið svo framsýnn að bæta við 2500 málum, svo að sú verksmiðja gæti veitt 1 millj. kr. hagnað eins og Rauðka? Með þessum upplýsingum hefur hæstv. ráðh. ásakað sig miklu meira en hann hefur vitað um. Sannleikurinn er sá, að það þarf meiri upplýsingar um þetta mál en þær, sem n. bárust. Ég vænti þess jafnt, að þessi till. verði felld, eins og hins, að hv. alþm. taki með fullum skilningi á málinu, og eins, að málið verði borið fram í réttu formi, eins og ég vænti, að verði eftir að niður er felld þessi till.

Í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði um liðinn á þskj. 366, 21. liðinn, það er 300 þús. kr. ábyrgð fyrir vinnuhæli SÍBS, vil ég upplýsa það, að við ræddum um þetta mál við lækni hælisins á sínum tíma, og að n. vildi ekki mæla með þessu var fyrir það, að henni þótti varhugavert að fara inn á þessa braut að taka ábyrgð á rekstrarútgjöldum yfirleitt, en ekki af því, að hún hefði ekki fulla samúð með þessari stofnun. Hins vegar féllu orð læknisins þannig hjá n., að ef gengið væri inn á það af n. að hjálpa um byggingarstyrk eins og gert er í till. n., þá mundi þetta ekki verða til vandræða fyrir þessa stofnun. Ég vil upplýsa það í sambandi við ummæli hæstv. ráðh. um nýja veginn, að þó að ég sé honum sammála, skil ég ekki, hvers vegna verið er að koma með svona mál, svona stórt mál, inn í fjárl. á síðustu stundu. Það er vitanlegt, að í Ed. liggur fyrir frv. um þetta mál, þar sem ætlazt er til, að það sé leyst á ákveðinn hátt. Það getur því ekki verið hægt að skilja þetta öðruvísi en að það sé borið fram sem hrein og bein kosningabeita, og það er allt of illa farið með jafnstórt mál og nauðsynlegt eins og þetta, að það skuli aðeins vera haft til þess að setja á sig eitthvert merki fyrir kosningar, án þess að ætlazt sé til þess að fá með þessu samkomulag til þess að frv. nái fram að ganga. Auk þess vil ég í sambandi við þetta benda á það, að ég tel, að fyrir Árnesinga hafi gersamlega verið brugðizt því loforði, sem búið var að gefa í fjvn. um þessi vegamál almennt, og þykir mér það miður. Ég hygg, að það sé ekki neitt óvenjulegt eða óþinglegt, að þm. komi sér saman um að bindast samtökum um ákveðið mál, og það hefur verið gert í fjvn. nú eins og svo oft áður, að allir þeir, sem komið hafa sér saman um að bera engar nýjar till. fram eða fylgja öðrum till. í hafnarmálum eða brúamálum, greiði atkv. á móti annarra till., eins og ávallt hefur verið venja hér á hæstv. Alþ. Nú víkur einn af þessum mönnum, hv. þm. N.-Þ., úr n. og af þingi og sendir í stað sinn hv. 1. þm. Árn., og tel ég hann bundinn af öllu því samkomulagi, sem fyrirrennari hans hafði gert í n. Hv. 1. þm. Árn. var bent á þetta í n., og ég gat ekki annað skilið en hann teldi þetta fullkomlega skyldu sína alveg á sama hátt eins og hv. 7. landsk. (ÁS) skildi sína afstöðu, þegar hann tók sæti síns flokksmanns 1 n.

Ég ætla svo ekki að lengja umr. um þennan veg. Ég er á sama máli og hæstv. fjmrh. um það, að það sé fyrsta skilyrðið í þessu máli að koma sér niður á það, hvar vegurinn eigi að liggja, því að það hefur verið sótt ákaflega fast á af sumum hv. þm. að fleygja tugum og hundruðum þúsunda í Krýsuvíkurveginn til þess að ljúka honum, sem nú á allt í einu að víkja frá. Meðal annars hafði hv. 1. þm. Rang. fallizt á það í n. að lækka þá till., sem vegamálastjóri lagði til, vegna þess að kom fram, að hann hafði verið á rangri leið. Svo er því haldið fram hér, og það með mjög miklu kappi, að þessi vegur eigi á engan hátt að íþyngja öðrum vegaframkvæmdum í landinu, þegar ætlazt er til, að teknar séu 4 millj. kr. til vegaframkvæmda við þennan eina veg á árinu. Ég tek því undir það með hæstv. fjmrh., að það sé engan veginn heppilegt, að þannig sé að farið í þessu máli. — Í sambandi við það, sem hann taldi, að mundi kosta að ljúka Selvogsveginum að fullu, að vegamálastjóri hefði tilkynnt, að það mundi kosta 2 millj. kr., kemur til mála, hvort ekki ætti að gera það fyrst, áður en farið er inn á nokkrar nýjar leiðir.

Þá vil ég ræða um tvær till., sem hafa komið hér fram sem ábyrgðarheimildir frá einstökum þm. önnur er frá hæstv. dómsmrh. um ábyrgð handa Ísafirði. Hin er frá nokkrum þm., meðal annars hv. þm. Vestm., um 8 millj. kr. ábyrgð fyrir ýmis sveitarfélög. Þar sem till. um sveitarfélögin var hreyft í fjvn., vil ég skýra það hér, að þegar hún kom fyrir, var hún ekki nema 5 millj. Fjvn. ræddi þetta mál mjög, og henni fannst engan veginn rétt að mæla með því, að slík heimild væri gefin á 22. gr., og þó hefur þessum hv. þm., sem er meðal annars helmingurinn af nýbyggingarráði, þótt sjálfsagt að setja þessa till. hér inn. En ég vil benda hv. þm. Vestm. á það, að hann er nú í samlífinu við vini sína í nýbyggingarráði orðinn svo gerspilltur, að hann kann ekki lengur fótum sínum forráð í fjármálum. Ég veit ekki betur en að hann hafi í fyrsta lagi lagt til, að það væri lánað 75% af kostnaðarverði út á þessa staði. En auk þess á svo ríkið að taka á sig stórkostlega ábyrgð fyrir þá aðila, sem kaupa þessi tæki, eftir að þeir hafa fengið 75% lánað, með ábyrgð ríkisins raunverulega. Ég veit ekki, hvert stefnir með fjármálaspeki þessa ágæta fjármálamanns, ef hann telur þetta fjármálaspeki. Svo er ekki betur greitt fyrir þessu en það, að engir af þeim, sem ætlað er að tryggja, eiga að vera fyrir utan Reykjavík og Hafnarfjörð. Ég gæti því trúað því, að ef till. yrði samþ. eins og hún liggur fyrir, þá gæti Reykjavík fengið helming af þessu, ef hún bæði um það. Kapphlaupið er svo mikið, að það er ekki einu sinni hér kunnað fótum sínum forráð. Ég held, að þegar það er orðin staðreynd, eins og hefur verið undanfarið, að það séu látnar milljónir í áhættulán til þess að hjálpa til að kaupa þessi atvinnutæki, þá sé bikarinn að verða fullur. Ef það getur ekki dugað, að menn fái 75% af kostnaðarverði atvinnutækjanna til láns, með þeim kjörum, sem gert er ráð fyrir, þá fer að verða spursmál, hvort ekki á að tala um þetta á öðrum grundvelli, að láta ríkið eiga allt draslið, því að ég sé þá engan mun á því. Till. frá hæstv. dómsmrh. er svo fjarri öllu lagi sem frekast getur verið, því að þar er, eins og hæstv. fjmrh. sagði, verið að biðja um ábyrgð fyrir því að setja upp gagnfræðaskóla, sem ríkið borgar, fyrir þann íþróttaskóla og sundhöll, sem ríkið leggur einnig stórkostlega fjárfúlgu í, og húsmæðraskóla, sem ríkið leggur mikið fé í. Ofan á þetta á svo ríkið að ábyrgjast allt það fé, sem á vantar, ábyrgjast allt þetta fyrir bæinn, eftir að hæstv. fjmrh. hefur lýst yfir því, að enginn banki vilji koma nálægt þessu, vegna þess að þeir vantreysti því. Það er ekki að furða, þó að fjvn, vilji ekki gleypa við því, þegar komið er með svona beitu. En ég hefði gaman af því að spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig stendur á því, að þeir Ísfirðingar flæmdu burtu frá sér stórútgerð á þeim tíma, sem hún gat gefið þeim efni? Ætli það geti ekki skeð, að fjárhagur þeirra væri betri nú, ef þeir hefðu ekki notað það bragð að flæma frá sér eina atvinnutækið, sem gat gefið þeim peninga á þessu ári, og ekki verður það til þess að lyfta höndum margra þm. hér um það að tryggja þessa ábyrgð, að þeir gátu ekki farið sæmilega með þau mál á sínum tíma.

Viðvíkjandi till. hæstv. atvmrh. varðandi atvinnudeildina vildi ég mega benda honum á, að hann á sjálfur stærstu sökina á því, að ekki varð samkomulag um þetta í fjvn. Fjvn. tók mjög vel í þetta mál, en eftir að hafa haft fund með fiskimálastjóra annars vegar og dr. Þórði Þorbjarnarsyni hins vegar, komst hún að raun um það, að Fiskifélagið, sem hafði verið brautryðjandi í þessu máli, eins og hæstv. ráðh. minntist á hér áðan, hafði gersamlega verið hindrað í þessu máli, — vildi fjvn. ekki verða til þess að leggja til, að greiddar væru 200 þús. kr. í þessa byggingu. Ég benti nokkuð á það í framsöguræðu minni í dag, — og ef hæstv. ráðh. hefði verið við, hefði hann getað kynnt sér þetta mál, — að sannleikurinn er sá, að það þarf að byrja að byggja og koma fullu samkomulagi á milli þessara aðila, áður en farið er að láta nokkra krónu frá Alþ. í þessa byggingu. Hitt er annað atriði, sem ég er ekki viss um, að þm. verði sammála um. Það er að taka 1 millj. kr. úr fiskveiðasjóði til þess að gera þetta. Að vísu er fram komið frv. í þ., en fjvn. vildi sjá, hvernig þessu frv. reiddi af, áður en hún legði til, að lagt yrði fé í þessa byggingu. Ég veit ekki hvaðan hæstv. atvmrh. kemur sú heimild að lýsa því yfir hér á hæstv. Alþ., að töluverð óánægja sé með það, að þessi mál séu í höndum Fiskifélagsins. Ég leyfi mér hér að mótmæla þessu. Ég held, að það hafi hvergi heyrzt um það óánægja, að þetta mál sé í höndum Fiskifélagsins. Það hefur einmitt verið talið mikilsvert, að Fiskifélagið starfi á þessu sviði. Hitt er svo annað atriði, hvort Fiskifélagið er réttur aðili til þess að halda því starfi áfram, en þrátt fyrir það er hægt að ganga svo frá þessu máli, að engin vansæmd sé að, án þess að það sé gert á þann hátt, sem hér er lagt til. Svo ber einnig að athuga það í þessu máli, að ef það frv. verður að l., sem hér liggur fyrir, kemur til athugunar, hvort háskólinn getur ekki sjálfur staðið undir þessari byggingu og sé atvinnudeildin þannig lögð undir háskólann, og er þá aðallega að athuga, hvað mikið fé frá happdrættinu rennur til háskólans. Nú hefur happdrættið verið aukið úr 10 í 12 flokka á ári, og er þá athugandi, hvort það getur ekki staðið undir þessari byggingu, án þess að veita til þess fé úr fiskimálasjóði eða greiða fé úr öðrum sjóðum. Það má segja, að þarfirnar séu miklar, en þó verður ekki um það deilt, að betur sé fénu varið til þess að koma slíkri vísindastofnun upp en til þess að koma upp því íþróttahúsi og girðingu, sem hugsað er að láta féð renna í fyrst um sinn. Ég trúi því ekki, að háskólaráð vilji ekki endurskoða sína fyrri afstöðu um, að atvinnudeildin fari öll undir þeirra yfirráð. Þetta eru rökin fyrir því, að fjvn. vildi ekki leggja til, að tekið væri upp í frv. 200 þús. kr. framlag til þessarar byggingar.

Ég skal ekki ræða mikið við hæstv. ráðh. um hafnarframkvæmdir á Siglufirði, en aðeins leyfa mér að benda á það, að mér er alveg óskiljanlegt, hvernig samstarfið milli hans og hæstv. samgmrh. er, því að þessi till. er gerð í fullu samræmi og með vilja hæstv. samgmrh., að leggja ekki nema 100 þús. kr. í Siglufjörð. Vitamálastjóri lagði til, að þetta yrði 75 þús. kr., en það var hækkað um 25 þús. kr. í samráði við samgmrh., sem taldi, að Siglufjörður þyrfti ekki meira framlag fyrst um sinn, og hæstv. atvmrh. færði þá fyrir n. engin þau rök, sem hann hefur nú rætt hér í dag og ég geri frekar ráð fyrir, að hann flytji sem kosningaauglýsingu en hann ætlist til, að þau séu tekin gild. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að ég hygg, að Siglufjörður sé ein af þeim fáu höfnum á landinu, sem ekki hafa notað sér aðstöðu til að afla sér tekna eins og hefði mátt samkv. reglugerð. Það væri mjög vel athugandi fyrir hæstv. ráðh., sem einnig er þm. kjördæmisins, hvort hann vildi ekki beita sér fyrir því, að hafnarstjórinn á Siglufirði notaði að fullu réttinn til tekjuöflunar, sem hann á, til þess að gefa hafnarsjóði tekjur. Þyrfti þá kannske síður að ganga bónarveg til Alþ. um nauðsynlegar framkvæmdir.

Hv. þm. Vestm. óskaði eftir því, að áður en þessi nótt liði, yrði brugðið upp „Bíói“ af heimilishögum hans og frk. Halldóru Bjarnadóttur. Hann hélt hér mjög langa ræðu út af þessu ástalífi þeirra. En ég hefði haft gaman af, að hann hefði lesið meira en sjálft erindið. Ég hefði haft gaman af, að það hefði einnig verið látið fylgja dálítið af blómunum úr umsögn nýbyggingarráðs um þetta mál. Ég geri ráð fyrir, að ef ég hefði haft afrit af bréfinu, hefði ég getað séð, hver upphæðin var, sem nýbyggingarráð lagði til, að lögð yrði í þennan skóla, ekki hin sama og er hér á þskj., heldur miklu hærri. Var þá lagt til, að „frúnni“, eins og hann kallaði það, væru veittar 100 þús. kr. til þess að koma á stofn þessum skóla. En ég vil leyfa mér að benda á, að hér stendur: „Hefur nýbyggingarráð rætt þetta mál ýtarlega: Bréfi frú Halldóru fylgir kostnaðaráætlun, sem nær yfir eins árs rekstraráætlun á stofnkostnaði, og kemst hún að þeirri niðurstöðu, að kostnaður alls nemi 100 þús. kr.“ Nú var fjvn. ekki alveg ljóst, hvernig leggja ætti til að leggja fram 100 þús. kr. upp í rekstraráætlun á stofnkostnaði. Hins vegar fannst fjvn. það sorglegt atriði, þegar nýbyggingarráð var að tryggja sér konu til framkvæmda, sem komin var á áttræðisaldur. Fjvn. var það ljóst, að þegar einhver embættismaður er settur á laun hjá ríkinu, verður hann að fara, þegar hann er sjötugur, en nú ætlar nýbyggingarráð að byrja að veita launin við sjötugsaldurinn. Nú vil ég biðja hv. þm. Vestm. að blanda þessu ekki saman við Halldóru Bjarnadóttur, sem aldrei hefur komizt í tæri við nýbyggingarráð. — Hvað er það svo, sem á að kenna? Hvaða nýjar listir? Það á að kenna helzta ullariðnað, svo sem verkun ullar, þvott ullar og spuna ullar, vefnað og hannyrðir. Ég hélt sannast að segja, að íslenzka þjóðin hefði kunnað þetta áður en nýbyggingarráð varð til, og ég efast um, að nýbyggingarráð hefði nokkurn tíma fengið ástæðu til að skrifa svona ummæli, ef íslenzka þjóðin hefði ekki kunnað þetta áður. Svo endar þetta mjög svo skemmtilega rit á því, að nýbyggingarráði þætti vel til fallið, ef stj. vildi taka upp í næstu fjárl. hálfa upphæð til þess að koma skóla frú Halldóru á fót, enda yrði þá gert ráð fyrir framlagi til skólans annars staðar frá. Fyrst á ríkisstj. að fá nægilegt fé til skólans, svo er gert ráð fyrir nægu fé annars staðar frá.

Ég vil taka það fram, að ég hef ekki látið þessi orð falla hér vegna andúðar á Halldóru Bjarnadóttur, og mér leiðist meira að segja, að nafn þessarar ágætiskonu skuli hafa verið dregið hér inn í umr., en það hefði líka aldrei orðið, ef hv. þm. Vestm. hefði þekkt sinn vitjunartíma.

Nýbyggingarráð hefur einnig farið fram á, að fjvn. mælti með að styrkja mann nokkurn til að læra teppagerð. N. sá sér ekki fært að verða við því að styrkja þennan fertuga mann, þar sem hún veit ekki einu sinni, hvort viðkomandi maður hefur nokkurn tíma séð teppi, hvað þá heldur stigið á það. Nýbyggingarráð gerir ekki neitt gagn með slíkum aðferðum sem þessum, en mér skilst helzt, að það vilji fá einkarétt á því að vera ekki gagnrýnt.

Hv. þm. Vestm. ásakar n. einnig þunglega fyrir, að hún skuli ekki hafa viljað leggja meira fé til hafnarmannvirkja í Vestmannaeyjum. En sannleikurinn er sá, að fjvn. lagði aldrei til neina sérstaka upphæð til Vestmannaeyja, heldur til hafnarmannvirkja í heild. En frá vitamálastjóra. kom till. um 200 þús. til Vestmannaeyja, en það hefur aldrei komið fram nein till. um hækkun á þessu framlagi frá hv. þm. Vestm. Ég ræddi við hæstv. samgmrh., og lýsti hann því yfir, að engin ástæða væri til að veita nema 200000, m. a. vegna þess, að nú væri fundinn sérstakur staður í höfninni, þar sem hægt væri að geyma bátana á öruggari stað en áður. Ég fæ ekki skilið, að þótt veittar hafi verið 300000 kr. til Vestmannaeyja áður, að það sé neitt eilífðarframlag. Ekki gat ég vitað, hvað þessi hv. þm. ætlaðist til, að fjvn. gerði — ekki gat ég rannsakað hug hans, hjarta eða nýru. Ég held helzt, að hv. þm. sé ekki að halda því fram, að 200000 kr. sé of lítið, því að ég álít, að Þetta sé einungis kapphlaup við hv. þm. Borgf., enda hefur það fyllilega komið fram hjá þessum hv. þm., að þetta sé ekki of lítið fyrir Vestmannaeyjar, heldur, að öðrum sé gert betur. Hv. þm. sagði enn fremur, að einkennilegt væri, hvað fjvn. gæti dulizt, hvað væri að gerast á Skagaströnd. Ég verð að játa, að ég var ekki með í þeirri veizlu, sem ræddi þær framkvæmdir, en ég veit, að fjvn. aflaði sér upplýsinga m. a. hjá vitamálastjóra og samgmrh., þar sem látið er í ljós, að það fé, sem veitt er, sé nægilegt til þess að framkvæma það, sem hugsað er á næsta ári. Nú getur vel verið, að hv. þm. A.-Húnv. og V.-Húnv. hugsi sér, að gert sé meira, og þá þarf vitanlega meira fé, en þó kom skýrt fram í ræðu hjá hv. þm. A.-Húnv., að þetta fé sé nægilegt til þeirra framkvæmda, sem ætlað er. Þegar þessir menn eru svo að deila á fjvn. fyrir fjárveitinguna til Akraness, taka þeir alls ekki með í reikninginn, hvað ríkið skuldar höfninni á Akranesi. Það skuldar nú 500000 kr. Er ekki það sama upp á teningnum og þegar rætt er um Skagaströnd og Vestmannaeyjar, að það þurfi að fá fé til framkvæmda, af því að það er lagt á móti úr héraði. Allar dylgjur hv. þm. A-Húnv. og Vestm. eru því ástæðulausar og fram bornar af öfund við þessa umræddu staði. Fjvn. álítur einmitt, að það þurfi að hlúa að höfn, sem er við Faxaflóa. Þar fyrir er ráðh. engan veginn bundinn við bókun fjvn. Hann hefur umráð yfir hafnarbótasjóði, sem er sjálfsagt nú um 2 millj. kr. Ráðh. er aðeins bundinn við þær upphæðir, sem settar eru í frv.

Það er alger misskilningur, sem haldið hefur verið fram af sumum hv. þm., að það hafi verið tekin upp önnur aðferð við skiptingu nokkurra hundraða þúsunda til ákveðinna framkvæmda en áður hefur tíðkazt. Ég hygg, að þetta stafi af því, að hún sjálf vildi halda þeim sið að gera till. um allt það fé, sem ætlað er til verklegra framkvæmda. (JJós: Nú vantar ekki rannsókn hjartna og nýrna). Það er auðvelt, því að þetta liggur beint fyrir.

Þá kem ég að hv. þm. V.-Sk., sem hélt því fram, að framlag til fyrirhleðslu á Klifanda hefði ekki hækkað nema um 5000 kr. Ég veit nú ekki betur en í fyrra hafi verið veitt til þessarar fyrirhleðslu 30000. Ég held, að klerkurinn sé eitthvað farinn að ruglast í hebreskunni sinni, úr því að hann heldur, að munurinn á 30 og 50 sé 5. Mér finnst, að hv. þm. eigi ákaflega erfitt með að binda sig við sannleikann, en raunar þarf ég ekki að kippa mér upp við það. Hann ræðst á fjvn. fyrir það, að hún skyldi ekki taka upp þær till., sem hann flytur. Ég vil bara leyfa mér að spyrja: Hvernig á að samræma það að skera niður framlög til strjálbýlisins, en leggja á sama tíma 4–5 millj. í nýjan veg og höggva svo annan upp? Mér sýnist því þessir hv. þm. vilja nota báðar aðferðir. Þeir mæla með því að leggja nýjan veg og leggja samtímis mikið fé í eldri veginn, svo að allt þetta nemur meira fé en áður hefur verið lagt til vegamála almennt. Það er alltaf verið að halda því fram, hvað vegamálastjóri hafi sagt um svona mál. Það er hamrað á þessu látlaust, ef það fellur saman við hagsmunamál þessara þm., en ef orð vegamálastjóra eru þeim ekki í vil, þá er ekki á það minnzt. Hv. þm. V.-Sk. sagði, að vegamálastjóri legði til, að byggðar væru 3 brýr þarna austurfrá á þessu ári. En vegamálastjóri sagði aldrei annað en það, að þær yrðu byggðar, ef fjvn. sæi sér fært. Till. voru teknar upp um að fullgera tvær brýr á næsta ári, og var ekki öðru breytt en því, að Holtakíll var tekinn fram yfir Laxá. En hv. þm. verður víst ekki mikið flökurt að venda svo við sannleikanum. Hv. 2. þm. Rang. bar það fram, að ég hefði neitað að bera upp vegatill., sem fjvn. hafði borizt frá hans hendi. Ég lýsi yfir því, að þetta eru alger ósannindi. Ég veit ekki til, að nokkur till. hafi komið frá honum, sem ég hef neitað að bera upp eða stungið undir stól. Hvernig þetta hefur farið með rafmagnsstraumi í gegnum sál og heila hv. þm., veit ég ekki. Um till. hv. þm. til að styrkja gistihúsbyggingu í Múlakoti hygg ég, að honum sé óhætt að taka hana aftur, því að það er til sjóður í vörzlu póstmálastjóra, sem er ætlað að standa undir þeim byggingum, sem þannig eru reistar. Held ég, að bezt væri fyrir hv. þm. að ræða við póstmálastjóra og vita, hvort hann vildi ekki sinna þessu máli.

Þá hef ég svarað flestu af því, sem til n. hefur verið beint. Mun ég ekki tefja tímann nema sérstakt tilefni gefist til. Ég finn nú, að ég get verið hreykinn af þeim góðu undirtektum, sem till. fjvn. hafa fengið yfirleitt.