14.03.1946
Neðri deild: 87. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (3768)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. dómsmrh. og hv. síðasti ræðumaður virðast vilja eingöngu ræða um frv. með hliðsjón af því, að lögreglustjórum þessum er ætlað að vinna oddvitastörf í viðkomandi hreppum, eins og þessir lögreglustjórar séu eingöngu skipaðir til þess. En það er síður en svo, a. m. k. að því er kemur til Búðahrepps í Fáskrúðsfirði. Ég hef lagt áherzlu á það í grg. þessa frv., að það er álit íbúanna á þessum stað, að þegar sé full þörf, að ríkið eigi sinn starfsmann á þessum stað, sem innheimti f. h. ríkisins ýmis gjöld, sem ekki verður komizt hjá að innheimta þar tiltölulega fljótlega. Oft er það þannig, að sýslumaðurinn, sem er á Eskifirði, getur ekki komið því við. Enn fremur ber oft að höndum lögreglumál, sem ekki verður skotið á frest. Og ef ríkið vill standa við sínar skyldur gagnvart íbúum þessa staðar, sem er þetta fjölmennur, þarf að hafa þar lögreglustjóra. En fram hjá þessu virðist mér að hv. þm., sem talað hafa, líti með öllu, og vilji aðeins ræða þá hlið, að þessi lögreglustjóri sé jafnframt skyldur að gegna oddvitastörfum, ef hreppsnefnd óskar þess sérstaklega. En það er aðeins gert ráð fyrir slíku sem aukastarfi í ýmsum tilfellum, en síður en svo aðaltilgangur frv.

Ég vil í þessu sambandi benda á það, að sú hræðsla hjá þessum tveimur þm. um það, að frv. muni leiða af sér einhver vandræði, þ. e. embættafjölda, sem nemur kannske eins mörgum og öllum sýslumannaembættum, sem fyrir eru, — á ekki við rök að styðjast, því að sams konar ákvæði eru búin að vera í l. í mörg ár og hafa ekki dregið neinn óþægilegan dilk á eftir sér, síður en svo. Ég er næstum viss um, að aðeins mundu stærstu kauptúnin koma til greina, með þetta frá 600–1200 íbúa, sem liggja þannig við samgöngum, að þau eiga erfiða leið til síns sýslumanns og reynslan hefur því sýnt, að veruleg þörf er á lögreglustjóra.

Það hefur verið á það bent, að tveir lögreglustjórar, á Akranesi og í Ólafsfirði, hafi hætt að gegna oddvitastörfum. Það hygg ég hafi gerzt af eðlilegum ástæðum, þar eð þessir tveir hreppar eru gerðir að kaupstöðum og verða sérstakt lögsagnarumdæmi. Það er ekki við því að búast, að Akranes sem kaupstaður héldi áfram að láta sinn nýja bæjarfógeta gegna oddvitastörfum, auk þess sem sá staður er svo stór, að engin von er til, að einn maður geti jafnframt gegnt bæjarstjórastörfum þar. En ég álít, að reynslan hafi látið í ljós, að engin ástæða sé til að búast við, að margir staðir mundu fara fram á þetta. Þeir hafa ekki gert það fram að þessu, þó að þessi ákvæði hafi verið í 1. Reynslan hefur einnig sýnt, að þar, sem aðstaða hefur verið til, hafa lögreglustjórar einnig gegnt oddvitastörfum, en slík aðstaða var, raunverulega horfin á Akranesi og Ólafsfirði.

Hv. þm. Snæf. gerði frv., sérstaklega að umtalsefni, en viðurkenndi, að þetta frv. hefur orðrétt ákvæði eins og 1., sem nú eru í gildi um lögreglustjóra í Keflavík og Bolungavík. Það kann vel að vera, að við hefðum mátt semja þetta frv. nokkru ýtarlegar en er. En það hefur nú þótt hlýða hér í ýmsum öðrum málum og þótti duga í fyrra, að tekið sé fram á einum stað í frv., en nánar ákveðið í reglugerð, um starfssvið embættis. Sé ég ekki annað en að sú upptalning, sem hv. þm. minntist á sem starfssvið lögreglustjóra, sé alveg jafnheimil í reglugerð, sem viðkomandi ráðh. á að setja. Held ég, að þótt upptalningin í 1. gr. frv. um starfssvið lögreglustjóra sé ekki fullkomin, bæti ákvæði 4. gr., sem gerir ráð fyrir reglugerð, að fullu um.

Þá hefur verið minnzt á það, að of mikið sé lagt í 3. gr., að lögreglustjórar þessir skuli auk launa sinna samkvæmt launalögum fá aukaþóknun úr sveitarsjóðum, ef þeir gegni oddvitastörfum. En vel getur svo verið, að lögreglustjórastarf þyki alveg fullkomið starf og sveitarstjórn telji ekki rétt að bæta oddvitastörfum við lögreglustjóra nema honum verði þóknað eitthvað fyrir úr sveitarsjóði. Og ég hygg, að menn geti viðurkennt þetta, þegar menn athuga betur þá launahæð, sem um er að ræða hjá lögreglustjóra í svona þorpi, 6–8 þús. kr. En það er svo á hendi ráðh. og viðkomandi hreppsnefndar að ákveða þessa launaviðbót í hlutfalli við starfsmagnið. Það er alveg sýnilegt mál, að lögreglustjórastarf samkv. launalögum er allmiklu verr launað en bæjarfógetaembætti. En það getur vel svo farið, að lögreglustjórastarf á þessum stöðum verði fullkomlega eins starfsfrekt og bæjarfógetastarf í sumum kaupstöðum landsins. Ég býst við, að lögreglustjórastarfið í Keflavík sé engu minna starf en bæjarfógetastarfið í Neskaupstað. Keflavík er talsvert fjölmennur staður, og þegar lögreglustjórinn þar er jafnframt skyldur til að taka að sér oddvitastörf í svo stórum hreppi, finnst mér sanngjarnt, að þar sem launalög ákveða honum lægri laun en bæjarfógetanum í Neskaupstað, sé honum ákveðin einhver þóknun fyrir þessi störf. Og þó að svo standi á, að í Búðahreppi í Fáskrúðsfirði sé lögreglustjórastarfið ekki eins mikið starf og bæjarfógetastarf í smærri kaupstöðum landsins, getur fyllilega til þess komið, að það verði jafnmikið starf, og því er réttlátt að ákveða að heimila að greiða aukaþóknun, sem ákveðst af viðkomandi ráðh. og sveitarstjórn.

Ég þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta. Ég álít þetta sanngirnismál, að Alþ. leysi þetta mál eins og það hefur leyst samsvarandi mál á öðrum stöðum, svo sem Keflavík og Bolungavík. Og ég vænti þess, að frv. þetta verði samþ. með þeim breyt., sem allshn. hefur gert á því.