20.03.1946
Efri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (3775)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Félags- og dómsmrh. Finnur Jónsson) :

Ég vil út af þessum umr. hér undirstrika það, sem ég sagði hér í d. áður, að það er mjög varhugaverð braut að stofna þessi smáembætti með fullum launum, þar sem sýnilegt er, að ekki verður um nægilegt starf að ræða. Það hefur komið fram, að þessir lögreglustjórar gætu haft oddvitastörf líka, en reyndin er alls ekki sú. Það er oft skipt, um hreppsnefndir og leiðir það oft af sér oddvitaskipti. Niðurstaðan hefur orðið sú, að víðast hvar er þessum störfum stíað í sundur. Það er því sýnilega ekki nóg starf fyrir þessa lögreglustjóra, og má sem dæmi nefna Ólafsfjörð.

Ég tel, að verði þetta frv. samþ., leiði það af sér að minnsta kosti 10 önnur sama efnis. Slíka fjölgun embættismanna tel ég mjög varhugaverða braut.

Til að friða háttv. 1. þm. Eyf. ( BSt ) get ég sagt það, að frv. var afgr. í Nd, á mjög fámennum fundum (IngP: Fundir gerast nú allfámennir hér á Alþingi. ) og frv var hvorki við 2. né 3. umr. samþ. af meiri hl. deildarinnar, og að mér skildist getið sér þess til, að Ed. léti það fá sömu meðferð. Ég get ekki nógsamlega aðvarað þm. að athuga vel, hvaða braut farið er inn á með þessu. Þá hefur það og takmörk, hvað hægt er að stofna af embættum. Þó að eitthvert fé sé að vísu til nú. þá getur það minnkað, ef farið er inn á slíka braut. Ég tel líka, að lögreglustjórastörf í svona kauptúnum geti ekki verið bundin oddvitastörfum.