21.03.1946
Efri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (3779)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði helzt óskað að ráðh. væri viðstaddur, en hann er víst ekki viðlátinn.

Ég verð að segja, að mér finnst, að það sé mjög varhugavert að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir. Ég hef að gamni verið að athuga, hvaða aðrir staðir gæti komið til mála, að færu að krefjast þess sama og uppfylla sömu skilyrði og farið er fram á hér í þessu frv. Það, sem lögð var megináherzlan á, var, að því er mér skildist af ræðum þm. í gær, að viðkomandi lögreglustjóri gæti tekið að sér sveitarstjórn eða oddvitastarf, og fannst mér það vera þungamiðjan í málinu hjá þeim aðila. Þá kemur til greina, skilst mér, að það væri Borgarnes. Að vísu situr þar sýslumaður, en ekki hefur hann oddvitastarf á hendi. Hólmavík, Bolungavík, Hjalteyri, Glerárþorp, Bakkafjörður — hann hefur fleiri íbúa en Ólafsfjörður —, Sauðárkrókur, Húsavík, Eskifjörður, Selfoss, Fáskrúðsfjörður, sem hér er verið að tala um, Stykkishólmur, Stokkseyri, Akureyri, svo að drepið sé niður á nokkrum stöðum. Þess utan held ég, að verði mjög erfitt að sameina þessi tvö sjónarmið, sem gert er ráð fyrir í rökum hv. ræðumanna, og það að láta viðkomandi aðila vera formenn eða oddvita hreppsnefndarinnar. Okkur er ljóst, að hreppsnefndir yfirleitt eru orðnar svo pólitískt atriði, að oddvitastarfið er ekki látið í hendur annarra manna en þeirra, sem fylgja a. m. k. meiri hl. að málum, bæði í héraðs- og landsmálum. Þetta hefur meira að segja valdið því, að kjósa hefur orðið upp aftur til þess að fá slíkan starfshæfan meiri hluta í hreppsnefndinni. Ég tel því, að meginástæðan fái ekki staðizt, að það fái ekki staðizt, að þessir menn geti nema undir sérstökum kringumstæðum gert hvort tveggja í senn, verið lögreglustjórar og oddvitar. Mér skilst einnig, að verði frv. þetta að l., eigi þessir menn að hafa full laun samkv. launalögum sem lögreglustjórar og taka þá hitt að sér sem aukavinnu, uppbót á sín fullu laun, og skilst mér, að það sé nú orðið 2% af allri innheimtu, sem oddvitar hafa. Og ég held, að það sé hægt að fá menn til að gera þessi verk. Hitt held ég, að valdi meiru um, að hver flokkur getur ekki komið að þeim manni, sem honum tilheyrir og gjarnan vill taka það.

En ég vil svo benda á í sambandi við þetta, að mér finnst mjög tímabært að taka til athugunar, hvort ekki ætti að gerbreyta öllu kerfinu, aðskilja alveg innheimtuna og dómsvaldið, og ríkisstj. þyrfti sannarlega að láta fara fram rannsókn á því atriði. Innheimtan er orðin aðalstarf flestra sýslumanna og bæjarfógeta á landinu, en dómsstarfið er miklu minna. Hygg ég, að það muni vera svo, að í vissum sýslum á landinu sé ekki felldur dómur nema svona annað hvert ár, og kemur þá til athugunar hvort ekki ætti að setja sérstaka héraðsdómara yfir stærra svæði til þess að hafa með þau mál að gera einungis, en gera innheimtuna kostnaðarminni, því að það þarf vissulega ekki 15 ára skólagöngu til þess að innheimta fyrir ríkissjóð eftir ákveðnum leiðum, og mætti máske sameina þetta, eins og hér er farið fram á, en þó þarf það meiri undirbúning.

Samkv. nýju launalögunum skilst mér, að víðast hvar séu sýslumönnum ákveðnir fulltrúar, og gildir það víst einnig um lögreglustjóra, þó að hér sé um að ræða störf, sem ríkissjóði ber ekki að láta inna af hendi. En fyrir mér sýnist þetta vera þannig, að þetta hafi mjög mikinn kostnað í för með sér annars vegar, og að þetta sé ekki fullt starf fyrir þessa menn hins vegar. Ég álít, að þegar sé búið að gera of mikið af því að skipta þessu. Ég var á móti því, þegar Ólafsfirði var skipt, tel, að það hafi ekki verið nein forsjálni eða þörf, enda kom það fram, að þeir vildu hafa hagnaðinn af skiptunum, en komu síðan til Alþ. biðjandi að mega hafa þau fríðindi, sem þeir misstu við það, að skiptin voru gerð. Ég sé því ekki, að þetta sé til bóta, og mun því greiða atkv. móti þessu frv., eins og það liggur fyrir.