01.04.1946
Efri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (3785)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Frsm., (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Mér virðist óþarfi að fresta þessu máli af þeim ástæðum, sem hv. þm. Barð. talaði um, til þess að hægt væri að ræða við hæstv. dómsmrh. um það. Hæstv. dómsmrh. hefur rætt þetta mál áður hér í d., og öllum hv. þm. er kunn hans afstaða. Hann ræddi um málið þegar þetta frv. var til 1. umr. Ég hafði þá borið nokkrar spurningar fram við hann, en hann fór af fundi. En ef hann hefði haft brennandi áhuga á. málinu, hefði honum verið vorkunnarlaust að doka við. Og þegar alveg sams konar mál var á ferðinni hér í d., lét hann í ljós álit sitt á því. En svo er annað. Hvenær verður hæstv. dómsmrh. viðstaddur hér í deildinni ? Nú eru tveir hæstv. ráðh. hér staddir og hafa hér atkvæðisrétt, en koma þó ekki oft. Og hinir ráðh. koma hér aldrei nema þeir hafi mál að flytja. Þetta veit hv. þm. Barð. Það er því sama og koma málinu fyrir kattarnef að bíða með það. En ef hæstv. forseti ætlar að verða við þeim tilmælum að taka málið af dagskrá, þá er bezt að ég láti máli mínu lokið nú, annars vildi ég tala, meira. En hvað vill hæstv. forseti gera? (Forseti: Ég vildi gjarnan fresta umr., ekki einungis vegna tilmæla hv. þm. Barð., heldur vegna annarra mála á dagskránni). Ég mun þá beygja mig fyrir vilja hæstv. forseta.