03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (3790)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki gera það að neinu þrætumáli, hvort dagskrártill. verður samþ. En til þess að samþ. þá dagskrá, sem fram hefur komið frá hv. 1. þm. Eyf. um frv. um Dalvíkurlögreglustjórann, þá verður hún auðvitað að koma fram.

En ég vil taka fram með örfáum orðum, að það er ekki rétt hjá hv. 1. þm. Eyf., að það séu miklar líkur fyrir því, að þörfin sé meiri á þeim stöðum, þar sem menn krefjast og heimta lögreglustjóra. Þeir, sem heimta ekki eða gera kröfur, hafa ef til vill meiri þörf, svo að maður getur ekki dregið neinar ákveðnar ályktanir af því út af fyrir sig. En ég verð að segja, að það er ekki hægt annað en telja það stefnubreytingu, ef nú á að fara að samþ. lögreglustjóra í öllum þeim kauptúnum, sem hv. þm. Barð. taldi upp hér við umr. (BSt: Liggja fyrir nokkrar till. um það? — GJ: Þær koma á eftir). Það er í raun og veru engin fjarstæða, að till. komi um slíkt, og mér er sagt af þm. eins kjördæmis, að nú vildu menn fá 2 lögreglustjóra í viðbót bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri. Svona mundi þetta halda áfram, og því tel ég réttara að spyrna við fótum og athuga málið, áður en gengið er lengra. En ef einhverjir hv. þm. vildu leggja fram einhverja aðra dagskrártill., þá er mjög sennilegt, að samkomulag geti orðið um að samþ. hana.

Hv. 1. þm. Eyf. var að brigzla mér um það, að ég stæði ekki á móti fjölgun embætta í mínu héraði. En ég verð að segja það að þar hefur heldur orðið fækkun embætta, en ekki fjölgun, og ég hygg, að ég hafi ekki sótzt eftir að hafa þar fleiri embætti en vera ber samkvæmt l.

Ég veit, að það er rétt, að hér í Rvík hefur verið ráðinn fjöldi manns inn á skrifstofur með háum launum. En sem betur fer er enn ekki búið að lögfesta það, og ef sterk ríkisstj. gæti komizt að, ætti hún a. m. k. hægara með að rýma þar til en ef lögfestir væru embættismenn eins og hér er lagt til að gera.

Ég heyrði ekki nákvæmlega um það hjá hv. 1. þm. Eyf., hvor staðurinn væri fjölmennari, Búðahreppur eða Dalvík. (BSt: Mig minnir Dalvík). Mig minnir, að þetta sé öfugt, en það er út af fyrir sig. En ég tel, að dagskráin eigi að verða samþ. í stað þess að láta frv. ganga í gegn í deildinni.