18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

16. mál, fjárlög 1946

Gunnar Benediktsson:

Ég er meðflm. að 2. till., en sé ekki ástæðu til að ræða um þær hér, að svo stöddu. Hins vegar vil ég ræða nokkuð till. á þskj. 362 frá 1. þm. Árn. og þm. V.-Sk. um Austurveg. Ég mun vera eini maðurinn hér úr mþn., sem hafði þetta mál til athugunar. Í umræðunum hefur komið fram nokkur misskilningur á till., sem ég nú vildi nota tækifæri til að leiðrétta á þessu stigi málsins, þótt ég þykist vita, að sá misskilningur leiðréttist þegar þm. hafa kynnt sér málið betur.

Ég hef að undanförnu lagt eyrun við, hvort ekki kæmu fram till. um fjárveitingu til þessa vegar, en sú fjárveiting kom aldrei. Ég fann sökina að nokkru leyti hjá nefndinni í vegamálunum, vegna þess hvað málið var seint tilbúið frá hennar hendi. Þegar svo frv. um Austurveg kom í Ed., þar sem gert er ráð fyrir, að framlags til vegarlagningarinnar sé aflað með lántökuheimild, þá lét ég mér það vel líka, því að þegar um svona stórkostleg fyrirtæki er að ræða, verður eðlilegt, að kostnaður við þau komi niður á lengri tíma en 6 ár. Hins vegar varð ég mjög undrandi, er ég sá till. á þskj. 362. Og ég leyfi mér að efa, að flm. hafi gengið nokkuð gott til með þessari till., og tel mikinn vafa, að þeir hefðu flutt till., ef þeir hefðu búizt við, að hún næði fram að ganga. 1. þm. Árn. vék að því, að þetta væri rétta leiðin, og jafnframt, að þetta væri ekki í fyrsta skiptið, sem hún væri valin. Þegar rætt vár um járnbraut eftir 1920, var þessi leið álitin bezt, og eftir 1930 var þessi leið líka talin sú bezta. Þetta er rétt. Hitt þótti mér tortryggilegt, þegar þm. var að tala um Ölfusforirnar sem vafasama leið. Hv. þm. er það ljóst, að vegaverkfræðingar, sem hafa rannsakað vegarstæði þar, hafa aldrei efazt um, að þar er vel nothæft vegarstæði, því að þótt þær séu alldjúpar, þá er þar alls staðar hraun undir. Ég hefði því ekki séð ástæðu til að ræða um þetta, ef ekki hefði verið ræða hæstv. fjmrh. (PM). Hann er stoltur af því að hafa verið á móti Krýsuvíkurvegi. Margar villur hafa verið gerðar varðandi samgöngurnar yfir fjallið, en þó sennilega sú stærsta, þegar horfið var frá að leggja Þrengslaveginn 1933, en Krýsuvíkurvegur valinn í staðinn. Öllum er ljóst, að þegar sú leið var valin, var ekki hugsað um að fá framtíðarveg austur, heldur að fá veg í Krýsuvík frá Hafnarfirði og austur í Þorlákshöfn. Augljóst er, að þar sem flutningar eru orðnir svo miklir á þessari leið, kemur ekki til mála að nota Krýsuvíkurveginn sem aðalleið, þar sem hún er nálega 1/3 lengri en Þrengslaleið. Hæstv. ráðh. leggur til, að haldið verði áfram með Krýsuvíkurleiðina og henni lokið áður en byrjað verður á hinni. Þetta kom mér óvænt. Ég átti von á því, að hæstv. ráðh. vísaði til frv., sem komið er fram í Ed., og rétt væri að bíða eftir afdrifum þess: Það er engin ástæða til þess að reyna Krýsuvíkurleiðina áður en hafizt er handa með Þrengslaveginn, þar sem leiðin um Krýsuvík er lengri og verður því aldrei aðalleið. Hins vegar er langt frá því, að ég taki undir það hjá hæstv. ráðh., að ef ekki sé strax lokið við Krýsuvíkurveginn, þá sé það, sem þar hefur verið gert, ónýtt verk. Því fer fjarri, sá vegur er í sínu fulla gildi þegar hann kemur. Í fyrsta lagi sem varaleið austur, í öðru lagi sem vegur milli ákveðinna staða, eða frá Rvík og Hafnarfirði til Krýsuvíkur, og svo frá Selvogi til Selfoss. Og þegar Krýsuvíkurvegurinn er tilbúinn, er auðvelt að gera veg frá Krýsuvík til Grindavíkur, en þá er kominn öruggasti vegurinn til Reykjavíkur.

Þá vil ég minnast á kostnaðinn. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það, að það kostar litlu meira að leggja malarveg af þjóðveginum neðst í Svínahrauni yfir á Suðurlandsbraut hjá Þurá en að fullgera Krýsuvíkurleiðina. Menn hafa áhyggjur af því, að ekki fáist nægilegt vinnuafl, en ég held þó, að það þurfi einmitt minna vinnuafl til að vinna að Þrengslavegi en til að ljúka Krýsuvíkurvegi, vegna þess að hægt verður að nota meira vélar og það stórvirkari vélar en við Krýsuvíkurveg. Nú vil ég líka benda á það, að þegar mest kapp var lagt á Krýsuvíkurleiðina, þá gengust margir upp við það, að nauðsyn væri að fá leið sem allra skjótast, sem væri miklu öruggari en Hellisheiðarleiðin er. Sú leið er þegar fengin gegnum Þingvöll, þannig að hún hefur mjög bætt úr. Hún hefur verið þrautalendingin undanfarna vetur, og svo mikil þrautalending, að það má segja, að samgöngurnar austur hafi tiltölulega lítið stöðvazt. Nú geri ég hins vegar ráð fyrir því einnig, að ef gerður er vegur úr þjóðveginum í Svínahrauni og á Selvogsvéginn, muni með því fást allörugg leið. Þessi vegur mundi vera 100 metrum lægri en Hellisheiðarvegurinn. Auk þess er vegarstæði þar svo gott, að undir mörgum kringumstæðum tel ég hann öllu öruggari en Krýsuvíkurveginn, vegna sérstaks hafts, sem hætt er við að komi á Krýsuvíkurleiðinni þegar fennir. Í fyrravetur stoppaðist leiðin frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar fyrr en Hellisheiðin. Auðvitað komu snjóalög í fyrra undir nokkuð óvenjulegum kringumstæðum, því að mjög oft snjóaði þá af útsuðri, og það er óheppilegasta átt fyrir þennan veg.

Þá vil ég benda á það að síðustu, að hér er um mjög stórkostlegt fjárhagsatriði að ræða að fá sem fyrst þennan steinsteypta veg yfir Þrengslin sem skemmstu leið. Samkv. þeim gögnum, sem þessi nefnd gat útvegað um flutninga 1943, þ. e. síðasta árið, sem n. gat náð í þær upplýsingar frá, er það hvorki meira né minna en að fargjöld og flutningsgjöld nema yfir árið 40 þús. kr. á hvern km. á Hellisheiðarleiðinni. Við sjáum því, hve mikla þýðingu þetta hefur, ef steinsteyptur vegur kæmi austur, svo að hægt væri að lækka flutningsgjöldin um 10% eða jafnvel upp í 20%, hve mikla peninga hér er um að ræða. Það mundi mikið rekstrarfé sparast á hverju ári, ef vegi þessum væri flýtt.

Ég vildi nota þetta tækifæri til þess að benda hv. þm. á þetta, til þess að koma í veg fyrir það, að umr. hér um þessi mál gætu orðið til þess, að einhverjir hv. þm. bitu sig í eitthvað, sem væri ekki rétt og gæti orðið þessu máli til trafala síðar meir. Því að sannleikurinn er sá, að svo miklir skandalar hafa orðið í sambandi við þetta vegarmál, sem snertir nú orðið fullan helming þjóðarinnar, að það væri rétt að gera allt, sem hægt er, til þess að hindra, að það endurtæki sig. Og ég þykist nokkurn veginn sannfærður um það, að brtt. á þskj. 362,VIII muni ekki ná fram að ganga, þar sem við 3. umr. fjárl. kemur fram svona há brtt., sem nemur upp undir 4 millj. kr. En mér þætti ekki illa til fallið, að samþ. væri aftur á móti varatill., sem er XXXVIII. liður á þessu sama þskj., þar sem ríkisstj., væri heimilað þetta fjárframlag, því að ég álít það vera styrk við framkvæmd málsins á seinni stigum þess.