04.03.1946
Efri deild: 76. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (3805)

112. mál, jarðhiti

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Eins og tekið er fram í nál. á þskj. 479, þá tel ég, að þetta mál þurfi frekari athugun, og er þess þar, getið, að ég tel mig ekki vera viðbúinn því að mæla með þessu frv. Auk þess skrifa ég undir með fyrirvara, og hef ég því óbundnar hendur við atkvgr. um þetta mál. Ég ætla þó ekki á þessu stigi málsins að leggjast á móti því. En ástæðan til þess, að ég var ekki við búinn að mæla með frv., er sú, að mér finnst, að þetta frv. gangi nokkuð nærri eignarrétti manna. Ég sé ekki betur en samkv. þessu frv., ef það verður að l., banni það mönnum að hagnýta sér jarðhita, sem kann að vera í þeirra landi, og veit ég ekki, nema þetta geti komið illa við. Ég skal þó játa, að það kann að vera nokkur bót að þeirri brtt., sem n. hefur gert við frv., en þar segir: Í stað orðanna „Skal leyfi eigi veitt, ef hætta kann að þykja á því“, komi: Skal leyfi eigi til þeirra veitt, ef hætta þykir á því. — Það er ekki mikill munur á þessu, en þó er breyt. til nokkurra bóta. En að ég leggst ekki á móti þessu frv. þrátt fyrir aths. mínar, stafar af því, að ég tel, að það eigi fullkomlega rétt á sér að tryggja það, að mannvirki í sambandi við jarðhita verði ekki gerð gagnslaus með ráðstöfunum annarra manna, en ég hefði haldið, að það þyrfti nánari athugunar við, hvernig það væri bezt tryggt jafnframt því, sem réttur manna væri sem minnst skertur. Ég er enginn sérfræðingur í þessum efnum, en ég álít, að öll atriði hvað þetta snertir séu ekki enn nægilega vel athuguð.

Ég skal ekki leyna því, að ég hefði helzt kosið rökst. dagskrá, þar sem ríkisstj. væri falið að láta fram fara nákvæma endurskoðun á þessum málum fyrir næsta þing. Ég hefði talið það varlegra. Ég hef ekki gert neina till. um þetta og skal ekki segja, hvort ég flyt dagskrártill. við 3. umr. Ég mundi þó líklega fremur kjósa að flytja brtt. við þetta frv. til að tryggja betur rétt einstaklinga, en mig brestur nokkuð þekkingu á þessu máli til þess að útbúa brtt. með þeim árangri, sem ég hefði kosið.

Ég skal svo ekki orðlengja, þetta frekar. Ég mun fylgja frv. við þessa umr., en áskil mér allan rétt við 3. umr.