11.04.1946
Efri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (3812)

112. mál, jarðhiti

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, var afgr. til 3. umr. að mestu leyti án ágreinings. Við 3. umr. málsins flutti hv. 1. þm. Eyf. brtt., sem n. þótti rétt að athuga og varð hún sammála um að leita álits Rafmagnseftirlits ríkisins. Álit þess hefur nú nýlega borizt, en þar er ekki tekin afstaða til ágreinings, sem var milli hv. 1. þm. Eyf. og annarra nm. Meiri hl. n. treystir sér ekki til að fullyrða, hvað er réttast í þessu máli, og viljum við ekki taka á okkur þá ábyrgð að leggja til, að málið verði afgr. á þessu þingi án þess að fullnaðarrannsókn fari fram. Við viljum því leyfa okkur að flytja svohljóðandi rökst. dagskrá:

„Efri deild telur, að nauðsyn sé á, að sett verði lagafyrirmæli um eftirlit með jarðborunum og til tryggingar því, að virkjun jarðhita verði eigi skemmd að ófyrirsynju með síðari mannvirkjum, og skorar þess vegna á ríkisstjórnina að semja, í samráði við sérfræðinga, frv. til l. um notkun jarðhita, bar sem fullnægjandi ákvæði verði um þessi efni, og tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá í trausti þess, að ríkisstjórnin leggi frv. þetta fyrir næsta Alþingi.“

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. En ég legg á það ríka áherzlu, að hæstv. ríkisstj. bregðist vel við þessu máli og sjái um, að verkfræðileg athugun fari fram. Vil ég biðja hæstv. forseta að vekja athygli hæstv. ríkisstj. á þessu, þar sem enginn ráðh. er viðstaddur.