21.11.1945
Neðri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (3844)

96. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi bara taka það fram í sambandi við ræðu hv. 2. landsk. þm. (ÁS), að mér er kunnugt um þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um Höfn í Hornafirði í þessu efni, því að þær hafa allar verið gerðar undir minni stjórn, og þær eru ekki gerðar með hliðsjón af fiskveiðahöfn, heldur miðaðar að þrennu: Að auðvelda skipakomur inn á innri höfnina með nauðsynlegri dýpkun til þess. Í öðru lagi til að skapa skjól fyrir ísreki og stormum fyrir fiskibátaflotann. Og í þriðja lagi miða þær að því að tengja Hornafjörð við samgöngur út um land. Þetta eru þau þrjú höfuðsjónarmið, sem hafa legið til grundvallar, viðkomandi athugun á umbótum á höfninni í Höfn í Hornafirði. Hins vegar hefur ekki sú athugun verið gerð með sérstöku tilliti til þess, að þarna komi upp stór landshöfn með mjög auknum bátaútvegi og framkvæmdum í sambandi við það. Það sjónarmið var ekki við þessa athugun sem aðalsjónarmið, heldur hitt, að auka skipakomur til þessa staðar og tengja þær við aðra staði landsins og skapa nokkurt skjól, bæði fyrir ís og stormi: — Ég teldi því, að ef þarna ætti að gera landshöfn með mjög auknum bátaútvegi og einnig með öllum þeim fiskvinnslustöðvum, sem er hér gert ráð fyrir, þá þyrftu þessar áætlanir mjög að endurskoðast. Og ég er viss um, að það þyrfti að breyta þeim mjög verulega, ef þessar till. frv. ættu að verða að veruleika. — Þetta tek ég fram af því, að mér er vel um þessar áætlanir kunnugt, sem hv. 2. landsk. þm. minntist á, því að ég hef látið gera þær.