02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (3874)

166. mál, ávarpsheiti kvenna og karla

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég býst við, að orð eitt, sem áður var algengt, sé ekki alveg gleymt, þótt víða sé það horfið, enda hefur það ekki sömu þýðingu og áður fyrr. Það er orðið áróðurpartur. En það er þannig til komið, að fyrr á öldum var tízka, að systir erfði minna en bróðir. Vitað er, að fram úr öldum höfðu konur minni lagalegan rétt en karlar. Af þessu hefur leitt ýmsan órétt, þótt mikið hafi lagazt á síðari árum, a. m. k. á Vesturlöndum. Menn hafa séð, að það er ekki réttlátt, að hlutur systur sé gerður minni en hlutur bróður. Ég hef hér minnzt á atriði, sem er þess virði, að því sé veitt eftirtekt. Að vísu má það teljast lítið, en ég tel það þó nokkru skipta og einn lið í jafnréttisbaráttu kvenna.

Eins og ég hef gert grein fyrir í grg. þáltill., er að ýmsu leyti særandi og niðrandi fyrir konur, að um þær séu mörg ávarpsheiti, eftir því, hvort konan er gift eða ógift o. s. frv., þar sem hins vegar er aðeins eitt um karla. Mjög margar konur geta varla litið utan á bréf til sín án uggs um, að ávarpsheitið kunni að vera eitthvað móðgandi, óviðeigandi.

Ég segi, að gert er ráð fyrir að hafa virðulegasta ávarpsheitið, sem kemur jafnvel fram í ritum Snorra. En margir hafa haldið því fram, að það sé óviðkunnanlegt. Leiðinlegt er, segja sumir, að ekki sjáist, hvort konan er gift eða ógift. En um karla er þetta öðruvísi.

Þessi hugsunarháttur er leifar frá þeim tíma, er konur voru lægra settar og höfðu minni rétt en karlar.

Þegar svo háttar til, að konur sækjast eftir sjálfstæðri atvinnu og giftast ekki, en þannig er það um margar þeirra, þá er hætt við, að þær séu særðar vegna ávarpsheita. Þessu er ekki auðvelt að breyta með venju. Ég hef ekki trú á því. Kemur hér ýmislegt til greina.

Mér hefur verið sagt, að hér í bænum hafi fyrir skömmu verið beitzt fyrir því meðal kvenna, að sama ávarpsheiti skyldi notað um þær allar. En þessi samtök komu konum ekki að neinu haldi. Ég tel heppilegra, að þessu sé breytt með lagaboði. Held ég, að ekki verði svo mjög skiptar skoðanir um þetta.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar og vænti þess, að till. verði samþykkt.