15.03.1946
Sameinað þing: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (3883)

109. mál, vatnsveita Stykkishólms

Gísli Jónsson:

Ég vil út af ummælum hv. þm. Snæf. algerlega mótmæla þeirri staðhæfingu, að máli þessu hafi ekki verið sinnt í fjvn. Sannleikurinn er sá, að drátturinn, sem orðið hefur á þessu máli, er allur honum sjálfum að kenna, því að hann hefur ekki fyrr en nú gefið neinar verulegar upplýsingar um málið. Í sambandi við þetta vildi ég benda á það, að það eru fleiri en þetta eina mál, sem liggja fyrir um styrk til vatnsveitna. Það er einnig annað mál, á þskj. 143, um ríkisábyrgðarlán til vatnsveitu í Keflavík, og fjvn. er ljóst, að sé farið inn á þá braut að samþ. með þál. lán eða styrki út í bláinn fyrir eitt hérað, jafnvel þótt það sé nauðsynlegt, þá er komið inn á þá braut, sem ekki verður stöðvað sig á fyrr en búið er að setja fullkomna löggjöf um þetta mál. En þrátt fyrir þetta hefði fjvn. verið fús til að taka málið til umr., ef ekki hefði staðið á hv. flm. að gefa upplýsingar, sem hann fyrst virðist geta lagt fram í dag, meðal annars það, að þetta kostar 650000 kr. Fjvn. hefði gjarnan viljað fá að vita, hvernig áætlaður væri rekstrarkostnaður þessa fyrirtækis og hvernig tryggja eigi þetta. Allt voru þetta upplýsingar, sem fjvn. þurfti að fá, en hv. þm. Snæf. hefur ekki viljað láta af hendi eða ekki nennt að afla. — Að fengnum þessum upplýsingum vil ég óska þess, að umr. sé frestað og málið tekið af dagskrá og fjvn. verði gefið tækifæri til þess að fá þessar upplýsingar skjallega frá hv. þm. Snæf. og fleiri þær upplýsingar, sem n. vill fá, og þegar þær liggja fyrir, mun n. gefa út álit um þetta mál, annaðhvort í heild eða klofin, eins og venja er til. N. vill að sjálfsögðu í jafnmikilsverðu máli og þessu marka ákveðna línu, því að fari þessi till. svona í gegn, þá er útilokað annað en það hópist inn till. í stórum stíl, till. sama eðlis. Meðal annars hafa áður verið hér á ferðinni svipaðar till. um Grímsey, Glerárþorp og Vestmannaeyjar og munu koma víðar að af landinu.

Ég læt þetta svo nægja, en vil óska eftir, að hæstv. forseti málsins vegna fresti umr. og gefi fjvn. tækifæri til að gefa út nál.