15.03.1946
Sameinað þing: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3889)

109. mál, vatnsveita Stykkishólms

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Ég vil aðeins taka það fram, að þessi skemmtilegu ummæli, sem hv. þm. Barð. hafði eftir mér, um afstöðu mína til flokkanna, er þvættingur einn. Að öðru leyti vil ég taka það fram, að ég fæ ekki séð, að till. hv. þm. Barð. um að vísa málinu til fjvn. fái staðizt. Málinu hefur verið vísað til fjvn. og er því hjá henni, en n. hefur dregið að skila áliti. Ég vil því mótmæla því, að farið verði að fresta málinu til þess að n. tefji það enn meira en orðið er. N. hefur haft málið hjá sér síðan 5. des. og ekki skilað áliti þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. En út af fyrir sig get ég vel skilið þá afstöðu form., að hann vilji ekki afgr. málið eitt út af fyrir sig. En ef þessu máli er frestað nú, þá þýðir það það, að form. n. mun beita sér fyrir því, að málið verði ekki afgr. fyrr en heildarlöggjöf liggur fyrir. Ég vil því eindregið skora á hæstv. forseta og þm. að stuðla að því, að gengið verði til atkv. um málið nú. Þetta mál er mjög aðkallandi nú og verður það enn meir með hverjum deginum sem líður, því að það þarf að fá afgreiðslu til þess að fjmrh. geti formlega gengið frá þessari ábyrgð.