19.03.1946
Sameinað þing: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3893)

109. mál, vatnsveita Stykkishólms

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Til fjvn. var send till. á þskj. 196, um ríkisábyrgð á láni til vatnsveitu Stykkishólms. N. ræddi þetta mál á nokkrum fundum, en áður en það væri afgr., átti að fá upplýsingar um rannsóknir á vatnsleiðslu til þorpa og kauptúna og hvað löggjöf þeirri liði, er væri í undirbúningi um þetta efni. Einnig átti að athuga, hvort hugsanlegt væri, að það frv. yrði fram borið á þessu þingi. Þegar kom í ljós, að frv. um þetta efni mundi að líkindum ekki koma fyrir þetta þing, leitaði n. gagna um, hvernig þessi vatnsveita væri fyrirhuguð og hver væri kostnaðaráætlun hennar, og einnig, á hvaða stigi stæði með efniskaup. N. hafði fengið þær upplýsingar hjá vegamálastjóra, að 11 kauptún í landinu með 4 þús. íbúa hefðu fullnægjandi vatnsveitur, en 15 kauptún með 8 þús. íbúa hefðu ófullnægjandi vatnsveitur og 6 kauptún með 1810 íbúa notuðust enn við brunna og af þeim væri Stykkishólmur einna verst settur. Þegar n. hafði fengið upplýsingar um kostnaðaráætlun og fengið þær upplýsingar, að fest hefðu verið kaup á rörum í Englandi, ræddi hún við oddvita kauptúnsins, sem upplýsti, að safnazt hefði milli 70 og 80 þús. kr. heima fyrir, sem ætlaðar væru til innlagningar í þorpinu. Við athugun á kostnaðaráætluninni komst n. að þeirri niðurstöðu, að hún mundi of lágt áætluð, einkum að vatnsgeymar væru of litlir, en stærri vatnsgeymar allmiklu dýrari. N. leggur því til, að ábyrgðarheimildin verði hækkuð úr 500 þús. kr. upp í 600 þús., til að fyrirbyggja, að hreppurinn lenti í vandræðum með hærra lán en farið var fram á ábyrgð fyrir. Það þótti rétt að setja það skilyrði, að verkið yrði framkvæmt undir eftirliti manns, sem ríkið viðurkenndi. — Eftir þessa breyt. var fjvn. sammála um, að málið yrði samþ.