15.03.1946
Sameinað þing: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3920)

86. mál, fiskirannsóknir og fiskirækt í Hamarsfirði

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér þykir sú brtt., sem fjvn. leggur hér til, að gerð verði á þessu frv., harla einkennileg, og það því fremur sem fyrir liggur umsögn Árna Friðrikssonar fiskifræðings um framkvæmd þessa máls, sem hér um ræðir, þar sem hann upplýsir það, að kostnaður af þessari rannsókn mundi aldrei geta orðið nema tiltölulega lítill. Hv. fjvn. virðist viðurkenna það, eins og fiskifræðingurinn, að sú rannsókn, sem hér er farið fram á, að efnt verði til, sé mjög nauðsynleg og sé því réttlátt, að til hennar verði efnt. En hins vegar hefur n. fundizt það vera um of lagt á ríkissjóð, að hann skyldi bera nokkurn kostnað af þessum fiskirannsóknum, t. d. 10000–30000 kr. En þó er það kunnugt, að það er ríkissjóður, sem yfirleitt hefur með höndum og annast allan kostnað við fiskirannsóknir, sem nú er haldið hér uppi. — Hv. fjvn. leggur til, að fiskimálasjóði verði gert að skyldu að annast þessar fiskirannsóknir, sem framkvæmdar yrðu af fiskideildinni við Atvinnudeild háskólans, og skil ég varla í því, hvernig stendur á því, að hv. fjvn. velur þessa leið. Finnst hv. n. þær fiskirannsóknir, sem þarna er ætlazt til, að fari fram, eitthvað annars eðlis en aðrar fiskirannsóknir, sem fram fara nú hér við land. Auk þess er svo þess að geta, sem öllum hv. þm. er kunnugt, að fiskimálasjóður hefur takmarkað fé og æði mikið verkefni. Fyrir stuttu síðan var lagt fyrir Alþ. frv. um stórkostlega eflingu fiskimálasjóðs, sem þó náði ekki fram að ganga, og kom þá greinilega fram í umr., hvað verkefni fiskimálasjóðs er víðtækt og hve erfitt hann á með að skila öllum þeim verkefnum úr hendi vegna fjárskorts. En svo virðist hv. fjvn. það vera óhjákvæmilegur hlutur að skylda í þessu efni fiskimálasjóð til þess að standa undir þessum fiskirannsóknum, á sama tíma sem ríkissjóður stendur undir öðrum fiskirannsóknum, sem eru margfalt viðameiri en þessi hér. Það kann vel að vera, að stjórn fiskimálasjóðs og atvmrh. fallist á að greiða úr ríkissjóði þessa upphæð, sem hér þarf til að taka. En hins vegar er það, að þó að þessi þáltill. verði samþ. og málið afgr. frá Alþingi, þá er engan veginn þar með sagt, að hægt verði að efna til þeirra rannsókna, sem þáltill. fer fram á. Og ef brtt. fjvn. verður samþ., þá hefur Alþ. í raun og veru vísað þessu máli að miklu leyti frá sér til annarra aðila, sem hafa það í sinni hendi, hvort þeir vilja blanda sér inn í þetta á þann sérstaka hátt, sem þarna er á fiskirannsóknum í landinu. Ég veit, að fiskimálan. finnst óviðeigandi, að hún fari að efna til fiskirannsókna aðeins á þessum eina stað. En hins vegar er ofur eðlilega, að fram komi hér till. um það að efla fiskirannsóknir á þessum stað, vegna þeirra fiskirannsókna, sem ríkið hefur með höndum nú á fjölda mörgum öðrum stöðum í landinu og eru kostaðar beint úr ríkissjóði.

Ég vil því segja það, að ég er andvígur þeirri breyt., sem hv. fjvn. leggur til, að gerð verði á till. Ég álít brtt. í alla staði óviðeigandi og í mesta máta smásmuglegt, að n. skuli leggja það til, að ríkissjóður skorist undan því að greiða þennan kostnað, sem yrði vegna fiskirannsókna á þessum stað og fiskifræðingur ríkisins, Árni Friðriksson, telur þó, að sé mjög nauðsynlegt, að fari fram. Hins vegar álít ég, að það sé rétt að samþ. till. óbreytta. Ég vildi eindregið mælast til þess, að hv. þm. sæju sér fært að fella brtt. fjvn.