28.03.1946
Sameinað þing: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (3932)

195. mál, hveraorka á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp

Frsm. (Sigurður Thoroddsen) :

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þessa þáltill. og er sammála um að mæla með því, að hún verði samþ. eins og hún liggur fyrir. Einn nefndarmanna var ekki á fundi, þegar þessi ákvörðun var tekin.

Þáltill. fer í þá átt, að Alþ. ályktar að skora á samgmrh. að láta á næsta sumri fara fram rannsókn jarðhitasvæðanna á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, til þess að fá úr því skorið, hvort þá orku, sem þar mætti fá, mætti nota til vinnslu rafmagns fyrir nærliggjandi kaupstaði, kauptún og sveitir. — Flest kauptún á Vestfjörðum vantar raforku. Þar hafa verið gerðar athuganir á nokkrum vatnsvirkjunarstöðum, sem til greina geta komið. En sú athugun, sem á þessu hefur farið fram viðkomandi t. d. Dynjanda í Arnarfirði, hefur sýnt nokkru óhagstæðari niðurstöðu en við var búizt. — Nú hefur sýnt sig, að raforka, sem fæst þannig, að hún er unnin með jarðhita, er talsvert ódýrari í stofnkostnaði en sú orka, sem fæst með vatnsvirkjunum. Þess vegna þykir sjálfsagt að rannsaka þessa möguleika til raforkuframleiðslu með jarðhita, fyrst þeir eru fyrir hendi þarna við Ísafjarðardjúp.