13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (3960)

135. mál, atvinnudeild háskólans

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mjög þessar umr. En ég get ekki látið þetta stórmál fram hjá mér fara án þess að drepa á atriði, sem mér virðast nokkuð einkennileg varðandi afgreiðslu þess.

Hv. þm. A.-Sk. hefur flutt hér brtt., þar sem hann leggur til, að rannsóknarstöðin á Keldum lúti áfram landbúnaðardeild, eins og verið hefur, en ekki læknadeild háskólans, eins og frv. gerir ráð fyrir. En í 15. gr. frv. er sagt, að allar rannsóknir skuli heyra undir læknadeildina. Mér þykir þetta undarlegt ákvæði. Í grg. frv. er reynt að láta líta svo út, að frv. sé vandlega undirbúið. Tveir prófessorar við háskólann hafa unnið að því síðan í vor. En því fer fjarri, að hér sé á málunum haldið af sanngirni og réttsýni. Það er reipdrátturinn um Keldur, sem er undirrót þeirra ákvæða í frv., sem eru fráleitust.

Þá má það þykja dálítið einkennilegt, að þótt leitað sé með logandi ljósi í öllu frv. og grg., þá er hvergi minnzt á dýralækni. Þeim er algerlega haldið utan við þetta mál. Það er allt á sömu bókina lært. Og hv. Alþ. gleypir vitanlega við þessu. Nú ætlar hv. þm. A.-Sk. að laga þetta allt. Hann vill skipa sérstaka n. í hverja deild til að velja verkefni. Það á eftir því að láta sérstaka n. taka til þau verkefni, sem t. d. landbúnaðardeildin á að hafa með höndum. En það á ekki að spyrja dýralæknana frekar en fyrr, hvað ætti að rannsaka. Við þá er ekki talað. Allir aðrir eru teknir fram yfir þá, þótt þeir hafi sérmenntunina. Hvernig mundu aðrar þjóðir líta slíkar ráðstafanir? Ég hef átt tal við dýralækna á Norðurlöndum, Noregi, Svíþjóð og Danmörku, um skipan dýralækningamálanna hér. Ég benti þeim á, að á 10 ára starfsemi við fjársjúkdóma hefði stjórnin varið til þeirra mála mörgum tugum millj., en ekkert hefði farið í gegnum hendurnar á okkur. Þeir voru undrandi yfir þessu. Allt bendir til, að ástæður séu ekki fyrir hendi til að gera breytingu á þessu og hindra þetta, en þetta er hneyksli engu að síður.