12.12.1945
Sameinað þing: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (3969)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan gefa þessari till. færi á að ná afgreiðslu í dag. — Það er rétt, að 30 þm. sendu hæstv. dómsmrh. bréf, þar sem farið var fram á hið sama og gert er í þessari till., en þá taldi hæstv. ráðh. sig ekkert geta gert, nema vilji þingsins kæmi fram.

Ég vil taka það fram út af þeim umr., sem hér hafa orðið, að í þessari till. er á engan hátt verið að mæla bót moldvörpustarfsemi Þjóðverja. Og þátt hæstv. ráðh. hafi sjálfsagt réttilega bent á ýmis dæmi, svo sem dr. Lotz o. fl., þá sannar það engan veginn, að réttmætt sé að láta dragast að veita þessi leyfi. Dr. Lotz er ekki á þeim lista, sem við höfum sent. Það er ekki vandi að taka dæmi um njósnir Þjóðverja, en það haggar ekki þeirri staðreynd, að til eru margir Þjóðverjar, sem eru saklausir. Kjarni þessa máls er ekki að rifja upp einstök dæmi, heldur að gera upp á milli saklausra og sekra.

Ég vil, áður en lengra er farið, láta í ljós þá skoðun, að þótt rannsókn þessa máls hafi gengið fremur seint, sé ég ekki ástæðu til að ásaka hæstv. dómsmrh. svo mjög, þar sem við ýmsa örðugleika mun vera að etja. En þó munu liggja til þess nokkur rök, að hraða hefði mátt rannsókninni meir. Síðan styrjöldinni lauk í Evrópu er nú um hálft ár, og á þeim tíma hefði átt að mega fá fullnægjandi skýrslur. Ég viðurkenni þó, að hæstv. ráðh. hefur nokkur rök til síns máls. En á meðan slík skýrsla liggur ekki fyrir, virðist mér nokkuð hæpið að ræða þessa menn í sama númeri og þá glæpamenn, sem hæstv. ráðh. minntist á.

Ég vil svo láta í ljós þá ósk, að þessi till. komist til n. og að n. starfi greiðlega að afgreiðslu hennar.