13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (3975)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Út af ummælum hv. 2. þm. Reykv., þá er það ekki ríkisstj., sem hefur sent mann til Þýzkalands til að leita uppi konur og börn af íslenzkum ættum, en hins vegar hefur ríkisstj. veitt þessu fólki landsvistarleyfi, og út af því, sem hv. þm. Str. upplýsti í gær, að hann hafi sent lögreglustjóra utan til að rannsaka ýmis mál, þá skal það upplýst, að það var ekki lögreglustjóri, heldur flugmálastjóri, sem sendur var utan 1939, og var honum ekki veitt lögreglustjóraembættið fyrr en síðar og það þótt hann vantaði eitt ár til, var ekki nema 24 ára, en þurfti að vera 25 ára til löglegrar veitingar. Hv. þm. gat þess, að skýrsla væri til í dómsmrn. um þetta, en ég vissi ekki um það, að hún væri til, og bað ég skrifstofustjóra um að leita að henni, en hann hafði ekki fundið hana kl. 2 í dag. Þá fór ég til lögreglustjóra, en hann sagðist ekki hafa gefið neina skýrslu, en rétt áðan hringdi skrifstofustjóri og sagði, að skýrslan væri fundin. Þáv. forsrh. óskaði eftir, að flugmálastjóri kynnti sér ýmis gögn hjá dönsku leynilögreglunni. Ég tel rétt að skýra frá því, svo að öll gögn séu lögð á borðið. Dagana 26. ág. til 15. sept. dvaldi flugmálastjórinn í Kaupmannahöfn og fékk fyrir milligöngu Sveins Björnssonar samband við Thune Jacobsen, og dagana 30. ág.–15. sept. starfaði flugmálastjóri hjá dönsku ríkisstj. og fékk aðgang að öllum skjölum varðandi lögregluna, en það var allt strangt trúnaðarmál og því setti flugmálastjóri það ekki í skýrsluna. Annars virðist það hafa komið fram, að hv. þm. Str. hafi verið heldur hlífinn gagnvart ágangi Þjóðverja hér. Og eitt er víst, að sendiherra Þjóðverja kaus heldur að fara til hans með öll sín mál en til utanrrh., sem þó er venja. Og ég ætla, að ástæða hafi verið til, að Þjóðverjum hefði verið veitt mótspyrna hér, þegar það gekk svo langt, að sendiherra þeirra vildi ráða, hvaða kvikmyndir væru sýndar hér, hvað útvarpið flytti, og blaðafréttum og fékk forsrh. til að banna sölu bókar og koma í veg fyrir gamansýningu, sem átti að halda á Hótel Borg, þar sem Stalín og Hitler áttu að koma fram. En nú skal ég ekki fjölyrða meir um þetta, því að sennilega gerir hv. þm. Str. grein fyrir slíku ofríki sem þessu. En erindi lögreglustjóra hefur verið á þá leið, að hann átti að kynna sér stjórn lögreglunnar og allan útbúnað hennar og einnig, hvernig refsa bæri fyrir yfirsjónir o. fl. Er það ekki nema eðlilegt, að lögreglustjóri færi til sambandslands, sem einnig stóð á háu stigi, hvað þessi mál snertir, og dvaldi hann frá 19. júní til 26. júlí í Kaupmannahöfn, en þá flaug hann til Berlínar og dvaldi þar í góðu yfirlæti. Dvaldi hann talsvert í Berlín og kynnti sér ýmislegt varðandi lögreglumál og virðist það allt vera með eðlilegum hætti. Það er ekki nema eðlilegt, ef ráðið hefur verið að gera flugmálastjóra að lögreglustjóra, að senda hann til lýðræðisríkis til að kynna sér lögreglumál, en hitt virðist undarlegra að senda hann í skóla til Himmlers, sem staðið hefur fyrir svívirðilegustu glæpum, sem nokkurn tíma hafa þekkzt. En það getur verið, að þetta standi í sambandi við linkind hæstv. forsrh. við Þjóðverja hér. En ég vil þó ekki segja, að þessi skóli hjá nazistum, sem lögreglustjóri var í í mánuð, hafi haft áhrif á embættisstörf hans hér, en það er ekki að þakka skólanum, heldur meðfæddri lýðræðisnáttúru og góðum hæfileikum hans sjálfs. En ég tel, að þessi þáttur þessarar skýrslu sé þess virði, að hann komi fyrir almenningssjónir.