13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (3979)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Str. sagði, að ræða sú, sem ég hefði haldið hér í kvöld, væri lítið annað en lauslegur útdráttur úr skýrslu lögreglustjóra Reykjavíkur, sem þá var flugmálastjóri og sendur var til Þýzkalands, og hafi ræða mín verið sú einkennilegasta ræða, sem hann hefði heyrt á þingi. Má vel vera, að honum finnist það, hv. þm. Str., en þá er það af því, að hv. þm. Str. sjálfur er eitthvað undarlegur, ef honum finnst eitthvað undarlegt, þó að skýrslan sé lesin, sem er mjög skynsamlega orðuð í alla staði.

Annars var málsvörn þessa hv. þm. sú einkennilegasta, sem ég hef heyrt nokkurn tíma á ævinni. Hann byrjaði á því að hæla sér af því, að hann væri hugaður. Það hefur enginn maður efazt um, að hv. þm. Str. væri glímumaður og hugaður (HermJ: Ég sagðist vera hvorki hugaðri né minna hugaður en aðrir menn). Hv. þm. Str. sagði til dæmis um það, hve kjarkgóður hann væri, að hann hefði látið prenta þáltill. til þess að veita manni fjárhæð, sem hefði orðið fyrir misþyrmingum á Kirkjusandi. Og til þess að undirstrika þetta enn betur, þá gat hann þess, að erlendur her hefði verið í landinu þegar þáltill. var prentuð og send út. Sér er nú hver kjarkurinn! Ég veit ekki betur en ég væri meðflm. hv. þm. að þessari till. og stóð með honum að því, að hún var prentuð, og hefur mér aldrei dottið í hug að taka það sem dæmi um það, hve kjarkgóður ég væri. Kannske hef ég vitað fyrir, að þessi her, sem í landinu var, hefði aldrei gert mér miska fyrir það, á sama hátt og ég veit, að ef þýzkur her hefði verið hér í landinu, þá hefði hvorki hv. þm. Str. né ég þorað að flytja svona till., og kannske hefðum við þá ekki haft neitt tækifæri til þess. Við vorum sem sagt saman um þessa ágætu þáltill., hv. þm. Str. og ég, till., sem aldrei sá dagsins ljós, af því að þáverandi hæstv. ríkisstj. þorði ekki annað en að borga mönnunum peningana, þegar hún vissi, að það átti að birta málið eins og það lá fyrir.

Að öðru leyti þótti mér ákaflega einkennilegur málflutningur hv. þm. Str., þar sem hann las það sama og ég hafði lesið í gær upp úr þessum bréfum fyrrv. sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn — nákvæmlega það sama, og breiðir sig svo út yfir það, eins og ég hefði farið með einhver stóryrði í því sambandi, sem ég gerði ekki. Ég lét aðeins staðreyndirnar tala. En ég tók fram, að sendiherrann varaði við því, að njósnir mundu vera hér á landi, og óskaði, að vanur lögfræðingur væri sendur til Kaupmannahafnar til þess að rannsaka það mál, og telur, að ekki nægi minna en þriggja mánaða dvöl í landinu til þess að búa sig undir að koma í, veg fyrir þær njósnir og kynna sér þessi mál til fulls. Ég man, að þetta er í bréfunum, þó að ég hafi þau ekki í höndunum. Og úr þessum bréfum hef ég ekki farið með neitt annað en það, sem í þeim stendur, það, sem hv. þm. Str. var að lesa upp sjálfur. Mér fannst þetta eiginlega svo kátlegt, að mér lá hvað eftir annað við að skella upp úr, þegar hv. þm. Str. las nákvæmlega það sama upp úr bréfinu frá fyrrv. sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn sem ég hafði lesið upp úr því hér áður.

Hv. þm. Str. vildi spyrja mig að því, hvort hér mundi ekki hafa verið einhver önnur leyniþjónusta en þýzk. Vafalaust hefur verið hér önnur leyniþjónusta, og m. a. vitum við, að á stríðstímanum hefur verið hér bæði ensk og amerísk leyniþjónusta, og er sennilega enn einhver amerísk leyniþjónusta í sambandi við það herlið sem þessi hv. þm. sem forsrh. kallaði hingað til landsins. Hitt verð ég að segja, að ég þekki ekki til þess, og ég skora á hv. þm. Str. að benda á það, ef hann veit til þess, ef einhver þjóð hefur einhverja fimmtu herdeild starfandi hér í landinu. Þá var það þess eðlis, að hér var um að ræða að flytja inn menn frá öðrum þjóðum og láta þá setjast hér að í því skyni, að þeir skyldu vera tilbúnir að taka til vopna, ef innrás yrði gerð. Ég þekki aftur á móti engan Breta eða Bandaríkjamann, sem hér voru staddir, þegar hernámin fóru fram, er líklegir væru til að grípa til vopna gegn íslenzku þjóðinni. Hins vegar er það vitað, að Þjóðverjar, sem hv. þm. Str. (HermJ) gerist óbeinlínis talsmaður fyrir, höfðu þessa aðferð til þess að leggja undir sig þjóðir víða í Evrópu. Hv. þm. Str. reyndi að vísu að útleggja ýmislegt úr bréfum sendiherrans öðruvísi en rétt er. Hv. þm. sagði m. a. það, að hér hefðu verið starfsmenn annarra ríkja starfandi í þeim tilgangi, sem lýst hefur verið. Ef svo hefði verið, var enn meiri ástæða til að bregða fljótt við og senda röskan lögfræðing til þess að kynna sér þessi mál í Danmörku. En frá því í marzmánuði og fram í júnímánuð daufheyrðist hv. þm. Str. við að verða við ráðleggingum sendiherrans í þessu efni.

Þá vil ég koma að því, sem hv. þm. talaði um lögreglustjórann. Eins og þeir vita, sem hlustuðu á mig í kvöld, þá var það síður en svo, að ég kastaði nokkrum steini að lögreglustjóranum, heldur fór ég um hann lofsamlegum orðum. Ég skýrði aðeins frá því sem staðreynd, að hv. þm. Str. sem dómsmrh. landsins hefði sent þennan unga og óreynda mann til Himmlers til þess að læra lögreglustjórn. Þetta er síður en svo árás á lögreglustjórann, þar sem ég gat þess um leið, að ég vissi ekki til þess, að þessi sendiför hefði haft þau áhrif á þennan unga og óreynda mann, að hann yrði óhæfur til þess að takast á hendur starf þetta. Þetta tekur hv. þm. Str. sem árás á lögreglustjórann og stendur svo hér í hæstv. Alþ. eins og móðir, sem er að verja barn sitt. Og það er engu líkara en hv. þm. vilji úthella blóði sínu fyrir lögreglustjórann, ef því væri að skipta. Þessi langi kafli í ræðu hv. þm. Str., sem var vörn fyrir lögreglustjórann gegn þessari ímynduðu árás, er alveg út í hött. En hann er sjálfsagt ágætt dæmi um árvekni þessa ágæta fyrrv. fors- og dómsmrh. Eftir að hann var búinn að fá margháttaðar aðvaranir, fær hann aðvaranir frá Danmörku, í þessu tilfelli frá sendiherranum varðandi njósnir Þjóðverja. Og þar sem hv. þm. Str. er með bréf sendiherrans, sem dags. er í jan. 1940, getur hann flett upp í því, ef hann er ekki búinn að ganga úr skugga um það. (HermJ: Ég skal lána hæstv. ráðh. bréfin, hann veit þetta ekki of vel). Ég er búinn að skoða þau áður og hef skýrt frá þeim einu sinni hér í þinginu, og þótt hv. þm. Str. sé ekki mjög næmur, þegar hann vill það við hafa, þá veit ég, að honum er þetta ljóst, eins og öllum öðrum hér á hæstv. Alþ. Hv. þm. Str. talaði um, að þetta væru einkabréf til sín. En hvers vegna hefur hann þá skilið þau eftir í stjórnarráðinu? Hvers vegna tók hann þau þá ekki með sér, þegar hann fór þaðan? Ástæðan er sú, að bréfin eru send af sendiherra Íslands í Danmörku til fors.- og dómsmrh., en sendiherrann hefur notað nafn Hermanns Jónassonar, svo að enginn opnaði bréfin annar en hann. En tekið er fram, að skilaboð bréfanna eigi að fara til fors.- og dómsmrh. Það þýðir því ekkert fyrir hv. þm. Str. að reyna að skorast undan því, að þessi bréf séu tekin til umr. á opinberum vettvangi.

Hv. þm. Str. var að tala um, að hann vildi fá nöfnin fram á þeim mönnum, sem voru í þessari 5. herdeild. Og hann óskaði eftir því að fá nöfn erlendra og innlendra manna, sem hafa verið hér í þjóðernissinnaflokki. Ég hef enga, slíka nafnaskrá yfir íslenzka þjóðernissinna. Enda má vel vera, að þeir hafi verið innan ýmissa flokka og þar á meðal innan Framsfl. Og þótt ég sé ekki að gefa í skyn, að hv. þm. Str. hafi verið í einhverjum þjóðernissinnaflokki, þá er það alkunnugt, að hann hefur stundum haft meiri trú á kröftunum en lýðræðinu. Ég veit ekkert um, hverjir Íslendingar hafa verið nazistasinnaðir, en ég hef séð skrá yfir þá Þjóðverja, sem voru í þeim félögum Þjóðverja hér á landi, sem alkunnugt er, að notuð hafa verið í öllum löndum sem 5. herdeild til þess að undirbúa innrás Þjóðverja í sömu lönd. (EystJ: Á hæstv. ráðh. við skrá yfir alla Þjóðverja?). Ég hef séð skrá yfir þá Þjóðverja, sem voru í þeim félögum, sem notuð voru í þessu skyni. En hvaða ástæðu þýzki utanrrh. og yfirmaðurinn Himmler höfðu til þess að senda nokkru áður en stríðið hófst sérstakan mann til landsins til þess að efla slíkan félagsskap, geta menn sagt sér sjálfir, ef þeir hafa kynnt sér aðferðir þær, sem nazistar notuðu í öllum löndum. Og það er algerlega tilgangslaust að koma hér og tala um sína eigin hugprýði og dirfsku til þess að afsanna, að þessar voru aðfarir Þjóðverja í þeim löndum, sem þeir leituðust við að ná yfirráðum í. Og það er augljóst mál, að hvorki bréf þau, sem við höfum hér haft með höndum, né heldur skýrsla lögreglustjóra, eru nein launungarmál lengur. Og það ætti hv. þm. Str. að vita, að þau eru það ekki, eftir að þau hafa verið tekin til umr. hér á Alþ. Og hv. þm. þarf ekki að reyna að slá sig til riddara eða gerast þjóðhetja með því að óska þess, að þessi skjöl séu birt. Ég get skilið, að hann geti stært sig af að hafa verið einhvern tíma glímukóngur, en ekki af því að óska eftir að fá þau skjöl birt, sem búið er að gera að umræðuefni á opinberum vettvangi. (Herm. J: Má birta þau í heild? Vill hæstv. ráðh. lesa nafnið, sem er undirstrikað með rauðu?). Ég er sjálfráður, hvað ég les upp hér í þessu skyni. Ég gæti lesið upp fleira, ef því er að skipta, en ég geri ráð fyrir, að sumir, sem standa nærri Framsfl., kæri sig ekki um það. (EystJ: Hvaða dylgjur eru þetta? — HermJ: Hvað eiga slíkar dylgjur að þýða? — Forseti: Ekki samtal). Ég skil ekki, hvað framsóknarmenn eru órólegir. Það er eins og þeir hafi veður af einhverju, sem gerir það að verkum, að þeir geta ekki lengur haldið sinni sálarró.

Hv. þm. Str. sagði, að ég hefði sagt, að þessir menn, sem hafa verið fangar í Englandi, hafi óskað að fara heldur til Þýzkalands en Íslands. Þetta er ekki rétt. Ég sagði þetta ekki og hef ekki gert það, að ég hygg, hér að umræðuefni. En hins vegar held ég að hv.2. þm. Reykv. (EOl) hafi sagt, að þessir menn hafi einhvern tíma, meðan þeir voru fangar í Englandi, óskað eftir að komast til Þýzkalands til þess að geta tekið þátt í stríðinu. Þessar upplýsingar hv. 2. þm. Reykv. eru réttar, eftir því sem ég veit bezt. Þeir munu undantekningarlaust hafa óskað eftir því einhvern tíma, meðan þeir voru fangar, að komast til Þýzkalands, þótt þeir hafi síðan tekið ósk sína aftur, þegar aðstæður breyttust.

Hv. þm. Str. vék að því aftur og aftur, að ég hefði verið svívirðilegur í garð lögreglustjóra. Ég sagði aðeins, að það hefði ekkert verið annað en sérstök kurteisi við hann, að honum hefði verið boðið að vera gestur Himmlers og honum hefði verið fenginn yfirstormsveitarforingi til fylgdar meðan hann dvaldi í Þýzkalandi. Ég er ekki svo kunnugur lögreglumálum Þýzkalands, að mér sé fullkunnugt um, hvort yfirstormsveitarforingjar tilheyri lögregluliðinu, en ég hef haldið, og fullyrði meðan ég heyri ekki annað, að þeir tilheyri ekki hinu eiginlega lögregluliði, heldur pólitísku liði Hitlers sjálfs, svartstökkum eða þess háttar. En úr því að hv. þm. Str. fannst nauðsynlegt að láta þennan unga og efnilega mann læra lögreglustjórn af blóðhundinum Himmler, því sendi hann hann þá ekki til Rússlands, svo að hann gæti lært að stjórna lögregluliði eftir reglum einræðisríkis, en ekki reglum lýðræðisríkis? (GSv: Eru þeir líka blóðhundar?). Ég geri ekki upp á milli þeirra. Satt að segja hef ég ekki getað skilið það, að það væri árás á lögreglustjórann, þótt skýrt væri frá því, að hann hefði verið gestur Himmlers. En hvers vegna er hv. þm. Str. svona sárt um þetta? Hvers vegna stendur hann upp hér á hæstv. Alþ. með slíkum ofsa, þótt skýrt sé frá þessum staðreyndum? Það skyldi þó aldrei vera vegna þess, að þær staðreyndir, að dómsmrh. sendi ungan og óreyndan mann, sem átti að læra lögreglustjórn, beint til blóðhundsins Himmlers í Þýzkalandi, séu óþægilegar fyrir þennan hæstv. fyrrv. dómsmrh.? Hv. þm. spurði og var allæstur, til hvers allur þessi upplestur væri gerður. Allmikill hluti þessa upplesturs var hreint og klárt bréf til dómsmrh. frá lögreglustjóra. Og það er augljóst mál, að eina staðreyndin, sem gat verið óþægileg fyrir þennan hæstv. fyrrv. dómsmrh. og er jafnframt ástæðan fyrir því, að hann heldur hér þessa löngu ræðu, er sú, að hann skyldi senda lögreglustjórann þessa leið. Því að hvað þarfnast hér afsakana, ef ekki það að senda þennan unga mann til Þýzkalands til að læra hjá nazistunum?

Þá var hv. þm. Str. að spyrja, hvort ég hefði skrá yfir þá, sem komið hefðu heim frá Þýzkalandi, og ætlaðist hv. þm. til þess, að þeir íslenzkir ríkisborgarar og konur og börn þýzkra manna, sem búið er að leyfa hér landsvist, séu sett undir sérstakt eftirlit á Íslandi. Ég hef ekki hugsað mér að gera það. Og það væri ekki mikið í samræmi við það lýðræði, sem ríkir í landinu, ef farið væri að hafa þetta fólk undir sérstöku lögreglueftirliti.

Hv. þm. Str. gerði mikið úr því, að bréfin um njósnirnar í Danmörku væru skrifuð áður en þeir menn, sem vitnað var til hér, hefðu komið í ríkisstj. og þess vegna væri ekki von, að þeim hefðu verið sýnd þessi bréf. Nú er, það svo, að ég hygg, að nærri hver einasti maður, sem hefði vitað um þessar upplýsingar í byrjun stríðsins, vitað um þá hættu, sem hér var fyrir hendi að áliti sendiherra okkar í Kaupmannahöfn, hefði lagt bréfin fyrir meðráðh. sína eftir að stríðið brauzt út. En hv. þm. Str. sá enga ástæðu til þess, og sú framkoma hans er í samræmi við aðra framkomu, sem hann hefur sýnt í þessu máli.

Þá var hv. þm. að tala um bréf frá ríkisstj. til blaðanna um, hvernig þau ættu að skrifa, og um kvikmyndir frá vissum löndum. Mér er algerlega ókunnugt um þau bréf og kvikmyndir og á þar engan hlut að máli. Þá var hv. þm. að tala um, að hér væru einhverjir, sem hefðu talið það smekksatriði, hvort þeir væru kommúnistar eða nazistar. Ég tek það ekki til mín. En það má vera, að það standi nær huga þessa hv. þm. sjálfs.

Svo að ég víki að nauðsyn þess, að mál þessi verði rannsökuð frekar, þá hefur mér alltaf verið ljós sú nauðsyn, og þarf ég engrar brýningar við frá hv. þm. Str. til þess að ganga eftir því, að svo miklu leyti sem í mínu valdi stendur, að þessi rannsókn fari fram. Ég hef skýrt frá því áður, að núv. ríkisstj. hafi oftar en einu sinni snúið sér til sendiherra Breta og Bandaríkjamanna varðandi þessi mál, og ég hef einnig skýrt frá því, að lengi leit út fyrir, að þessi tilraun bæri engan árangur. En nú alveg nýlega hef ég fengið í hendur til yfirlits útdrátt úr skjölum þeim, sem Bandamenn tóku hjá Gerlach. Þessi útdráttur fullvissar mann að ýmsu leyti um það, að veruleg hætta stafaði af njósnum Þjóðverja hér á landi. Sjálfsagt er rétt að athuga, hvort hægt er að fá einhverja vitneskju í Nürnberg varðandi Ísland, og athuga þau skjöl, sem þar kynnu að vera, gaumgæfilega, þótt ekki væri til annars en til viðvörunar upp á seinni tímann. Ég hef fyrir mitt leyti haft á þessu fullan hug og hef reynt að spyrjast fyrir um, hvort aðstoðar muni að vænta í því frá vissum aðilum. — Ég skal á engan hátt fara að endurtaka það, sem ég hef sagt hér, en það er í alla staði augljóst, að hér var um mikla linkind að ræða af hálfu hv. þm. Str. í garð sendimanns frá erlendu ríki, sem hingað var sendur í illum tilgangi, og sú linkind er enn þá leiðinlegri fyrir þennan hv. þm., ef honum hefur verið kunnugt um frá upphafi, hvers vegna Gerlach var sendur hingað.

Ég sé svo ekki ástæðu til að svara hv. þm. Str. frekar. Ég vona, að hann geti stytt ræðu sína nokkuð frá því, sem áður var, nema hann viðhafi þann sið að taka upp það, sem aldrei hefur verið sagt, og reyni að kveða það niður. En ef hann heldur sig við staðreyndir, þá þarf hann ekki að vera, eins langorður og leiðinlegur eins og áðan, heldur a. m. k. svo skilmerkilegur, að þingheimur skilji, hvert verið er að fara.