13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3981)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Ég skal ekki verða til þess að draga umr. á langinn. Það er ekki ætlun mín að taka þátt í þeim almennu umr., sem hæstv. dómsmrh. hefur hafið hér og hv. þm. Str. hefur neyðzt til að taka þátt í til þess fyrst og fremst að bera af sér sakir. En ég get ekki að því gert að bera fram þá fyrirspurn, hvernig standi á því, að hæstv. dómsmrh. hefur máls á þeim atriðum öllum, sem raun ber vitni um hér á Alþ. þessa dagana. Hvernig stendur á því, að hæstv. ráðh. eyðir alllöngum tíma í 3 ræðum, sem hann hefur haldið í þessu máli, til að ræða málsatvik, sem að verulegu leyti koma ekki kjarna þessa máls við? Ég ætla að svara þessum spurningum að nokkru leyti, og svarið er það, að dómsmrh. vill drepa þessu máli á dreif, hann vill koma í veg fyrir, að Alþ. segi skýrt og skorinort, hver sé vilji þess í þessu máli. Og hæstv. ráðh. vill hafa tóm til þess framvegis að sýna þessu máli það tómlæti, sem einkennt hefur framkomu hans frá byrjun. Þetta er mitt svar og skýring á því, að hæstv. dómsmrh. hefur talið það viðurkvæmilegt að ræða þetta mál þannig hér á hæstv. Alþ. Ég veit, að hv. alþm. hafa veitt því athygli, að málið, sem hér liggur fyrir, kemur nauðalítið við þær skýrslur, sem hæstv. ráðh. hefur verið að þylja. En ég ætlaði ekki að rekja málið almennt. Mun ég því snúa mér að þeim atriðum, sem fram hafa komið í ræðum í dag og í gær.

Hann sagði, að það væri hringavitleysa hjá mér, eins og hann orðaði það, er ég sagði í framsöguræðu minni fyrir till. þeirri, sem hér liggur fyrir, að það, sem væri að gerast í þessu máli af hálfu hæstv. ráðh., væri það, að saklausir væru látnir gjalda hinna seku. Ég átti við með þessu, að það væri ekki sannað um neinn þeirra manna, sem till. okkar á við, þ. e. við þá þýzku menn, sem hér nutu landsvistarleyfis 1939, en voru fluttir héðan til Bretlands af hernaðarástæðum, að þeir hefðu gerzt sekir um nein þau verk, sem hættuleg geti talizt hagsmunum Íslendinga. Ég fæ ekki séð, að þetta sé nein hringavitleysa hjá mér, en þegar hæstv. dómsmrh. er að bendla þessa menn við Gestapomenn Himmlers og vitna í hermdarverk þýzka nazismans, fæ ég ekki betur séð en að saklausir séu látnir gjalda hinna seku. Ég vil benda hér á eitt atriði. Hver er afstaða brezkra hernaðaryfirvalda nú til þessara manna? Eru þau að ákæra þá fyrir njósnir, skemmdarverk eða hryðjuverk eða annað slíkt og stefna þeim fyrir dómstólana í Nürnberg? Ég veit, að hæstv. ráðh. getur svarað þessu jafnt og ég. Hernaðaryfirvöld bandamanna eru að sleppa þessum mönnum, segja þeim að fara frjálsir ferða sinna til Íslands, ef þeir vilja, en ef þeir fá ekki að fara þangað, eiga þeir ekki annars úrkosta en að fara til Þýzkalands. Hæstv. dómsmrh. gaf okkur von um það í dag í ræðu sinni, að brezku hernaðaryfirvöldin mundu ef til vill flytja þessa menn til þeirra staða í Þýzkalandi, þar sem betra væri að ná til þeirra en ella. Þetta er afstaða brezkra hernaðaryfirvalda gagnvart þeim mönnum, sem þeir tóku frá Íslandi til Bretlands, frá konu og börnum, af því að þeir voru þýzkir. Hvernig er svo afstaða íslenzkra yfirvalda gagnvart þessu fólki? Hæstv. dómsmrh., sem á að gæta hagsmuna íslenzkra borgara, þ. á m. kvenna og barna þeirra manna, sem hér um ræðir, leyfir sér að nefna Himmler og Gestapomenn hans í sambandi við þessa menn.

Svo var það annað atriði í ræðu hæstv. dómsmrh. í gær, sem ég vil minnast á. Hann sagði, að engin hætta væri á neyðarástandi hér meðal kvenna og barna þessara manna, þau gætu fengið sveitarstyrk. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann eða jafnvel flokkur hans hafi á liðnum árum talið það vera sérstakt sældarbrauð að vísa mönnum á sveitina. Þetta er sú blómlega og glæsta framtíðarmynd, sá íslenzki friðarreitur, sem hann dregur upp af lífi þessara kvenna og barna, meðan ekki liggur annað fyrir en að eiginmenn þeirra og feður séu saklausir. Ég get ekki stillt mig um að vitna einnig í ummæli hv. 2. þm Reykv. (EOl), sem á liðnum árum hefur ekki heldur talið sveitarstyrkinn sérstakt sældarbrauð. Hann sagði, að engin hætta væri á því, að íslenzkar konur og börn þessara manna mundu svelta, af því að hægt væri að úthluta þeim sveitarstyrk. Já, „blessuð sértu sveitin mín!“ Hér er sama ávísunin sem hann gefur þessu fólki inn í „fyrirheitna landið“.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að þessir menn hefðu óskað eftir því að fara til Þýzkalands til þess að taka þátt í stríðinu. Ég vil í sambandi við þessi ummæli og hv. 2. þm. Reykv. benda á það, að þessum mönnum var gefinn kostur á fangaskiptum. (Forseti: Ég vil vænta þess, að hv: þm. ljúki nú máli sínu, þar sem ræðutími hans er búinn, sbr. það, sem ég hef hér áður sagt). Ég mótmæli ákvörðun forseta og vænti þess, að hann veiti mér nokkrar mínútur fram yfir, þar sem ég er flm. málsins. (Forseti: Það þarf ekki að mótmæla þessu og má bera þetta undir 37. gr. þingskapanna. Flm. ættu sízt að tefja málið). Ég mun þá aðeins enda setninguna. Það er siður í slíkum tilfellum, þegar menn fara í fangaskiptum til ættlands síns, að þeir mega ekki bera vopn. Ætti hæstv. dómsmrh. að vita þetta úr alþjóðal.

Að lokum vil ég segja það, að það er rangt hjá hv. 2. þm. Reykv., að þessum mönnum hafi verið gefinn kostur á því að velja um, hvort þeir vildu heldur fara til Íslands eða Þýzkalands. Þeim var aldrei gefinn kostur á slíku, aðeins skipað að fara í fangaskiptum. Ég vil láta í ljós þá ósk, að hv. þm. líti á mál þetta „concret“, en láti ekki glepjast til umræðna á slíkum grundvelli eins og hæstv. dómsmrh. hefur gert hér.