13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (3982)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Pétur Ottesen:

Það er ekki sérstaklega girnilegt að taka til máls undir jafnströngum „húsaga“ og hér á sér stað í kvöld. Ég verð að segja það, að þegar ég sá þessa till. komna fram á Alþ., brá mér nokkuð undarlega við, og það af þeirri ástæðu, að hv. þm. N.-Ísf. (SB) hafði snúið sér til mín og ýmissa annarra þm. með tilmælum um að skrifa undir ákæruskjal til hæstv. dómsmrh., sem orðað var með sama hætti og meginmál þeirrar till., sem hér liggur fyrir. Hann hafði þau ummæli við mig í þessu sambandi, að til þess að hæstv. dómsmrh. gæfi þetta landsvistarleyfi, þyrfti að koma fram yfirlýsing meiri hl. Alþ., eins og hér er gert ráð fyrir með þessari þáltill. Það eitt út af fyrir sig mundi nægja til þess, að þetta landsvistarleyfi væri veitt. Ég leit svo á till. í upphafi, að okkur bæri að veita þetta landsvistarleyfi með þeim takmörkunum, sem lagðar voru í skjali því, sem ég áður nefndi, og lagðar eru í þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir. Ég hélt, að hv. þm. N.-Ísf. ætti svo innangengt hjá þeirri ríkisstj., sem hann styður, að hann hefði getað farið svo með þetta mál, að á mætti byggja. Nú vil ég engan veginn gefa það í skyn, að hv. þm. fari með fleipur í þessum efnum, heldur hafa þær vonir, sem hann hafði gert sér í þessu atriði, brugðizt honum. Maður hefur ef til vill fengið nokkra skýringu á þessu atriði, sem sé, að það hefði ekki verið talið óviðeigandi að koma þessu máli inn á Alþ., — en það mun hæstv. ráðh. hafa vitað, að mundi verða gert, ef hann yrði ekki við þessu, sem farið var fram á, með öðrum hætti, og þá hefði það þótt mjög æskilegt tækifæri, að málið kæmist inn á Alþ., til þess að koma því á framfæri, sem við höfum hlustað hér á um nokkurt skeið og ég held, að sé engan veginn þannig, að það sé til verulegs sæmdarauka, hvorki fyrir þá, sem hafa flutt þetta mál, né þá, sem hafa orðið að lána hlustir sínar til þess að meðtaka það, sem fram hefur farið. Skal ég ekki fara lengra út í það atriði að öðru leyti en því, að hinn skeleggi málflutningur, sem hér hefur farið fram, hefur aðallega beinzt að þeim aðilanum, sem undir hefur orðið í styrjöld þeirri, sem nú er nýlega lokið. Í þessu sambandi datt mér í hug gömul saga. Hún gerðist harða veturinn 1881. Þá skeði það á nokkrum stöðum hér á landi, að bjarndýr gengu á land. Eitt af þessum bjarndýrum kom að afskekktum bæ, þar sem tveir bræður bjuggu. Annar þeirra hljóp þegar inn í bæ og lokaði vel á eftir sér, en hinn tók byssu sína og skaut dýrið banaskoti, þegar hann komst í skotmál. Þá hljóp sá fram, sem hafði flúið inn í bæinn, náði í fjósreku, skellti á nasir dýrinu og hrópaði: Hvergi hræddur karlinn! Mér datt þessi saga í hug í sambandi við það, hversu mjög ýmsir menn hafa verið hér skeleggir, sérstaklega hvað snertir þann stríðsaðilann, sem undir hefur orðið. Skal ég ekki fjölyrða um það, en vil vænta þess, að það, sem ofið hefur verið inn í umr. hér í dag, verði engan veginn til þess að villa mönnum sýn um það, sem er meginatriði þessa máls, og það er það að veita þeim þýzku mönnum landsvistarleyfi, sem eiga hér konur og börn, eins og um getur í till. Hæstv. dómsmrh. talaði um tilfinningar í þessu sambandi. Já, það eru sannarlega tilfinningar, sem eiga að geta bærzt í brjósti hvers einasta manns, þar sem hlut eiga að máli konur og börn fjarstaddra eiginmanna og feðra, sem búið hafa í varðhaldi um langt skeið. Mér skilst, að það sé þetta, sem fyrir liggur í þessu máli og menn eiga að taka tillit til og greiða atkv. um, þegar þessi þáltill. með þeim varnöglum, sem þar eru settir, kemur undir atkv., sem vænta má, að verði á þessu kvöldi eða í nótt, þannig að henni verði þá greidd gata til n. Það er í mínum augum ákaflega lítil trú á íslenzka þjóðstofninn, ef hann þolir það ekki, að þessum fáu mönnum verði aftur hleypt inn í landið, eftir að farið hefur fram nákvæm athugun á því, að þeir hafi á engan hátt sýnt sig vera fjandsamlega hinni íslenzku þjóð. Ég vil hér benda á það, að hér hafa nokkrir þýzkir menn fengið ríkisborgararétt og meðal þessara manna er einn, sem var mjög skeleggur kafbátsforingi í síðasta stríði. Hann hefur sjálfsagt sökkt mörgum skipum, ef til vill skipum frá þessari þjóð. Þessi maður var að vinna í stríðinu eins og menn gera, en hefur reynzt eins og þeir Þjóðverjar, sem hafa fengið hér ríkisborgararétt, mjög sæmilegur borgari, og hafa margir þeirra reynzt mjög ötulir og nýtir borgarar í þessu þjóðfélagi. Það er því mitt álit, að eftir að athugun hefur farið fram á því, að þessir menn séu hættulausir fyrir okkar þjóðfélag, þá sé það ekki sæmandi siðuðu þjóðfélagi eins og íslenzka þjóðin er að neita þessum mönnum um landsvistarleyfi, að ég nú ekki tali um íslenzka gestrisni, sem við viljum allir í heiðri halda.