13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (3986)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Eysteinn Jónsson:

Það, sem kemur mér til þess að taka þátt í þessum umr., er ekki þáltill. sjálf, sem hér liggur fyrir, heldur það, sem hæstv. dómsmrh. sagði.

Það er kunnugt um hæstv. dómsmrh., að hann elskar heitt og hatar mikið. Hér á árunum bar hann mikla ást til hv. þm. Str. (HermJ) og þá hataði hann mikið núv. hæstv. forsrh. Nú er þessu hins vegar snúið við. Þetta er aðeins skapsmunaeinkenni hæstv. ráðh., en fyrir bragðið hættir honum til þess að láta skapið hlaupa með sig í gönur. Og nú grípur hæstv. ráðh. tækifærið, þegar þessi till. kemur fram, og lætur skap sitt bitna á hv. þm. Str. Hann heldur því fram, að hv. þm. Str. hafi staðið illa í stöðu sinni sem forsrh. og að hann hafi tekið á móti ávítunum frá Gerlach, sendiherra Þjóðverja hér á landi, án þess að sendiherranum væri vísað úr landi fyrir þetta. Telur ráðh. slíkt skort á þjónustu við Ísland. En mér er sem ég sjái það, að nokkur hér hefði rekið þýzkan sendiherra úr landinu á þeim árum. Varðandi þessa orðsendingu frá Gerlach hef ég hér í fórum mínum bréf, sem ég ætla að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta [Bréfið vantar í handrit innanþingsskrifara.]

Þá var hv. þm. að dylgja um, að hv. þm. Str. væri ámælisverður fyrir að hafa leynt meðráðh. sína þessum bréfum. Við, sem í stjórn vorum með honum, vissum fullvel, hvað var að gerast. Það voru alltaf samráð milli ráðh. um, hvað gera bæri í þessu máli, og eftir að þjóðstjórnin var mynduð, var haldið sömu aðferð um það. Í sumar var fundur haldinn í utanrmn., og þá minnti hv. þm. Str. á þessi bréf. Er líklegt, að hann hefði gert það, ef hann hefði haft óhreint mjöl í pokahorninu? Og innan þjóðstj. var ekki neinn ágreiningur um, hvað gera skyldi gagnvart Þýzkalandi.

Svo eru það dylgjur hæstv. dómsmrh. um núverandi lögreglustjóra í Reykjavík, um för hans til Þýzkalands. Þau ummæli, sem hæstv. ráðh. viðhafði um hann, minna óþægilega mikið á sögu Leitis-Gróu. Þetta á augsýnilega að verða blaðamatur: Lögreglustjórinn var hjá Gestapo, lögreglustjórinn fór á fund Himmlers — og annað af þessu tagi. En nú verður manni á að spyrja: Ef eitthvað varhugavert hefur verið við framkomu lögreglustjórans í sambandi við Þýzkalandsför hans, hvað hefur þá hæstv. ráðh. gert í því efni? Hvernig hefur ráðh. staðið í stöðu sinni? Er það ekki skylda hans, ef einhver hefur brotið af sér, að láta þá fara fram rannsókn? Það hefði hann átt að gera, ef eitthvað óhreint hefði komið upp í sambandi við för lögreglustjórans til Þýzkalands. Ég varð ekki var við neinn áhuga hjá hæstv. dómsmrh. í sumar, þegar hv. þm. Str. minnti á bréfin. Mér er ekki kunnugt um, að hann hafi þá viljað láta fara fram rannsókn. En ráðh. lætur sér sæma að segja úr ráðherrastóli, að það væri óþægilegt fyrir Framsfl., ef þessi bréf væru birt eða ljóstrað upp því, sem honum væri kunnugt í sambandi við afskipti þau, sem lögreglustjórinn hafði af Þjóðverjum. Ég skora nú á hæstv. dómsmrh. að segja ljóslega, hvað hann á við. Það er honum bezt sjálfs hans vegna að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Að lokum þetta: Það er ekki skemmtilegur leikur, sem fram hefur farið meðal erlendra þjóða að undanförnu. Mikið hefur verið um það rætt, hvað þessi eða hinn hafi gert á stríðsárunum, og svo málaferlin og annað, sem fylgt hefur. Við Íslendingar höfum verið blessunarlega lausir við þetta, en nú hefur hæstv. dómsmrh. byrjað að dylgja um þessi efni úr ráðherrastóli á Alþingi. Ég hefði getað verið vel ásáttur með, að Íslendingar væru lausir við þennan óskemmtilega leik, sem aðrar þjóðir hafa orðið að þola. En nú verður að leika hann á enda, og vænti ég þess, að hæstv. dómsmrh. skjóti sér ekki undan skyldu sinni í þessu efni, því að dylgjur þessarar tegundar er ómögulegt að þola.