13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (3988)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég sá mér ekki fært að ræða þetta mál án þess að ræða það, sem Þjóðverjar höfðust að hér á landi á árunum fyrir stríð. Mér hefur verið borið á brýn út af þessu, að ég vildi svelta börn og ekkjur. Það er engum til sæmdar að bera slíkt fram. Þeir útlendingar, sem hér dvelja, njóta sama réttar og aðrir íslenzkir ríkisborgarar. Það er Alþingis en ekki annarra að taka ákvarðanir gagnvart þeim mönnum. Rök hv. þm. N.-Ísf. (SB) eru svipuð og lögfræðingsins í dag, þegar hann ræddi þá um ríkisborgararétt. Þau ummæli rak ég ofan í hann viðstöðulaust. Ég hef aldrei vakið máls á því að taka gildar undirskriftir þm. vegna þessa máls, en ef hins vegar þingið vildi breyta til, yrði það að taka ábyrgð á því. Ég hefði haldið að þetta væri, eins og sakir standa, öruggasta leiðin fyrir landið. — Ég þarf í rauninni ekki að svara hv. þm. N.-Ísf. Ræða hans var yfirborðsfleipur, eins og vant er, og alger markleysa.

Hv. 1. þm. Str. gekk eftir skýrslu lögreglustjórans, og má hann sjálfum sér um kenna, ef hún hefur komið óþægilega við hann. (PZ: Hver er hv. 1. þm. Str.?). Hermann Jónasson er bæði 1., 2. og 3. þm. Str. Hann vildi láta þjóðina vita það sanna í málinu og birta öll skjöl orðrétt. En honum átti að vera kunnugt, að hægt er að birta útdrátt, án þess að skjölin séu birt í heild.

Þá vildi þessi hv. þm. láta líta svo út sem ég hefði notið einhverrar sérstakrar greiðasemi hjá Þjóðverjum. Ég naut sömu hlunninda og aðrir Íslendingar og kom heim yfir Petsamo, eins og aðrir, sem komu þá. (EystJ: Var það fyrir náð Himmlers?). Mér heyrist sumir hv. framsóknarþm. vera farnir að tala upp úr svefninum, og skal, ég ekki tefja fyrir þeim lengi.

Út af ræðu hv. 2. þm. S.-M. (EystJ). skal ég taka það fram, að ég hef ekki borið neinar sakir á hv. þm. Str., heldur aðeins lagt plöggin á borðið, en ég held, að hann hafi sýnt Þjóðverjum æði mikla linkind.