20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (4012)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. talaði um, að viðhöfð hefði verið óvenjuleg aðferð við afgreiðslu þessa máls í utanrmn. Ef það er óvenjulegt, hvernig það hefur verið afgr. þar, þá er ekki síður óvenjulegt, þegar mál er komið úr n., að farið er að ræða það utan dagskrár, eins og hv. þm. gerði. Mig undrar, að hv. forseti skyldi ekki gefa hv. 4. þm. Reykv. ofanígjöf fyrir framkomu hans. — Ég vil segja, að afgreiðsla þessa máls í utanrmn. hefur verið alveg þingleg og venjuleg. Meiri hl. mælir með því, að það verði samþ. óbreytt. Það er komið að hléi, og það átti að gefast kostur á að klára málið áður, og var þá ekki um annað að gera en að hraða því. Hv. 4. þm. Reykv. ætlar aðra syndara. Mér þykir undarlegt, að hann skuli vera með brtt., áður en hann hefur aflað sér upplýsinga um málið.

Um hv. 2. þm. Reykv. er það að segja, að hann virðist hafa tekið afstöðu til málsins. Hér er ekkert annað á ferðinni en það, sem ég sem 25 ára þm. kannast ósköp vel við, sem sé, að minni hl. hefur gripið til þessa ráðs, að gefa ekki út nál., til þess að tefja málið. Ég vil ekki kalla þessa aðferð óþinglega, en eðlilegt væri, að hæstv. forseti færi ekki eftir þeirri pípu.

Við í meiri hl. lítum svo á, að þeir menn, sem hér er um að ræða, hafi aldrei verið sviptir landsvistarleyfi. Hitt er alveg eðlilegt, að þeir þurfi nú að fá það endurnýjað, og er það bundið því, að nú séu þeir að fara til raunverulegra heimila sinna. Ef vera þeirra hér á landi þætti síðar óheppileg, vil ég þó, að þeir fái landgönguleyfi og að þeir verði þá síðar dæmdir eftir íslenzkum lögum. Það er óþolandi, að Íslendingar skuli hvetja til þess, að alltaf sé tekið fram fyrir hendur Íslendinga. Slíkt ætti ekki að eiga sér stað, nema sérstakar ástæður væru fyrir hendi.

Það er annars einkennilegt, að nokkur skuli vera á móti því, að þessi till.samþ. Með því að vera á móti því, beygja menn sig undir erlent vald. Ég vil ekki taka undir það, að hér sé fyrst og fremst um að ræða mannúðarmál. Jú, það er að vísu rétt, og það hefur knúið mig til að ljá því fylgi mitt. En mér finnst sjálfstæðismálið, sem er í þessu, engu minna vert. Eigum við að beygja okkur þannig undir erlenda aðila, að við að minnsta kosti ekki tökum upp þráðinn þar sem hinn aðalinn hefur sleppt honum? Við fyrstu umræðu þessa máls snerust umræðurnar að mestu leyti um allt annað en það. En ég hef ekki vald til þess að banna mönnum að taka til máls, og ég sé, að nú hefur hv. þm. Str. borið fram till. á þskj. 380, sem gæti gefið tilefni til almennra umræðna. En mér finnst það vera óforsvaranlegt að draga að gefa svar við þessari till., því að það er hægt, áður en þingi verður frestað.

Ég vil ljúka máli mínu með ósk um, að þessi till. verði samþ. óbreytt, áður en þing skilst.