20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (4013)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. 4. þm. Reykv. og algerlega mótmæla því, að þetta mál sé tekið á dagskrá og til afgreiðslu nú. Ég er hissa á því offorsi, sem fylgt er á eftir því með. Ég fæ ekki skilið, hvað valdið getur. Þetta er mál, sem mikið hefur að segja fyrir álit okkar út á við. En meiri hl. utanrmn. ætlar að leyfa sér að afgreiða það án þess að leyfa minni hl. n. að ræða það við hæstv. utanrrh. og án þess að gefa sama minni hl. tíma til að láta prenta nauðsynleg þingskjöl viðkomandi málinu. Ég á erfitt með að skilja, hvers vegna á að knýja málið þannig áfram. Þetta eru ný vinnubrögð og óþekkt hjá utanrmn. Þetta er mál, sem varðar álit þjóðarinnar út á við og ræður miklu um, hvar hún er sett á bekk með öðrum þjóðum heims. Þetta eru undarleg vinnubrögð, þegar um mikilsvarðandi utanríkismál er að ræða. Í fyrsta lagi er venjulegt að reyna, hvort ekki getur náðst samkomulag um það, og í öðru lagi, ef n. klofnar, þá að gefa þm. tækifæri til þess að fá þau gögn, sem hver þm. ætti að hafa fyrir sér, þegar slíkt mál er tekið fyrir. Þetta mál er þess eðlis, að eftir því er tekið. Hver er afstaða Íslendinga í svona máli? Það mun verða athugað nákvæmlega. Ísland er að stíga fyrstu sporin sem lýðveldi. Sjálfstæðu ríki ber margs að gæta í sambúðinni við aðrar þjóðir. Þar er það náttúrlega fyrst og fremst utanrmn., sem á að standa á verði um málefni landsins. Hún á að sjá um, að ekki verði gerðar svoleiðis vitleysur, að þingið þurfi að skammast sín fyrir þær á eftir. Það eru valdir þeir menn í utanrmn., sem ætlazt er til, að séu nokkurn veginn kunnugir því, sem gerist úti í heimi, og vita, hvernig á eitt eða annað er litið erlendis. Hún þarf því að vanda störf sín sérstaklega vel, og í þessu máli þarf hún að gæta þess vandlega, hvað hún gerir, hvaða till. hún hefur fram að færa. Þetta mál má ekki afgreiða öðruvísi en svo, að Alþ. þurfi ekki að bera kinnroða fyrir. En nú gerist það undarlega, að meiri hl. n. neitar að kalla fyrir n. þá ráðh., sem mest hafa með þetta mál að gera. Náttúrlega hefur þingið valið sína beztu menn í utanrmn., en ég held ekki, að Alþingi hafi álitið, að þeir væru óskeikulir. Þeir ættu því að athuga alla málavöxtu og hafa jafnan það, sem sannara reynist. Hefur meiri hl. n. gert þetta?

Hefur hann viljað fylgja og fara eftir þessari reglu? Hefur hann rannsakað þau skjöl, sem fyrir liggja? Nei. Þessa aðferð hefur meiri hl. ekki haft. Hann afgr. þvert á móti frv. þetta á 5 mínútum. Þetta mál, sem staðið hefur stólparifrildi um, tók n. ekki lengri tíma að afgreiða. Ég verð að segja, að slík afgreiðsla hjá utanrmn. er mjög vitaverð. En þó kastar nú þar fyrst tólfunum, þegar hv. 1. þm. Reykv. (MJ) krefst þess, að málið sé afgr. frá Alþingi áður en minni hl. gefst kostur á að skila áliti sínu. Það er ekki nóg, að meiri hl. lítur á sig sem óskeikulan páfa, sem ekkert geti lært. Þeir ætlast líka til þess, að ákvörðun sé tekin í málinu án þess að gögn þau, sem fyrir liggja, séu athuguð. Það er engan veginn vansalaust fyrir okkur út á við, ef við afgreiðum þetta mál á þennan hátt. Ekki er hægt að afsaka slíkt með því, að við höfum ekki vitað betur. Ég vil því mótmæla því algerlega, að þetta mál sé tekið til afgreiðslu nú. Ég krefst þess, að okkur, sem erum í minni hl., verði gefinn kostur á að leggja málið fyrir þingið með þeim gögnum, sem því fylgja. Meðan ég sé ekki, hvaða afstaða verður ofan á, hjá hæstv. forseta viðvíkjandi afgreiðslu málsins, mun ég ekki fara út í að ræða þá hlið þess, heldur snúa mér að því almennt, ef vera mætti, að málið þætti þess vert, að þm. athuguðu það nánar.

Spunnizt hafa pólitískar deilur út af þessu máli hér í hæstv. Alþingi, og hafa jafnvel komið fram aðdróttanir um, að vissir menn hafi verið allhlynntir Þjóðverjum hér fyrir stríð. Ég vil taka það fram, út af því að talað er um, að þeir séu við nazisma riðnir, að nazisminn er kriminelt fyrirbrigði. Það er nauðsynlegt, að það komi skýrt fram fyrir auglit þings og þjóðar, að nazistaflokkurinn er annað og verra en stjórnmálaflokkur. Nazisminn í Þýzkalandi var skipulögð glæpastarfsemi, og mun ég leiða rök að því, áður en ég fer lengra út í málið. Hér er um það að ræða, hvort við eigum að hleypa inn í landið mönnum, sem hafa tekið þátt í þessari glæpastarfsemi. Íslendingar eru ekki farnir að gera sér það ljóst, hvernig litið er á þjóðina nú erlendis. Hér er um það að ræða, að ef þýzki nazisminn hefði fengið að þróast, þá hefði hann eyðilagt öll þau menningarverðmæti, sem heimurinn hefur eignazt síðustu 20–40 ár. Við vitum, að glæpir hafa komið fyrir alls staðar og alltaf, en það hefur aðeins gerzt hjá einni þjóð, að ríkisstj. sjálf hafi skipulagt morð og unnið að því að þurrka út heilar þjóðir. (GJ: Var það ekki eitthvað svipað í Rússlandi?). Það væri gott fyrir þennan hv. þm. að kynna sér þessi mál lítið eitt betur, en hann er táknrænt dæmi um lélegan þroska í pólitískum málum. (GJ: Ég held, að það væri gott, ef hv. 2. þm. Reykv. vildi athuga, hvað hann segir. — EystJ: Hann er þó nýsköpunarmaður). Ég skal taka það fram, að ég er þess albúinn að ræða þessi mál og skýra það fyrir hv. þm. Barð., í hverju munurinn liggur á því, sem gerðist í Rússlandi og Þýzkalandi. (GJ: Hvernig var það með hreinsunina í Rússlandi fyrir stríð?). Ég skal upplýsa hv. þm. Barð. um, hvað það var, sem hann kallar hreinsun. Það var það, að nokkrir landráðamenn voru dregnir fyrir rétt og skotnir eða settir í fangelsi, og nú er það viðurkennt í Evrópu, að einmitt vegna þess, að það tókst í tíma að uppgötva þessa fimmtu herdeild í Rússlandi, reyndist það rússnesku þjóðinni mögulegt að standast árás Þjóðverja, en fór ekki fyrir henni eins og Dönum, þar sem menn innan herforingjaráðsins gáfu Þjóðverjum upplýsingar. Þetta mun vera það, sem hv. þm. Barð. á við, þegar hann talar um hreinsunina í Rússlandi. En það, sem ég á við, þegar ég tala um skipulagða glæpi, er það, þegar fjöldi þorpa og nokkrar borgir, eftir að þær höfðu verið hernumdar og ekki var um neina hernaðarlega nauðsyn að ræða, voru þurrkaðar út og fólkið murkað niður jafnt konur og börn. Má þar til nefna Gyðingahverfið í Varsjá eða þegar fangarnir eru teknir hópum saman og brenndir í gasklefum. Fyrir þá, sem daglega hafa átt slíka meðferð yfir höfði sér og sloppið, fyrir þá, sem hafa þannig misst ættingja sína og vini, er það skiljanlegt, að hér er ekki um pólitískt mál að ræða, heldur glæpaskipulag, sem öllu mannkyni stafar hætta af. Það er þetta, sem við verðum líka að skilja. Það, sem okkur hefur verið kennt að kalla menningu og meta mest, er hér rifið niður og fótum troðið. Við verðum fyrst af öllu að gera okkur ljóst, hvað þýzki nazisminn er, síðan dæma um hann og bera hann saman við pólitísk ágreiningsmál. Hv. þm. Barð. og aðrir, sem einhvern tíma kunna að hafa haft samúð með þessari stefnu, þurfa ekki að fyrirverða sig fyrir það, því að þeir geta sagt: Við vissum ekki, hvað þetta var. En hitt er ófyrirgefanlegt, — að koma, eftir að uppvíst er um starfsemi nazistanna, og krefjast þess, að Alþ. veiti þessum mönnum landsvist að órannsökuðu máli. — Það má vera, að mér sé þetta nokkurt hitamál, vegna þess að ég hef í sumar verið í þeim löndum, þar sem þessi stefna hefur sýnt sig, og kynnzt fólki, sem hefur misst sína nánustu í fangelsunum og gasofnunum. Það er höfuðatriði, að hv. þm. skoði þetta mál í ljósi þeirrar þekkingar, sem heimurinn nú hefur af nazismanum, þeir verða að gera sér ljóst, að þessir menn voru sendir hingað til að undirbúa glæpi. Og það er full ástæða til að vera varkár eftir þá aðvörun, sem spor nazismans hafa gefið heiminum. Við vitum, að ekki einungis hefur verið skipulögð starfsemi hér af þýzku ríkisstjórninni, heldur var rekin sérstök uppeldisstarfsemi í þýzku nýlendunni hér í Reykjavík. Það þarf að uppræta þessa stefnu algerlega, en það er verk, sem tekur tíma og þarf að vinna að með fullri aðgæzlu og alúð. Mér skilst, að hugsunarhátturinn hjá meiri hl. utanrmn. sé eitthvað á þá leið, að einmitt af því að hér er um nazista að ræða, þá eigi að veita þeim landsvist og skal ég koma að því síðar. En það er furðulegt, að menn, sem ættu að vera þessum málum kunnugir, skuli geta tekið slíka afstöðu. — Hér verða menn að gera glöggan greinarmun á þýzku þjóðinni og þýzka nazismanum, en þessu tvennu virðast margir hv. þm. blanda saman. Það var skoðun ýmissa, þegar nazisminn var í uppgangi í Þýzkalandi, að hér væri nýr stjórnmálaflokkur á ferðinni. Að vísu var þetta ekki algeng skoðun, en þó nokkuð útbreidd. T. d. má minnast þess, að þegar ríkisþinghúsbruninn var, þá gerði stærsta blað landsins, Morgunblaðið, sér ekki ljóst, að hér voru nazistar að verki, og taldi það vera kommúnista. Það er fyrst eftir að Belsenfangabúðirnar voru teknar, að menn fara að gera sér ljóst, hvað nazisminn er. Þá fara menn að átta sig á, að það, sem miður er sagt um nazismann, er ekki áróður, og jafnvel munu þó finnast dæmi um menn hér, sem hugsa sér enn, að það sé áróður.

Menn þurfa að gera sér grein fyrir því sjálfir, hvað er réttast í þessu máli. Við Íslendingar verðum dæmdir út í frá eftir því, hvaða afstöðu við tökum gagnvart Þjóðverjunum. Stundum hefur verið reynt að setja á Íslendinga nazistastimpil, og þeir, sem eru fremstir í flokki að bera hann af sér, hafa á liðnum árum ekki skapað það álit út á við, er fullsæmilegt má teljast, — eða hafa Íslendingar sjálfir verið veikari fyrir en aðrar þjóðir? Þegar þar fyrir utan er nú um að ræða, hvort Alþ. eigi að fyrirskipa hæstv. dómsmrh. að óska þess rannsóknarlaust, að nokkrir Þjóðverjar séu fluttir heim, sem störfuðu í þágu nazista fyrir stríð, þá geta óbrjálaðir menn gert sér í hugarlund, hvað útlendir menn hugsa um þessi efni. (MJ: Þetta er ekki rétt). Víst er þetta rétt, en ég skal raunar lesa till. fyrir hv. frsm. meiri hl. utanrmn., sem hefur þá ekki gefið sér tíma til að lesa hana, áður en hann afgreiddi hana. Hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að veita þeim Þjóðverjum, sem kvæntir eru íslenzkum konum og búsettir voru hér á landi árið 1939, landsvistarleyfi á Íslandi nú þegar, enda hafi þeir ekki orðið uppvísir að því að hafa rekið hér starfsemi í þágu erlendra ríkja, sem hættuleg geti talizt hagsmunum Íslendinga, eða framið aðra verknaði, sem ósæmilegir séu að almenningsáliti.“

Það stendur skýrum stöfum, að hæstv. dómsmrh. skuli veita þessum Þjóðverjum landsvistarleyfi, og þó er vitað, að hæstv. ráðh. er mótfallinn því. Hafi þeir ekki orðið uppvísir um neitt saknæmt, skal þeim veitt landsvistarleyfi, en það er alls ekkert tekið fram um rannsókn. Í dag eru umræddir Þjóðverjar ekki uppvísir um sök, og samkv. till. ætti þá að veita þeim landsvistarleyfið. Það getur verið, að hv. 1. þm. Reykv. hafi alltaf hugsað sér nákvæma rannsókn, og að það sé hans vilji, því að hann er þannig maður, að ég átti bágt með að trúa því um hann, að hann gerði vitandi vits að neita okkur um rannsókn. Nú er það komið í ljós, að hv. frsm. veit ekki, um hvað till. fjallar. Þess vegna verð ég að vona, að hann sjái sig um hönd og biðji ekki um, að till. verði samþ. óbreytt, án þess að hv. þm. gefist tækifæri á að rannsaka málið til hlítar og án þess að minni hl. n. fái að skila áliti sínu. Þetta er einmitt aðalmunurinn í brtt. hv. 4. þm. Reykv., að það á að leita upplýsinga um það og rannsaka, hverjir eru verðugir að fá landsvistarleyfi. Þar er einmitt tekið fram að leita allra gagna bæði með og móti. Og svo kemur hið alvarlega í ljós, að hv. frsm. og aðalmaður í n. veit ekki einu sinni, hvers efnis till. hans er. Hann hefur hugsað sér allt annað en stendur í till. Og þessi sami hv. þm. hefur tvisvar staðið upp og krafizt þess af hæstv. forseta, að hann tæki þetta mál á dagskrá. Ég býst við, að þessi hv. þm. ætti að athuga sinn gang, þar sem það hefur komið í ljós við þessa mjög svo stuttu ræðu hans, að hann veit ekki, um hvað till. sín fjallar. Í umræðunum hefur nú komið í ljós, að hv. þm. vill, að það fari fram rannsókn, enda er hann þannig maður, að hann mundi ekki vitandi vilja annað. Ég veit, að margir þessara umræddu Þjóðverja eru ágætir menn — ég tala nú ekki um þá, sem kusu heldur að dveljast í Englandi en fara til Hitlers. En það að ætla sér að hleypa þessum mönnum heim án rannsóknar er algerlega ósæmilegt. Mér þykir þess vegna ánægjulegt, að hv. 1. þm. Reykv. skuli hafa tilkynnt, að hann gangi út frá því, að till. sé allt öðruvísi en hún liggur hér fyrir, og ég vona, að hæstv. forseti taki tillit til þess áður en að afgreiðslu málsins kemur, að hv. frsm. hafi ruglazt í því, hvað till. fjallar um, og gefi þess vegna hv. þm. tíma til að kryfja málið til mergjar.

Mér virðist, að eitt sé nauðsynlegt að fá upplýst, áður en lengra er haldið. Það er, að nöfn þeirra Þjóðverja, er dvöldust hér á landi fyrir 1939, verði kunngerð. Þá kæmu kannske fram þær upplýsingar, er orsökuðu það, að þm. endurskoðuðu afstöðu sína. Ég efast um, að hv. þm. vildu veita þeim manni, sem var fulltrúi Gestapo, landsvistarleyfi hér, en hann er einn af þeim, sem mundi fá landsvistarleyfi hér samkv. þeirri till., sem hér er til umr. nú. Það er eðlilegast, að hv. þm. fengju að vita allt það, sem kostur er á að upplýsa, og einn þátturinn í því er sá, að minni hl. fái kost á að rannsaka málið og starfa að nál. sínu.

Hv. 1. þm. Reykv. var að segja frá því hér áðan, að sér fyndist þetta mannúðarmál. Ég verð að leyfa mér að segja það, að mér finnst þessi afstaða til mannúðarinnar breytast stundum einkennilega mikið eftir því, hvaða aðili á í hlut: Ég gat þess við fyrri hluta þessarar umræðu, að meðan ógnir og misþyrmingar nazistanna í Þýzkalandi og Austurríki voru ekki eins kunnar og þær er nú, hefði verið skrifað frá lækni einum í Vínarborg hingað til læknis á Íslandi og farið fram á að bjarga 4 ára stúlkubarni frá dauða. Faðir barnsins var í fangabúðum, en móður þess átti að varpa í fangelsi innan skamms. Katrín Thoroddsen læknir, sem fékk umrætt bréf, sótti um landsvistarleyfi fyrir hið 4 ára stúlkubarn. Þá gæti maður nú trúað, að mannúðin hefði átt að koma fram, sem hv. flm. segja, að sé höfuðhvöt þeirra nú, þegar um það var að ræða að bjarga saklausu barni úr klóm nazista. Um þetta var ekki pólitískum deilum til að dreifa, þarna og þá gat mannúðin fengið að njóta sín. En hvað gerðist? Það var neitað um landsvistarleyfi fyrir 4 ára gamalt barn, þó að faðir þess væri í fangabúðum eða dauður og fyrir móðurinni lægi hið sama, og auk þess var barnið af Gyðingaættum, en Gyðingar voru þá, sem kunnugt er, ofsóttir á alla lund. Þá var nú hægt að gera tilkall til mannúðarinnar, þar sem um umkomulaust barn var að ræða. En það fór lítið fyrir mannúðinni þá hjá þessum herrum, og einmitt hv. þm. Str., sem er annar aðalflm. þessarar till. og einn af meiri hl. og heimtar, að mál þetta gangi í gegn með afbrigðum og vili meina minni hl. um tíma til að starfa að nál., hann neitaði um landsvistarleyfi saklauss barns. Það er undarlegt með mannúðina — eða finnst ykkur það ekki? — Núna eru þó konur og börn þessara umræddu Þjóðverja örugg hér. Þær konur, sem hér um ræðir, þurfa ekki að óttast ofsóknir eða að vera kvaldar og drepnar eins og þeir, sem áttu líf sitt undir Hitler á sínum tíma. Eiginmenn þeirra þurfa ekki að óttast neitt þessu líkt. Ekkert slíkt er yfirvofandi. Þess vegna er greinilegt, að hér var um pólitíska ofsókn að ræða og í því tilfelli var eingöngu um mannúðarmál að ræða, en þegar hv. þm. Str. neitaði um landsvistarleyfið, kom enginn af hv. meiri hl. utanrmn. til að tala í nafni mannúðarinnar, og í blaði þáv. dómsmrh., Tímanum, birtist skætingur út af því, að nokkrum skyldi hafa dottið í hug að bjarga barni úr klóm nazistanna. Hins vegar verð ég að segja það, að ég gleðst yfir því, er þeir menn, sem sýndu þá svona mikið afskiptaleysi, ef þeir hafa fyllzt svona ákaflega ríkri mannúðarkennd núna, og ég vona, að þeir sýni það við betri tækifæri en nú. Ég get ekki heldur dulið það, að þess varð vart hér heima á síðustu árunum fyrir stríð, að mannúðin átti ekki eins hátt upp á pallborðið og oft áður, og þar kenndi augsýnilega andlegra áhrifa frá þýzku nazistunum, sem vildu einmitt útrýma allri mannúð. Þá ræddi hv. þm. S.-Þ., þáverandi form. Framsfl., um það, að við sýndum of mikla linkind og ættum að framkvæma það í litlum stíl, sem Hitler gerði í stórum stíl í Þýzkalandi. Auðséð er, að eitur nazistanna var byrjað að smita út frá sér, og ég held, að nauðsynlegt sé að ganga úr skugga um það, áður en endanleg ákvörðun er tekin, að ekki komist að nein nazistisk smitun.

Mig langar í sambandi við fimmtu herdeild að fá upplýsingar um það hjá hæstv. dómsmrh., hvort þeir Þjóðverjar, er björguðust í síðasta stríði af skipi því, sem var víst kallað Bayablanca, og voru fluttir til Reykjavíkur af íslenzku skipi og hafa haft hér viðsetu, hvort einhverjir þessara manna séu búnir að fá landsvistarleyfi. Einnig væri þá gott að fá upplýst, hvort till. þessi ætti líka að ná til þessara „skipbrotsmanna“. Þessu skipi var strandað hér við suðurströnd Íslands og voru skipverjar settir hér á land til þess að þeir gætu verið hér til taks. (GJ: Skipinu var ekki strandað, því var sökkt). Það skiptir ekki svo miklu máli, því að aðalatriðið er, að skipið týndist og það var gert af ráðnum hug. Þeir voru ekki venjulegir skipverjar, heldur voru þetta meðlimir í fimmtu herdeild. Nú væri gott að fá að vita, hvort þessir menn falla undir þessa till. og einnig, hvað liggur fyrir upplýst um þessa menn. Hér hafa áður komið fram óskir um ýmsa aðra starfsemi, og vona ég, að hæstv. dómsmrh. verði vel við þessu.

Inn í þessar umræður hefur spunnizt mikið um starfsaðferðir þýzku nazistanna hér. Stafar það eðlilega af því, að hv. þm. vilja fá að vita, áður en þeir ákveða nokkuð, hvað Þjóðverjar hafa aðhafzt til undirbúnings um töku landsins. Hver einasta þjóð í Evrópu gerir nú ráðstafanir til sem nákvæmastrar rannsóknar um allt slíkt. Hver þjóð lítur á það sem nauðsyn að grafast sem bezt fyrir um þessi mál og skoðar það sem eitt af því fyrsta, sem henni ber að gera. Eins og almennt er litið á Ísland nú, mundi ekki þykja ólíklegt, að Íslendingar hefðu gert ráðstafanir til að framkvæma slíka rannsókn. En hvað gerist svo á Íslandi? Það er ekki borin fram till. um þessa rannsókn fyrst og fremst, heldur er borin fram önnur till. um að veita þeim Þjóðverjum, sem hér voru fyrir stríð, landsvistarleyfi. Og ef hæstv. dómsmrh. vill láta rannsókn fara fram, þá kemur fyrirskipun frá hæstv. Alþ. um það, að þessum Þjóðverjum skuli þegar sleppt inn í landið, jafnvel þó að þeir séu þegar uppvísir um það að hafa verið þess albúnir að starfa hér sem fimmta herdeild. — Það er þetta, sem nauðsynlegt er, að menn geri sér ljóst, hvernig þetta lítur út fyrir umheiminum. Ef einhver hefur tilhneigingu til að stimpla Ísland sem vingjarnlegt hinu nazistiska Þýzkalandi, sem það alls ekki er, þá er gefið undir fótinn með samþykkt svona till., eins og hún er orðuð, og með því t. d. að ganga í berhögg við dómsmrh. landsins, taka bókstaflega af honum það vald, sem hann hefur. Ég verð að biðja hv. þm. mjög alvarlega að athuga, hvað þeir eru að gera út á við með þessu. Ég tek eftir, að hv. 1. þm. Reykv., frsm. utanrmn., er í þann veginn að hugsa málið, og það fyrsta, sem hann verður var við, þegar hann loks gefur sér tíma til að hugsa, er það, að hann er alls ekki með þeirri till., sem hann er að berjast fyrir. Hann heimtar, að það eigi að fara fram nákvæm rannsókn í þessu máli, einmitt þegar þingið er að taka valdið af dómsmrh. til að rannsaka málið.

Hv. frsm. meiri hl. minntist á, að þetta væri ekki bara mannúðarmál, heldur líka sjálfstæðismál. Jú, þetta er á sinn hátt sjálfstæðismál, en frá öfugum forsendum við þær, sem hann nefndi. Það er einmitt sjálfstæðismál fyrir Íslendinga að athuga það, hvað þýzka nazistastjórnin hefur gert hér á Íslandi til þess að reyna að yfirtaka þetta land og svipta það sjálfstæði. Og það er einmitt nauðsynlegt, að sú rannsókn fari fram. Málið þarf að ganga sinn venjulega gang, þannig að dómsmrh. landsins geri sínar ráðstafanir til þess að tryggja öryggi landsins, en þá má ekki grípa fram fyrir hendur hans og fyrirskipa, að þeir menn skuli komast inn í landið, sem vitað er um, að ýmsir þeirra hafa verið að vinna fyrir þýzka nazista hér.

Hv. frsm. meiri hl. sagði áðan, að alveg óskiljanlegt væri, að nokkur skuli vilja neita þessum mönnum um landsvistarleyfi. Honum fannst það ekki óskiljanlegt hérna um árið, þegar börnunum var neitað um landsvistarleyfi. Hann hóf ekki upp raust sína þá. En ef til vill fer hann bráðum að skilja, að ýmsir þm. hafa réttmætar ástæður til að heimta rannsókn í þessu máli, og hana ýtarlega, áður en svona leyfi er veitt. Einmitt vegna þess, að það hefði verið eðlilegt, að rannsókn hefði farið fram á starfsemi Þjóðverja hér á Íslandi fyrir stríð og þeim áhrifum og ítökum, sem þeir höfðu hér, áður en endanleg afstaða er tekin á þingi um þessa till., þá hefði ég viljað fá tækifæri til þess að ganga frá ýtarlegu nál. um þetta mál og leggja fram till., sem fyrirskipi slíka rannsókn, ekki sízt vegna þeirra upplýsinga., sem komu fram undir fyrri hluta umr. um þetta mál, upplýsinga, sem hafa orðið eitt meginefni blaðanna hér undanfarið og vissulega eiga rétt á sér í sambandi við þessi mál. Ég held þess vegna, að rétt sé að ræða nokkuð þessa rannsókn, þörfina á henni og þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram. Ég ætla að leyfa mér, fyrst ég sé, að hæstv. dómsmrh. kemur inn (Forseti: Ég vil spyrja hv. 2. þm. Reykv., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni). Ég fer að byrja á seinni helmingnum. (Forseti: Ef mjög langt er eftir, kysi ég heldur, að ræðunni yrði frestað). Ég skal gera það, fyrst hæstv. forseti óskar þess.