20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (4025)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Forseti (JPálm) :

Eins og hv. þm. er kunnugt, var ég einn af þeim 30 þm., sem skrifuðu undir áskorun til dómsmrh. um að leyfa þessum mönnum landsvist. Og ég hef ekki breytt skoðun minni í þessu efni: Hef ég þess vegna fullan vilja á, að mál þetta fái greiðan framgang. En ég er sannfærður um, að það hefur engin áhrif á málið, hvort við sitjum hér til að ræða þessa till. nú eða ofurlítið seinna. Þegar þing kemur saman næst, skal þessu máli verða hraðað eftir því, sem hægt er.

Viðvíkjandi yfirlýsingu hv. 1. flm., þm. N.-Ísf., að hann treysti ekki vel hæstv. dómsmrh. til að rannsaka þetta mál, vil ég vekja athygli hans og annarra á því, að málið er komið á það stig, að það hlýtur að verða öll stj., sem hefur það með höndum og lætur þá rannsókn fara fram, sem þarf, til þess að málið fái þá afgreiðslu, sem upplýst er, að meiri hl. alþm. vill.