20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (4031)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Hermann Jónasson:

Ég vil fá að vita, hvort umr. eiga að halda áfram. Ég mun ekki sitja undir neinu slíku frá hæstv. dómsmrh., og hef líka margt að segja fleira en ég hef sagt til þessa. En viðvíkjandi rannsókn á máli þessara Þjóðverja er vitað mál, alveg eins og hæstv. ráðh. tók fram, að rannsókn á þeim mönnum, sem sendir voru hingað heim, var nákvæm, hverjum einasta. Og ég veit það kannske eins vel og hæstv. ráðh., að hver einasti Þjóðverji, sem héðan var fluttur, hefur verið nákvæmlega yfirheyrður og rannsakaður. Og það eru ekki miklar líkur til, að það verði af okkar hendi gert ýtarlegar en þegar er búið að gera. Það liggur fyrir skýrsla um hvern einasta af þeim, og er ekki annað en fá þessi gögn og vitanlega fyrir milligöngu utanrrn. Ég veit sennilega eins mikið um þessar skýrslur eins og hæstv. ráðh., en hitt er annað mál, að ég efast um, að þau séu á þessu stigi málsins rædd á Alþ. — Ég skal svo verða við þeirri ósk að ræða ekki málið frekar, með því að ég sé, að ákveðið mál er að vekja ekki frekari umræður. Þó mælist ég til þess, að látin verði fara fram atkvgr. á Alþ. um það, hvort meiri hl. vill halda umr. áfram og ljúka henni. Ber ég þessa ósk fram við hæstv. forseta.