20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (4032)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Forsrh. (Ólafur Thors):

Hv. þm. Str. sagði, að þær upplýsingar, sem afla þyrfti í málinu, yrðu að koma gegnum utanrrn. En mér er sagt af skrifstofustjóra utanrrn., að hann eigi að fara eftir fyrirmælum dómsmrh. um að afla gagna í málinu.

Svo vildi ég geta þess út af því, sem hv. þm. Snæf. annars vegar og hæstv. forseti hins vegar sögðu, að rétt er hjá hv. þm. Snæf., að þetta mál heyrir ekki undir mig í ráðun., og það er ekki alveg réttur skilningur hjá hæstv. forseta, að málið sé þannig sameiginlegt mál ríkisstj. Það er það ekki að öðru leyti en því, að ágreiningsmál, sem upp kunna að rísa, eru að því leyti sameiginleg mál ríkisstj., að við leitumst við að ná um þau samkomulagi. En að öðru leyti fer þetta mál undir ráðuneyti dómsmrh. Ef það hefði fallið undir mitt ráðuneyti, hygg ég, að það hefði kannske staðið eitthvað öðruvísi í dag. Ég segi ekki, að það hefði staðið betur. Ég hygg, að hæstv. dómsmrh. hafi álitið, að þau sjónarmið, sem hann hefur lagt til grundvallar, séu þau, sem mestu máli skipta. Það er enginn, sam langar til að taka á sig að nauðsynjalausu ámæli fyrir það að vera að vinna gegn óskum þeirra, sem eru bágstaddir. Annað mál er, hvað það er, sem dómsmrh. hefur talið sér skylt. Endanlegur úrskurður liggur ekki hjá mér, og rannsóknin verður því áfram í höndum dómsmrh., hvort sem till. verður samþ. eða ekki. Þó að till.samþ., er málið ekki komið í höfn fyrr en dómsmrh. hefur hraðað öflun þeirra gagna, sem hann er að vinna að, og kynnt sér þau. Og ég hef þá trú, að það spilli ekki, heldur greiði fyrir öflun gagnanna, að við látum við svo búið standa á þessu stigi málsins.