19.03.1946
Sameinað þing: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (4048)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Hv. þm. Str. má sjálfum sér að nokkru leyti um kenna, á hvaða grundvöll þessar umr. hafa komizt. Bæði hér í þingræðum og eins í skrifum í blaði hans hefur verið talað um það, að ég væri að níðast á konum og börnum með því að leyfa ekki þessar landsvistir. Og ef menn væru nú ekki orðnir hér svo mjög matarþurfar, mundi ég e. t. v., þó að mér sé það heldur ógeðfellt, lesa upp nokkur ummæli úr Tímanum, sem fara í þessa átt og eru sennilega að einhverju leyti skrifuð af hv. þm. Str. eða a. m. k. innblásin af honum. Ég vil enn fremur benda á, að ég gaf í ræðu minni ekki tilefni til þess, að hann réðist á mig með slíkum ummælum, sem hann hafði fyrr í ræðu sinni hér, þar eð þessum hv. þm. hefur efalaust verið kunnugt um ummælin í Tímanum, sem ég vissi ekki annað en að væru rétt eftir höfð, m. a. af því, að ég gerði ráð fyrir, að hann hefði sjálfur skrifað blaðagreinina. En það er kannske dálítið annað að láta það berast út frá Alþingi til almúgans, hvað maður hafi þar gert. Og sennilega hafa þessi ummæli um það, að stöðinni hafi verið lokað, verið sett tvisvar eða þrisvar í Tímann til að sýna, hvað þm. Str. er mikill karl, hvað hann dirfðist að gera gagnvart sjálfum sendiherra Þjóðverja hér á landi á sinni tíð. En það er eins líklegt, að stöðin hafi verið í notkun einhvers staðar annars staðar og valdið bæði skipa- og mannstjórn, sem ekki hefði þurft að verða, ef öðruvísi hefði verið að farið.

Það má vel vera, að ekki sé rétt að draga mikið afgreiðslu þessa máls. En hv. þm. Str. er þess vel vitandi, að forsrh. hefur verið veikur síðan þetta mál hefur verið tekið fyrir á ný. Eins vissi hann hitt, að fyrri flm. er fjarverandi. Og enn veit hann það, að þeir, sem um er að ræða, eru nú komnir á þann stað, að ekki er líklegt, að þeir komist fljótt þaðan aftur. Í fjórða lagi er verið að reyna að rannsaka þetta mál með öllum þeim hraða, sem stendur í valdi núverandi stjórnar. Og þess vegna er krafa hv. þm. Str. um fljóta afgreiðslu þessa máls sennilega sprottin af sömu ástæðu og honum þótti viðkunnanlegra að tilkynna það í Tímanum, að stöðinni hefði verið lokað, heldur en að þýzki ræðismaðurinn hefði alls ekki kannazt við, að stöðin hafi verið í sínum vörslum.