28.03.1946
Sameinað þing: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (4056)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég lít svo á, að þessi brtt. frá hv. þm. Snæf. sé undanhald í málinu, því að það er vitað, að hér á Alþ. hefur verið gerður greinarmunur á orðalagi þáltill., eftir því hvort skorað er á ríkisstj. að gera eitthvað eða hins vegar, þegar henni er falið að gera eitthvað, þá er talið, þegar skorað er á ríkisstj. af þeim þingmeirihluta, sem að því stendur, að ríkisstj. eigi að verða við þeirri áskorun. En ef hins vegar um það er að ræða að fela ríkisstj. að gera eitthvað, þá hefur verið þannig litið á það, að ef sá ráðh. eða sú ríkisstj., sem faldir eru einhverjir hlutir, sem slík þál. hljóðar um, þá hafi ráðh. risið upp á móti yfirlýstum vilja Alþ., ef hann framkvæmir ekki það, sem honum þannig er falið, og að hann sé þá kominn í þá aðstöðu, að hann verði að segja af sér, ef hann vill ekki framkvæma tilmæli þál. með slíku orðalagi. Ég minnist í þessu sambandi þess, að á meðan utanþingsstj. sat hér, þá voru gerðar hér samþykktir með þál. um ábyrgð fyrir vissan kaupstað hér á landi. Þá var vitað, að ríkisstj. var á móti þessari ábyrgð og mundi ekki framkvæma þá þál., þó að samþ. væri með því orðalagi að skora á ríkisstj. að gera þetta. Þess vegna var til þess ráðs gripið í því tilfelli, og hefur oft verið gert, að breyta orðalaginu þannig að fela ríkisstj. að framkvæma það, sem þáltill. hljóðaði um. Og ríkisstj. framkvæmdi þál. með þessu orðalagi. Ég álít þess vegna, að hér sé um undanhald að ræða í þessu máli, þannig að með umorðun þáltill. geti vel verið, að það beri að sama brunni gagnvart þeim ráðh., sem fer með þessi mál nú, sem er hæstv. dómsmrh.