02.04.1946
Sameinað þing: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (4065)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum í sambandi við ræðu hv. þm. N.-Ísf. Ég hélt, að hv. flm. þessa máls hefðu á þeim langa tíma, sem þeir hafa haft til þess að hugsa um þetta mál, athugað málið, en það virðist vera mjög fjarri því enn. Hv. 1. flm. virðist enn þá hugsa sem svo, að það sé sjálfsagt að samþ. þáltill. þessa um að hleypa nú til landsins án rannsóknar mönnum, sem er vitanlegt, að staðnir eru að landráðastarfsemi hér á landi, hættulegri íslenzkum hagsmunum. Það væri hreinasta ósvinna að samþykkja þess háttar þáltill. hér á hæstv. Alþ. og ætla að fela hæstv. dómsmrh., bókstaflega móti l., að framkvæma hana. Ég er alveg hissa á því, að hv. þm. skuli halda svona fast við þetta mál, að þeir skuli, eftir þann langa tíma, sem þeir hafa haft til þess að hugsa um málið, síðan þeir upprunalega hlupu til að flytja það til þess að veita af handahófi útlendingum landsvistarleyfi — halda jafnfast við það eftir að hafa fengið tvo mánuði til þess að hugsa um málið. Við skulum bera saman það, sem farið er fram á í brtt. hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Ísf., við aðaltill., sem hv. þm. flytja, hver munur er þar á. Í brtt. er talað um, að rannsókn fari fram í þessu máli, áður en leyfið er veitt. En það er það, sem hv. þm. N.-Ísf. er á móti, móti því að þetta mál verði rannsakað og till. lagalega orðuð, þannig að til sé tekið, að þeir menn, sem ekki upplýsist við rannsókn, að séu sekir um að vinna gegn íslenzkum hagsmunum, skuli fá landsvistarleyfi. En sannleikurinn er, að það er sannað á þessa menn flesta að hafa tekið þátt í félagi, sem starfað hefur beinlínis í félagi, sem nazistar stjórnuðu. Það er undarlegt, að ekki skuli mega rannsaka þessa hluti, heldur skuli vera settar fram kröfur um það, að þessir menn fái landsvistarleyfi án þess að þessi rannsókn fari fram. Og það er bókstaflega á móti lögum landsins, að Alþ. feli dómsmrh. að gera þessa hluti rannsóknarlaust. Ég held, að sú brtt., sem hv. þm. Snæf. flytur hér, sé til þess að laga þessa þáltill. ofurlítið. Það er ekki hægt að fela ráðh. að gera hlut, nema það sé samkv. l., þannig að með brtt. hv. þm. Snæf. er miðað að því að breyta þáltill. þannig, að skorað sé á hæstv. ráðh. Það er þá verið að biðja hann að gera eitthvað, en ekki að fyrirskipa. Á þessu tvennu er mikill munur. Sýnir þetta atriði m. a., hversu flausturslega hefur verið gengið frá þessari þáltill. í fyrstu. Ég verð að lýsa yfir því, að mér þykir mjög leitt, að hv. þm. N.-Ísf. skuli ekki hafa áttað sig á þessu. Bæði hafa miklar umr. farið fram um þetta mál áður en þingi var frestað í vetur, og svo hefði tíminn, sem liðinn er síðan, átt að gefa nægilegt tækifæri til að hugsa sig um í þessu máli. Það hefði verið viðkunnanlegra, að hv. flm. hefðu viðurkennt hið auðsæja réttmæti þessarar breyt. á þáltill., en fyrst þeir ekki gera það, verða atkv. að skera úr um þetta, og ég fyrir mitt leyti treysti því, að hv. þm. verði við því að samþ. þá rökstuddu dagskrá, sem ég hef lagt hér fram um málið, vegna þess að meðan þetta mál er í höndum þess yfirvalds, sem hefur haft það í höndum, er eðlilegast, að rannsókn fari fram um þessa menn, áður en til nokkurra aðgerða kemur í þessu máli.