02.04.1946
Sameinað þing: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (4067)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það er út af þeim ummælum hjá aðalflm. þessa máls, hv. þm. N.-Ísf., sem ég kvaddi mér hljóðs, að umr. hefðu legið allfjarri kjarna þessa máls, og að vissulega bæri ekki að saka flm. málsins um það, að málið hefði verið þannig rætt. Ég ætla að segja aðeins örfá orð, sem liggja nærri kjarna þessa máls og meira að segja eru kjarni þessa máls, hvað sem hv. fyrri flm. kann að álíta. Það er sannað, að hér í landinu hefur starfað um langt árabil félagsskapur þýzkra manna, nazistaflokkur, og annar félagsskapur, sem yfirleitt hefur gengið undir nafninu vinnufylkingin. Það er sannað, að bæði þessi félög höfðu ákveðið markmið, það markmið að undirbúa árás erlends ríkis á Ísland: Það er sannað, að hingað var sendur sérstakur ræðismaður til þess að gera þessi tvö félög sem starfsömust og áhugaríkust til þess að undirbúa innrás á Ísland. Þessi maður var Gerlach. Ég veit, að engu einasta orði af því, sem ég hef nú sagt, reynir hv. þm. N.-Ísf. að mótmæla, því að hér eru staðreyndir einar sagðar. Það er og upplýst, að hver einasti þeirra manna, sem hér er verið að biðja um landsvistarleyfi fyrir, tók þátt í þessum félagsskap. Það er sagt, að sumir þeirra hafi gert það nauðugir. Ég veit ekki, hvaða nauður rak þá til þess, en hitt ætla ég sannast, og það ætla ég eftir nokkrum kynnum, að þeir hafi verið haldnir draumum um „Henrenvolk“ og aðdáun á „der Führer“, og ég ætla, að þeir hafi flestir af fúsum og frjálsum vilja fetað sporin upp til þýzka ræðismannsins og setið þar á fundum til þess að undirbúa árás á Ísland. Það kann að vera, að þessum mönnum hafi ýmsum síðar snúizt hugur. — Svo gerist það nokkru fyrir jól, að mátulega hæverskur málaflutningsmaður hér í bæ fer að ganga á milli þm. og svo að segja kalla þá fyrir rétt og krefja þá um afstöðu þeirra til málsins og allt að því heimta og hóta í sambandi við það að reyna að fá þm. til að ljá lið til þess, að þessir menn fái skilyrðislaust að koma til Íslands. Svo koma tveir hv. þm. og flytja þáltill., sjálfsagt að áeggjan þessa virðulega málaflutningsmanns.

Það var rætt um það, að það hefði verið rætt utan við kjarna málsins. Nú liggur málið svo fyrir, að hæstv. dómsmrh. hefur, eins og skylda ber til, rannsókn með höndum í málinu. Leiði sú rannsókn í ljós, að einhverjir þessara manna séu saklausir, að einhverjir þeirra hafi ekki unnið gegn íslenzkum hagsmunum, þá er sjálfsagt að leyfa þeim landsvist hér, og ég efast ekkert um, að hæstv. dómsmrh. muni veita það leyfi í slíku tilfelli tafarlaust, ef um það er beðið. Og hvers vegna á þá hæstv. Alþ. annað að gera en að láta svo búið standa sem er, að rannsókn haldi áfram í málinu, í fullu trausti þess, að hún verði ýtarlega og réttlátlega framkvæmd, og að þeim mönnum, sem að lokinni rannsókn reynast saklausir að því að hafa unnið gegn íslenzkum hagsmunum, verði leyfð hér landsvist? Hvers vegna á að samþykkja flaustursþáltill., sem er svo flaustursleg, eins og áður hefur verið á bent, að einn lögfræðingur á Alþ. sér sér ekki annað fært en að endursemja hana? Hvers vegna á að samþykkja þáltill., sem segir: Látið þessa menn koma heim. Ef þeir eru ekki þegar uppvísir að því að hafa unnið gegn hagsmunum Íslands, sleppið þið allri rannsókn? — Ég skil ekki, að nokkur hv. þm., sem styður hæstv. ríkisstj., vilji að athuguðu máli sýna hæstv. dómsmrh. það vantraust, að þetta mál eigi ekki að hvíla í hans höndum, þar sem það réttilega á að vera.