08.03.1946
Sameinað þing: 31. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (4076)

192. mál, mjólkursamlag Suður-Þingeyinga

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Þegar fjárl. voru afgr. á þessu þingi fyrir árið 1946, þá var þar einn liðurinn fyrirheit um lögmætan fjárstyrk og ábyrgð fyrir væntanlegt mjólkurbú á Blönduósi. Þar eru ekki ákveðnar upphæðir í þeim lið. En eftir áætlun mjólkurfræðings Búnaðarfélags Íslands, þá er gert ráð fyrir, að það mjólkurbú kosti 600 þús. kr. — Þessi sami maður hefur svo í vetur unnið með Suður-Þingeyingum að undirbúningi mjólkursamlags þar. Og þar sem mjólkursamlagið þar mundi ná yfir svipað svæði og félagið í Austur-Húnavatnssýslu, mestalla Suður-Þingeyjarsýslu, austan Ljósavatnsskarðs, og þar sem enn fremur Suður-Þingeyingar hafa orðið fyrir þungum búsifjum af völdum fjárpestar, leggja þeir mikla áherzlu á að geta aukið mjólkurframleiðslu sína. Og þar sem mjólkurfræðingurinn telur, að tilkostnaðurinn verði svipaður við að koma á fót mjólkurbúi í Suður-Þingeyjarsýslu eins og í Austur-Húnavatnssýslu, óska Suður-Þingeyingar eftir, að Alþ. gefi þeim kost á því sama í þessu efni og Austur-Húnvetningum. — Ég hef tekið þetta upp þannig í þessa þáltill., að ég tel réttara að tilfæra tölur, sem er ábyrgð fyrir helmingi framlags og fyrirheit um styrk, sem svari ¼ hluta stofnkostnaðar, þegar þar að kemur.

Ég óska, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn. til athugunar.