23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (4078)

192. mál, mjólkursamlag Suður-Þingeyinga

Frsm. (Björn Kristjánsson) :

Herra forseti. Þessi þáltill. sem hér liggur fyrir, er flutt af hv. þm. S.-Þ. og að efni til að heimila ríkisstj. að greiða ¼ hluta stofnkostnaðar, allt að 150 þús. kr., til mjólkurbús Suður-Þingeyinga og að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs 300 þús. kr. lán í sama skyni.

Fjvn. hefur rætt þessa þáltill. og orðið sammála um, að sjálfsagt sé að veita þessa ábyrgð. Það hefur verið siður að veita sams konar ábyrgðir til mjólkursamlaganna, sem reist hafa verið til og frá á landinu, og síðast í sambandi við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1946 fyrir mjólkursamlag á Blönduósi, sem er eiginlega samferða þessu mjólkursamlagi Suður-Þingeyinga, og auk þess var þar líka samþ. að mæla með því, að ríkissjóður borgaði út á þessu ári venjulegan styrk, sem er ¼ hluti stofnkostnaðar. — Fjvn. var sammála um, að þessi ábyrgðarheimild væri veitt, sem um ræðir í þessari þáltill. Hins vegar sá hún sér ekki fært í þetta sinn að mæla með útborgun styrks á þessu ári, af því að þetta var ekki samþ. við afgreiðslu fjárl. Fjárl. fyrir árið 1946 hafa verið afgr., og mörgum fannst nógum útgjöldum á þau hlaðið, þó að ekki væri þar bætt við. Nú hefur þetta þó verið gert hvað eftir annað, þó að afgreiðslu fjárl. hafi verið lokið fyrir s. l. áramót. Samt sem áður felldi fjvn. í brtt. sinni við þáltill., sem hún flytur á nál. á þskj. 663, úr till. ákvæðið um útborgun styrksins, sem er þó alls ekki fyrir það, að fjvn. sé því mótfallin, að þessi styrkur verði veittur, því að n. telur ekki koma til mála að vera á móti því, samkv. þeirri venju, sem tíðkazt hefur um styrk til slíkra fyrirtækja. Þess vegna leggur n. til, að styrkupphæðin verði tekin upp á næsta fjárlfrv. og óskar þess, að ríkisstjórnin sjái um það.

Ég vil geta þess, að fjvn. hefur talað við hv. flm. þessarar þáltill. og enn fremur oddvita Húsavíkurhrepps um þessa afgreiðslu á till., og þeir gátu, eftir atvikum, sætt sig við það, að styrkheimildin yrði felld niður úr till. á þennan hátt. — Það stendur víst ekki til, að vélar til þessarar mjólkurstöðvar komi fyrr en seint á árinu. Og oddviti Húsavíkurhrepps taldi hægt að borga þetta fram yfir næstu áramót. Enda gæti vel svo farið, að þessi styrkheimild verði þá komin inn í næstu fjárl., sem væntanlega verða afgr. áður en árinu lýkur.

Ég vil svo bæta því við, sem hv. þm. mun kunnugt, að fjárpest hefur herjað Suður-Þingeyjarsýslu meir en flest önnur héruð landsins. Það liggur við, að bústofn ýmissa bænda þar væri gereyddur. Þess vegna var ráðizt í það þar að hafa fjárskipti, farga öllu fé þar á stóru svæði og kaupa fé af ósýktu svæði í staðinn. Þetta var gert árið 1944 og 1945. En sá fjárstofn, sem keyptur var, var að tölu ekki nema brot á við það, sem áður var þarna af sauðfé, og maður getur því nærri, að fjárhagsástæður á þessu svæði eru því hvergi nærri góðar. Og stofnun þessa mjólkurbús er einn liðurinn í því að reyna að bjarga bændum þarna fyrst og fremst yfir það tímabil, þegar þeir eru að koma bústofni sínum í það horf, sem hann var í áður en fjárpestin byrjaði að eyða fé þarna. En í öðru lagi á þetta fyrirtæki að verða framtíðarmál til bættrar atvinnuaðstöðu héraðsbúa. — Ég vona þess vegna, að öllum hv. þm. sé ljóst, hve mikið nauðsynjamál hér er á ferð, og þeir verði því einhuga um að afgr. þessa ábyrgðarheimild.

Í samræmi við þetta, sem ég hef sagt, leggur fjvn. til, að þáltill. verði breytt og hún orðist svo, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að ábyrgjast fyrir hönd ríkssjóðs lán til mjólkursamlags Suður-Þingeyinga á Húsavík, allt að 300 þús. kr., þó ekki yfir 50% af stofnkostnaði, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar.“

Ég vil svo aðeins geta þess, að þegar þetta mál var afgr. í n., var einn nefndarmanna fjarverandi, hv. 4. landsk. þm. Sennilega hefði hann verið þessu samþykkur.