27.04.1946
Efri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (4094)

135. mál, atvinnudeild háskólans

Bjarni Benediktsson:

Mér þykir leitt, ef hæstv. forseti ætlar að taka upp á því síðustu daga þingsins að brjóta þingsköp, en í 16. gr. stendur svo, með leyfi hæstv. forseta, eða ef ég þá fæ leyfi til þess: „Vísa má máli til nefndar á hverju stigi þess. Sé það gert áður en umræðu er lokið, þá skal fresta henni.“ Enda eru dæmi til þess, að málum hafi verið vísað aftur til n., ef þau þykja ekki nægilega athuguð, og þori ég að fullyrða, að þessi úrskurður forseta er óréttur, ég get ekki sætt mig við hann og óska eftir, að atkv. hv. dm. verði látin skera hér úr.

Hæstv. menntmrh, lét í ljós, að okkur óbreyttum þm., kæmi þetta mál ekkert við. En við berum nú ábyrgð á því, hvort frv. verði að 1. eða ekki, og sé ég ekki, að málið skipti aðra meira en okkur. Og ég tel hæpið að ætla að afgreiða málið á þessu stigi, án þess að n. hafi gefizt kostur á að athuga það. Þm. verða að fá leiðbeiningar frá n., áður en þeir greiða atkv. um málið. Og ég tel hæpið að taka mál úr höndum n. með þeim hætti, sem hér er gert, og tel, að yfirlýsing forseta hafi ekki við nokkur rök að styðjast, og hlýt því að mótmæla þessu sem fullkominni lögleysu.