27.04.1946
Efri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (4096)

135. mál, atvinnudeild háskólans

Eiríkur Einarsson:

Það hefur verið tekið fram, að form. n. hafi verið forfallaður, hafi verið veikur og auk þess haft fleiri ástæður, sem eru fullgildar til þess að hann hefur ekki getað mætt.

Þessu máli var vísað til menntmn. 16. þ. m., og gafst n. ekki tími til að gefa út nál. meðan form. var ekki forfallaður. En nú er n. höfuðlaus her, og hins vegar er tíma þingsins svo komið, að öll mál, sem eftir eru, eru komin í eindaga, þar sem svo líður að þinglausnum sem raun er á. Auk þess er það og vitað, að þetta er ágreiningsmál. En þar sem ég er bara fundaskrifari n., þá ber mér ekki skylda til að kalla saman fund, enda er ég ófús til þess á meðan form. er forfallaður. Ef þetta mál á að fá afgreiðslu nú, þá teldi ég bezt að vísa því til annarrar n., sem er fullskipuð, og tel ég, að það sé, ekki á móti þingsköpum. Ég geri þetta ekki að till. minni, en bendi á, að þessi möguleiki er fyrir hendi, ef þörf er á að vísa málinu til n.