30.10.1945
Sameinað þing: 4. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (4105)

51. mál, Þjórsárbrúin

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti. Ég hef ásamt þm. Rang. leyft mér að flytja till. til þál. um endurbyggingu brúarinnar á Þjórsá. Brýrnar á Þjórsá og á Ölfusá eru með elztu brúm á landinu. Ölfusárbrúin er byggð 1891, en Þjórsárbrúin fjórum árum síðar, 1895. Upphaflega voru þessar brýr því byggðar fyrir allt annað álag en nú hefur orðið síðari ár, sérstaklega nú á stríðsárunum. Þessar brýr voru byggðar fyrir hestakerrur og hestaumferð, og voru þá settar sérstakar reglur um það, hvað mikinn þunga mætti leggja á brýrnar í hvert sinn. Og þegar maður lítur til þess, hvað brúarsmiðirnir áætluðu þá, sér maður, hversu gífurlega hefur verið farið fram úr því með þeirri umferð, sem nú tíðkast á þessari aðalsamgönguleið Suðurlandsundirlendisins. Eftir að samgöngur bötnuðu og bílar komu til sögunnar, hefur umferðin aukizt stórlega, og nú á hernámsárunum hefur álag á þessar brýr farið langt fram yfir það, sem upphaflega var til ætlazt. Nú hefur afleiðingin orðið sú, að brúin á Ölfusá slitnaði niður í fyrrahaust, og má stórmerkilegt kalla, að ekki skyldi af hljótast stórslys, þegar brúin fór niður. Sú brú hefur nú verið endurbyggð, en gamla brúin hefur verið notuð til bráðabirgða á meðan verið er að setja nýju brúna upp. En eftir að brúin á Ölfusá slitnaði niður í fyrrahaust, var settur vörður við brúna og einnig við Þjórsárbrú, til þess að hafa gát á umferðinni, jafnframt voru settar takmarkanir um það, hversu mikill hámarksþungi mætti fara yfir þessar brýr í einu. Var sett sama hámark um það, hvað mikill þungi mætti fara yfir brýrnar í einu, og voru það 6 smálestir. Það bendir ljóslega til þess, að þeir verkfræðingar, sem stóðu að þessu, og vegamálastjórnin hafi litið svo á, að brýrnar þyldu svipaðan þunga báðar, gamla brúin á Ölfusá og Þjórsárbrúin. Þó að Þjórsárbrúin hafi ekki slitnað niður enn þá eins og Ölfusárbrúin í fyrra, má líklegt telja, að brúin sé engu sterkbyggðari en Ölfusárbrúin gamla, enda var strax snúið sér að því, eftir að Ölfusárbrúin fór niður, að styrkja Þjórsárbrúna með því að þyngja stöplana og styrkja burðarstrengina. Þrátt fyrir það, sem hefur verið gert í sumar, hefur vegamálastjóri skýrt frá því, að hann telji ólíklegt, að hægt verði að auka hámarksálagningu á brúna. En það, að ekki er hægt að auka hámarksþungann á brúna, er til mikilla óþæginda fyrir umferðina austur yfir Þjórsá. Ég get t. d. sagt það, að þó að búið sé að styrkja Þjórsárbrúna, verður að tæma áætlunarbílana og fólkið verður að ganga yfir brúna, og sýnir það, hver ótti er um það af hálfu vegamálastjórnarinnar að leggja nokkuð verulega á brúna. Þetta veldur auk þess miklum óþægindum fyrir fólkið að þurfa að fara út úr bílunum og ganga yfir brúna í hvaða veðri sem er. — Þá er annað ekki minna atriði en fólksflutningarnir fyrir þau héruð, sem eru austan Þjórsár. Það er að geta ekki flutt þungavöru með bifreiðum, sem eru meira en 2½ tonn, en það mundi gera flutninga miklu ódýrari að nota stærri bifreiðar til flutninganna.

Með þetta fyrir augum er Ölfusárbrúin nýja nú byggð. Hún er gerð fyrir margfalt meiri hámarksþunga, enda er það mjög nauðsynlegt fyrir þau héruð, sem liggja austan Þjórsár, því að þau verða eingöngu að búa við landflutninga, og væri því nauðsynlegt fyrir þau héruð að geta notað sem stærstar bifreiðar, með því verða flutningarnir ódýrari. Eins og nú standa sakir, er mörgum bifreiðum bannað að fara fullfermdum yfir Þjórsárbrúna, og þar af leiðir, að þrátt fyrir þessa viðgerð er óumflýjanlegt, að hún verði byggð upp, og ég sé ekki, að það sé nokkur ávinningur fyrir þjóðfélagið, þegar fjármunir eru fyrir hendi, að draga stundinni lengur að endurbyggja brúna, þar sem sjáanlegt er, að þetta þarf að gera. Eða þarf að bíða eftir, að um þessa brú fari svipað og um Ölfusárbrúna, að hún slitni niður áður en hafizt er handa? Því að það get ég fullvissað menn um, að þó að þessir tveir menn, sem fóru í Ölfusá, björguðust með undraverðum hætti, þá er útilokað, að nokkur maður bjargist, sem fer ofan í Þjórsá þar, sem brúin er nú.

Við flm. þessarar till. mælumst því til þess, að hv. Alþ. ákveði nauðsynlegan undirbúning að byggingu nýrrar brúar á Þjórsá, og verði undirbúningnum hraðað svo, að hægt verði að hefjast handa þegar á næsta vori um endurbyggingu brúarinnar og henni verði helzt komið upp á næsta sumri, það má ekki lengur dragast, hvorki vegna nauðsynjar fólksins, sem þarf að flytja alla framleiðslu sína yfir þessa brú, né heldur vegna þess að ægileg slys gætu af því hlotizt, að lengur væri dregið að endurbyggja þessa brú. Ég vildi því mega vænta þess, að hæstv. Alþ. tæki þessari till. okkar vinsamlega og afgr. hana fljótlega, svo að undirbúningur geti þegar hafizt, og treystum við því, að kostnaður við undirbúning verði greiddur úr ríkissjóði og öllum undirbúningi verði hagað með það fyrir augum, að verkið geti hafizt á næsta vori, og verði því hagað í beinu framhaldi af endurbyggingu Ölfusárbrúarinnar. Ætti að vera þægilegra að gera það í beinu framhaldi af því verki, þar sem hægt væri að nota ýmsa hluti og verkfæri, sem þar hafa verið notuð, og ætti það að geta sparað mikið fé. Verði Ölfusárbrúin fullgerð um áramót, verður hægt að nota þessi tæki við Þjórsárbrúna og byrja þá þegar að flytja þau á staðinn og hefja þannig nauðsynlegan undirbúning með því að þetta sé gert strax, þegar Ölfusárbrúin er fullgerð. Ég vil svo mælast til þess að till. verði visað til fjvn. og síðari umr.