30.10.1945
Sameinað þing: 4. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (4107)

51. mál, Þjórsárbrúin

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Ég vil þakka hæstv. samgmrh. fyrir skilning hans á þessu máli og góðar undirtektir, sem málið fær frá hans hendi, og vonast ég til, að hann fylgi málinu fast eftir, svo að framkvæmd þess þurfi ekki að dragast úr hófi fram.

Viðvíkjandi ummælum hans um það, að fleiri brýr séu til, sem svipað hagi til um og Þjórsárbrúna, þá hygg ég, að það sé rétt. En ég efa það stórlega, að það standi svo á um nokkra aðra brú á landinu, að mörg héruð verði að nota hana, jafnveik og hún er, fyrir alla sína flutninga að og frá, og hún sé þar að auki fyrir stórkostlega umferð á sumrin, eins og á sér stað um þessa brú. Það er svo að segja óslitinn straumur um þessa brú alla daga sumarsins og tugir bifreiða fara yfir hana á hverjum sólarhring allan ársins hring. Ég er viss um, að engin brú á landinu, eins og nú er komið, jafngömul og byggð fyrir allt aðra umferð en nú á sér stað, er eins mikið notuð og þessi brú, því að það er ekki hægt að komast nokkurn annan veg, hvorki á sjó né landi, til þessara héraða nema um þessa einu brú. Mér þætti gaman að vita, hvar sú brú er, þar sem jafnmikil flutningaþörf er fyrir hendi og yfir Þjórsárbrúna. Því að það verða menn að athuga, að það er ekki aðeins, að þessi brú sé notuð til mikilla flutninga, heldur eru allir sjóflutningar til þessara héraða útilokaðir, og þar af leiðandi er þessi brú meira notuð en nokkur önnur brú á landinu, nema ef vera kynni Ölfusárbrúin. Ég vil taka undir það, sem hæstv. samgmrh. sagði, að æskilegt væri, að fjvn. hefði nána samvinnu við vegamálastjórnina og athugaði gaumgæfilega þá miklu þörf, sem orðin er á því að endurnýja Þjórsárbrúna.

Ég tel nauðsynlegt, að sú hv. n., sem fær þessa þáltill. til meðferðar, nái samvinnu við vegamálastjórnina um þetta efni um að athuga þörfina á öruggum samgöngum á þessari leið, þ. e. austur yfir Þjórsá, nauðsynina á endurbyggingu brúarinnar á Þjórsá og þá áhættu, sem því fylgir, ef brúin er ekki endurbyggð. Ég hygg, að ekki sé eins gömul brú á nokkru stóru vatnsfalli á landinu og á Þjórsá. Og ég efast um, að nokkurs staðar á landinu fylgi því eins mikil hætta, ef brú fer niður, og einmitt Þjórsárbrúin. Ég hef hvergi farið yfir vatnsfall á Suðurlandi, sem ég vildi síður fara ofan í, ef brú bilaði, en Þjórsá, því að í slíku tilfelli skil ég ekki í, að neinn kæmist lifandi upp úr henni, sem ofan í hana færi.

Ég skal ekki fara að rifja upp gamlar fullyrðingar um það, að Ölfusárbrúin hafi farið niður vegna þess, að ekki hafi verið fylgt þeim reglum, sem settar voru um umferð yfir brúna. Ég hygg, að víða sé pottur brotinn í þeim efnum, þannig að ekki sé í þeim efnum alltaf fullkomnasta eftirlit. Og þegar Ölfusárbrúin féll niður, þá voru reglurnar um umferð yfir hana minna brotnar en gert var svo að segja á hverjum degi áður en brúin fór niður, t. d. þegar 24 manna bifreið fór hlaðin fólki yfir brúna þá örstuttu áður. Það er erfitt í okkar mannfélagi að halda reglum í heiðri, nema eitthvert eftirlit sé haft með því. Og þegar Ölfusárbrúin fór niður, var framið aðeins smávægilegt brot á umferðarreglum yfir brúna á móts við það, sem gert var alla undanfarna daga, tímann áður en brúin fór niður.