23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (4114)

242. mál, þorpsmyndun á Egilsstöðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er í sambandi við þær aðferðir, sem viðhafðar eru, þegar verið er að koma hér upp þorpum, sem mig langar til að segja hér nokkur orð.

Ég held, að það sé mjög æskilegt, að áður en fram koma opinberar till. um ákveðinn stað, þar sem á að setja upp bæi, þá sé jafnvel byrjað á því, þegar farið er að undirbúa skipulag bæjanna, ekki sízt þar, sem litlar eða engar byggingar eru fyrir, að ríkisstj. kaupi upp jarðirnar, áður en farið er að tala um svona bæjarmyndun. Það eru svo hörmuleg dæmi, sem menn hafa fyrir þá sök, hvernig gengið hefur að semja við landeigendur, þegar slík þorp hafa verið sett upp, eða bæir á þeirra lóðum, svo að það hlýtur að hræða okkur frá þessari aðferð. Við vitum t. d. á þessum stað, hvernig það gekk þarna með flugvöllinn, og það þarf á einhvern hátt að tryggja, að það sé ekki hægt að misbeita landeigandaréttinum eins og gert er á þessum stað, og það er varla hægt með öðru móti en því að reyna við viðkomandi landeigendur að fá landið með sæmilegu verði, og ef það ekki tekst, þá sé bókstaflega ekki við staðinn átt, svo framarlega sem hægt er að finna svipaðan stað, sem gæti fullnægt samsvarandi tilætlun. Maður veit, að þegar svona till. er komin fram, þá kostar hún okkur hundruð þúsunda í hækkuðu jarðarverði, sem jörðin er sprengd upp fyrir það, að farið er að tala um þessa hluti, ég tala ekki um það, ef farið er að taka ákvarðanir. Og ef hæstiréttur ætti að koma til, þá er hann viss með að hafa þá undarlegu hugmynd, sem hann hefur haft við svona jarðarmat, að sprengja verðið upp með það fyrir augum, að þarna muni sem sé verða mjög dýrar lóðir í framtíðinni, af því að þarna er ákveðið að reisa bæ. Það er þess vegna tvímælalaust fyrsta verkið, sem þarf að gera, áður en farið er að skipuleggja svona, það er að vera búinn að kaupa upp viðkomandi jarðir.

Ég vil þess vegna sérstaklega undirstrika það í ræðu hæstv. dómsmrh., sem hann sagði, að það mundi ekki verða úr svona þorpsmyndun, ef ekki er hægt að fá mjög sæmilega skilmála um jarðakaup, og þegar næst verður hugsað til svona þorpsmyndunar, sem ég vona, að verði bráðlega, þá yrði, áður en svona till. koma fram, búið að kaupa jarðirnar af ríkinu, og ég álít rétt, að ríkið hafi slíkan rétt, því að það dugir ekki, þegar verið er að skipuleggja þorp, að jarðeigendur geti þar sett stólinn fyrir dyrnar. Ég vil láta þetta koma fram í sambandi við þessa umr. um þessa þörfu og heppilegu till., sem ég álít, að hefði helzt átt að koma fram fyrst eftir að búið var að kaupa jörðina.