23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (4115)

242. mál, þorpsmyndun á Egilsstöðum

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, vil ég láta þess getið, að það er víst öllum kunnugt, að á þessum stað er nú þegar farið þorp að vaxa upp, án þess að nokkur löggjöf hafi komið fram um það frá Alþingi, og það mundi vaxa skipulagslaust upp á þessum stað, ef Alþingi skiptir sér ekki neitt af málinu, og svo þegar búið væri að byggja upp nokkuð margar byggingar, þá mundi landið vitanlega nokkuð hækka í verði, og væri þá ekki hægt að greiða fyrir þeim mönnum, sem þarna ætluðu að taka sér bólfestu, nokkuð líkt því, sem hægt er að gera með því að bregða nú við og reyna að koma á þetta mál einhverju skipulagi frá upphafi. Annars vildi ég um leið láta þess getið, að ég tel mjög misráðið, hversu lítil lönd hafa verið lögð til sveitaþorpa, sem stofnuð hafa verið, því að vitanlegt er það, að þeir menn, sem vilja setjast að í sveitaþorpum, þeir hafa jafnvel enn þá ríkari þörf fyrir nokkurt landrými en þeir, sem búa í sjávarþorpum og stunda búskap jafnhliða annarri atvinnu sinni. Eins og það hefur komið fram, að lagt hefur verið of lítið land til sjávarþorpa, eins hefur það komið fram, að lagt hefur verið of lítið land til sveitaþorpa, og það er að minni hyggju enn þá nauðsynlegra að gæta þess, að sveitaþorp fái nóg landrými þegar frá upphafi. Og hefði þess vegna talið, að þessi heimild hefði átt að vera enn þá ríflegri en hún er, en þetta var gert til samkomulags og álitið, að landið þyrfti ekki að vera meira, eins og sakir standa, en ef möguleikar væru til að leggja meira land undir þorpið á Egilsstöðum með viðráðanlegum kostnaði, þá teldi ég fyrir mitt leyti rétt að gera ráðstafanir til þess.