23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (4134)

234. mál, fjárskipti

Flm. (Jónas Jónsson) :

Þessi till. er flutt eftir beiðni bænda í Eyjafirði austan Akureyrar og Þingeyjarsýslu vestanverðri.

Það er skemmst af því að segja, að þeir þar fyrir norðan eru komnir að þeirri niðurstöðu, þar sem ekki er um annað að tala en sauðfjárbúskap, að þeir geti ekki beðið eftir þeim lækningum á sauðfé, sem vonazt er eftir. Þingeyingar hafa þrem sinnum ráðizt í að skipta um sauðfé með aðstoð ríkisins. Fyrst var Reykdælahreppur, hann var girtur af, þar næst voru fimm hreppar austan Skjálfandafljóts og í fyrra Mývatnssveit hálf og Bárðardalur. Í öll skiptin voru bændur nokkuð skiptir um, hvort ætti að leggja út í þetta. En samt varð niðurstaðan í þessi þrjú skipti, að það lægi ekki nema landauðn við, ef ekki væri að gert. Nú er í ráði að halda áfram á þessari braut og hafa fjárskipti á svæðinu alla leið vestur að varnargirðingunni í Eyjafirði. Sendimenn úr þessum héruðum komu hingað og áttu tal við sauðfjárveikinefnd, sem mælti einhuga með þessum skiptum. Þar næst var talað við ríkisstj., sérstaklega hæstv. fjmrh., sem tók málinu vel, og síðan við landbn. beggja d., sem mæltu með því einhuga, og fjmrh. sagði, að hann mundi framkvæma fjárskiptin, ef Alþingi samþ. það, annars sæi hann sér það ekki fært, þó að hann tæki vel í málið. Þess vegna óskaði n., að þm. S-Þ. og Eyf. bæru málið fram með þessum meðmælum.

Ég vil aðeins bæta því við, að þannig stendur á í Eyjafjarðarsýslu norðan Akureyrar og í Skagafirði norðanverðum, þar sem garnapestin hefur verið og reynt er að útrýma henni með takmörkuðum fjárskiptum, að þar heldur veikin áfram ískyggilegar en áður, þannig að bændur í Eyjafirði norðan þessarar línu og í Skagafirði hafa mjög mælt með þessu, af því að þeir álíta, að næsta skrefið verði Eyjafjörður vestanverður og Skagafjörður austan vatna, en það mál liggur ekki fyrir nú, heldur vil ég skýra frá því, að eins og stendur trúa bændur fyrir norðan á það, að það sé helzta úrræðið að útrýma á þennan hátt sýkta stofninum og fá heilbrigt fé í staðinn, þó að það verði til þess, að fjárstofn þeirra minnki fyrst í stað. Einnig eru nú uppi tilraunir um að fá fluttan inn með vísindalegum aðferðum nýjan fjárstofn, en út í það fer ég ekki hér. Það er einn kunnáttumaður í Eyjafirði að gera tilraunir með þá hluti, þó að það sé ekki af útlendum fjárstofni. Munu margir landbúnaðarmenn hallast að því að láta það fara saman að halda hreinum íslenzkum fjárstofni á vissum svæðum og freista svo að brynja sig móti komandi hættu með aðferðum, sem nú er verið að gera tilraunir með og menn gera sér vonir um.

Það þykir líklega hlýða að vísa þessu stóra máli til fjvn., og vona ég þá, að hún geti tekið það til meðferðar sem allra fyrst, svo að málið dagi ekki uppi, heldur annaðhvort verði samþ., sem ég vona að verði, eða þá fellt, ef það hefur ekki þingfylgi, en það vil ég heldur en það dagi uppi, því að það er þó hrein afgreiðsla. Ég álít málið svo gott, að það eigi skilið að verða samþ., en það, sem mér þætti verst, væri, að það yrði ekki afgr.