27.04.1946
Sameinað þing: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (4143)

234. mál, fjárskipti

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég held, að það sé ljóst, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, að með samþykkt þessarar till. sé tekin ákvörðun um það að hefja almenn fjárskipti á landinu og að því leyti sé till. hv. þm. Barð. ekki þörf. Það leiðir af sjálfu sér, að halda verður þessu áfram, ef nú verður farið af stað. En ég vil aðeins benda á það, að mér virðist, að í nál. hv. þm. Barð. og í þeirri brtt., sem hann leggur hér fram, sé allmikið ósamræmi, sem ég vildi benda á í sambandi við þá afstöðu, sem ég mundi taka til þeirra brtt. Hv. þm. segir í niðurlagi nál., að það sé ekki þörf á þessu þ. að samþ. með þál. útgjöld á árunum 1947–1949, og að réttara sé, að það sé gert í fjárl. En það er ljóst, að eins og brtt. er orðuð, þá er alveg sams konar heimild fyrir til þess að stofna til þeirra útgjalda á þessu ári. Og hún er kannske víðtækari en þessi þál. Þar segir, að ríkisstj. sé heimilt að greiða úr ríkissjóði eftir því, sem sauðfjársjúkdóman. leggur til á hverjum tíma, og með þeim skilyrðum, sem þar kunna að vera sett, og fjárskipti fari fram samkv. fyrirmælum l. þar um á hverjum tíma. Nú liggur hér fyrir, að þessi n. leggur til, að þessi fjárskipti fari fram. Það er gert ráð fyrir því í l. og eins í þál. um þetta efni, að þessar framkvæmdir og fjárbætur í sambandi við þær fari fram á nokkrum árum. En hins vegar er í brtt. hv. þm. Barð. lagt til, að greitt verði miklu meira fé á hverju ári til þessa, ef óskir komi fram um það, og að því leyti er um miklu víðtækari fjárgreiðslur úr ríkissjóði að ræða en gert er ráð fyrir í þáltill. Og samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. landbrh. hefur gefið hér, lítur hann svo á, að með samþ. hinnar upprunalegu þáltill. sé stefnt að því, að almenn fjárskipti fari fram í landinu, og að því leyti virðist brtt. hv. þm. Barð. óþörf til þess að túlka hug og afstöðu hæstv. landbrh. að því er snertir þessar framkvæmdir. En náttúrlega hef ég fyrir mitt leyti ekkert við það að athuga, þó að rýmkað yrði um fjárgreiðsluheimildina fram yfir það, sem felst í hinni upprunalegu þáltill., frá því sjónarmiði séð, að ég veit, að á þeim svæðum, eins og í Borgarfirði og Húnavatnssýslu, þar sem menn hafa búið allra lengst við þessa veiki, eru menn að verða alveg ráðþrota og sjá nú ekki annað úrræði en að grípa til fjárskipta. Út frá þessu séð hef ég ekkert á móti því, að rýmkað verði eitthvað um þessa heimild. En hins vegar verðum við að gera okkur ljóst, að þessi fjárskipti verður að taka í áföngum, meðal annars af því, að það þarf ekki að gera ráð fyrir því, að fé, sem fyrir hendi er á hverjum tíma hjá ríkissjóði, verði meira en það, að það verði að taka þetta í áföngum. Þetta eru ákaflega kostnaðarsamar framkvæmdir fyrir ríkissjóð, þó að þær væru ekki hafðar meiri en þáltill. gerir ráð fyrir, og það verður að sjálfsögðu að miða við þá getu á hverjum tíma. Þess vegna tel ég, að með tilliti til þessa sé ekki rétt, á þessu stigi málsins, að fara mikið út fyrir þá fjárgreiðslu, sem felst í þál., og taka svo að sjálfsögðu málið fyrir eftir því, sem óskir frá bændum berast til sauðfjársjúkdóman. um það, að tekin verði fyrir ný svæði til fjárskipta. Mér er ekki kunnugt um, að fyrir liggi óskir frá öðrum en þeim, sem búa á þeim svæðum, sem um ræðir í hinni upprunalegu þál. Þess vegna mun ég með tilliti til þessa greiða atkv. með þáltill., þannig að hún gangi ekki lengra í heimildum til handa ríkisstj. í þessu skyni á þessu stigi málsins.