23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (4155)

238. mál, togarakaup bæjar- og hreppsfélaga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil í fjarveru hv. 1. flm. fara um þessa till. nokkrum orðum, þar sem nauðsyn er á að koma henni sem allra fyrst til n. Till. fer fram á að heimila ríkisstj. að ábyrgjast lán til handa eða lána bæjar- eða hreppsfélögum, sem ætla að koma upp hjá sér togaraútgerð og hafa þegar sótt um kaup á togurum, allt að 10% af kostnaðarverði skipanna, og megi lánin hvíla á 2. veðrétti í skipunum, næst á eftir stofnlánadeildarláni. Gert er ráð fyrir, að ábyrgðirnar eða lánin verði bundin því skilyrði, að viðkomandi skip verði rekin af bæjar- eða hreppssjóði eða félögum, sem njóta gagnábyrgðar bæjar- eða hreppsfélaga. Lánin mega vera afborgunarlaus fyrstu tvö árin, en greiðist síðan upp með jöfnum afborgunum á 10 árum. Alls mega þessi lán nema allt að 3 millj. kr.

Ástæðurnar fyrir þessari þáltill. eru þær, að nokkur bæjar- og sveitarfélög utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hafa sótt um kaup á samtals 15 togurum í því skyni að koma upp togaraútgerð hjá sér, og hefur á flestum þeim stöðum ekki verið togaraútgerð áður. En, svo sem kunnugt er, er gert ráð fyrir, að verð hinna nýju togara, sem samið hefur verið um kaup á í Englandi, verði 2800000 kr. En í 1. þeim um stofnlánadeild, sem nú nýlega voru samþ., er gert ráð fyrir lánum, sem til þessara skipa verði veitt, sem nemi ¾ hlutum kaupverðs togaranna, 2100000 kr. Yrðu þá bæjarfélög, sem ætla að kaupa þessa togara, að leggja fram upphæð, sem nemur 700 þús. kr. á hvern togara. Hv. flm. þáltill. telja, að mörg þessara bæjar- og sveitarfélaga, sem um kaup á þessum togurum hafa sótt, séu ekki fær um af eigin rammleik að leggja fram slíkar upphæðir, ekki sízt þar sem þessir aðilar þurfa þá einnig að leggja í ýmsan annan kostnað vegna væntanlegrar togaraútgerðar, svo sem byggingar ýmissa mannvirkja, veiðarfærakaup og ýmislegt annað til rekstrar togaraútgerðarinnar. — Hins vegar er það svo, að staðsetning hinna nýju togara er ákaflega þýðingarmikið atriði frá þjóðhagslegu sjónarmiði, og má segja, að það sé mjög óheppilegt — svo að ekki séu höfð sterkari orð —, ef allir hinir nýju togarar lentu við hafnir við Faxaflóa, en engir úti á landi, sem mundi verða til þess að draga hingað til Reykjavíkur og nágrennis flesta þá ágætu sjómenn, sem nú er starfandi í verstöðvum úti á landi. Til þess að forða þessu bera flm. fram þessa þáltill., sem nú er hér til umr. Með þessari þáltill. er reynt að bæta atvinnuskilyrðin í hinum ýmsu bæjar- og sveitarfélögum og þannig reynt að koma í veg fyrir mjög öran fólksstraum hingað til staðanna kringum Faxaflóa, sem annars væri alveg vís, ef allir hinir nýju togarar yrðu staðsettir hér við Faxaflóa. — Þrátt fyrir þessa aðstöðu, sem bæjar- og sveitarfélögum er veitt með ákvæðum þessarar þáltill., munu viðkomandi sveitar- og bæjarfélög þurfa að leggja töluvert að sér fjárhagslega, til þess að komast yfir þessi stórvirku framleiðslutæki, sem nú er verið að flytja til landsins, og virðist þess vegna ekki óviðeigandi, að ríkisvaldið stuðli að því, að þau nái kaupum á þessum togurum, sem hér er um að ræða.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um málið, nema sérstakt tilefni gefist, en óska, að því verði að lokinni þessari umr. visað til síðari umr. og hv. fjvn.