23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (4189)

244. mál, endurgreiðsla á verðtolli

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins út af þessum ummælum hv. þm. N-M., þar sem hann talaði um, að ef til vill væri verið að flytja hér mál, sem færi í bága við l., taka fram, að þetta er alveg misskilningúr. Það, sem farið er fram á í þessari þál. till. og öðrum sams konar till., sem hér liggja fyrir, er aðeins fjárgreiðslur úr ríkissjóði alveg án tillits til þeirrar löggjafar, sem hér um hljóðar, og það er mjög algengt. Það má deila um, hvort það sé rétt aðferð að heimila ríkisstj. fjárgreiðslur úr ríkissjóði með þál., en það er algeng aðferð á Alþingi, og ekkert annað, sem felst í þessari till., en að heimila ríkisstj. að greiða þá upphæð, sem hér um ræðir.

Ég er ekki viðbúinn að svara, hver kostnaður af þessu mundi verða. Hins vegar er mér kunnugt um það, að tollur af umbúðum utan um eina smálest af fiski, sem hér er um að ræða og sendur er til Ameríku, er um 47 kr. fyrir smálestina, en sá tollur, sem hér er um að ræða, er ekki nema hluti af því, en þó sá hluti af honum, sem mest munar um, því að hann er 30%, en tollur af öðrum umbúðum er ekki nema 8%, eins og ætlazt er til, að hann verði samkv. þáltill. hvað þessa pappírstegund snertir.