27.04.1946
Efri deild: 116. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (4190)

135. mál, atvinnudeild háskólans

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, að svona þál. er vitanlega fullkomin undanþáguheimild fyrir ríkisstjórnina. Ég vil einnig benda á það, að sjálf fjárupphæðin skiptir ekki miklu máli hér. En það mundi enginn hv. þm. hafa samþ. á sinni tíð 30% verðtoll á cellophanpappír, ef það efni hefði þá verið notað í umbúðir utan um fisk til útflutnings. En þessi verðtollur á cellophanpappír er miðaður við það; að hann sé notaður í umbúðir utan um súkkulaði og brjóstsykur. Þingið hefur áður afgr. ákvæði um toll á sambærilegum vörum, og 8% tollur er það, sem svarar til þeirra reglna, sem þingið hefur fallizt á. Og hér er gert ráð fyrir að lækka tollinn á cellophanpappír niður í 8%.

Ég hygg því, að þetta mál geti ekki valdið neinum ágreiningi í þinginu.