24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (4202)

240. mál, svíþjóðarbátar

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Þetta mál er orðið dálítið kunnugt hér innan þingsins og hefur valdið allmiklum vandræðum.

Eins og kunnugt er, voru keyptir allmargir bátar frá Svíþjóð auk þeirra, sem smíðaðir hafa verið á vegum ríkisstj. Og þessir bátar, sem komu hingað til landsins fyrir nokkuð löngu, voru fluttir inn í trausti þess, að þeir mundu uppfylla þau skilyrði, sem sett eru fyrir því, að slík skip megi ganga hér við land. Það hefur ekki borið alls kostar saman vitnisburðum manna um þetta, og eigendur innfluttu bátanna halda fram, að þeir hafi frá réttum stjórnarvöldum á Íslandi fengið yfirlýsingu um það, að ef bátarnir uppfylltu byggingarskilyrði í Svíþjóð, væri óhætt að kaupa bátana inn. Og það er víst, að þessir menn hafa lagt svo mikla fjármuni í þetta, að þeim mundi ekki hafa dottið í hug að kaupa þessa báta og flytja þá til landsins nema þeir væru sjálfir sannfærðir um það, að bátarnir væru eins og gert hafði verið ráð fyrir. Hins vegar fór það svo, þegar þessir bátar komu hingað til landsins, að skipaskoðun ríkisins taldi þá ekki fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir, að skip megi vera í siglingum og við veiðar hér við land. Úr þessu hafa orðið margháttuð vandræði. Það, sem sett var út á þessa báta sérstaklega fyrir utan smávægilegan útbúnað, eins og legufæri og styrkleika á stýrinu, var það, að bátarnir væru of veikbyggðir. Út af þessu neyddust sumir eigendurnir til þess að láta vinna að viðgerð á bátunum, en þær reyndust þá svo dýrar, að t. d. einn eigandinn er búinn að kosta til viðgerðar á sínum bát á annað hundrað þúsund kr. Við aðra hefur verið hætt, af því að skipasmiðir hafa í raun og veru neitað að gera þessa breytingu og segja, að það væri fjarstæða ein að gera það. Úr þessu varð það að samkomulagi, að mæling á máttarviðum og byrðingi skyldi send til Svíþjóðar til tveggja sérfræðinga íslenzkra, sem þar væru til eftirlits með byggingu þeirra báta, sem byggðir eru á vegum ríkisstj. fyrir Íslendinga, og láta þá gera umsögn um það, hvort þessi útreikningur væri á rökum byggður. Og sendir voru út menn til þess að reikna út styrkleika bátanna að nýju, en sá útreikningur var byggður á vottorðum þeirra manna, er skoðuðu bátana hér af hálfu skipaeftirlitsins, er þeir komu frá Svíþjóð. Eftir að trúnaðarmenn ríkisstj. í Svíþjóð höfðu athugað þau skjöl, sem lágu fyrir, og á grundvelli þeirra gefið vottorð um styrk, leika bátanna, hefur komið í ljós, að hinar fyrri mælingar hafa verið rangar, og bátarnir virðast nokkru sterkari. Bátarnir fengu svo undanþágu til næsta hausts. Út af þessu hefur spunnizt mikil athugun á þessu máli, og er það álit margra, bæði siglingafróðra manna og byggingarfróðra, að þessar aðfinnslur á bátunum muni ekki vera á rökum reistar. Og það er talið að minnsta kosti mjög líklegt, að hið opinbera hafi orðið þess valdandi, að þessir menn keyptu bátana og komu með þá hingað til landsins, og að það ástand, sem þeim er með þessu skapað, geri þeim mjög erfitt fyrir. Meiri hluti eigendanna hefur ekki látið breyta bátunum neitt enn þá og bíður átekta. Eftir það mikla umtal, sem orðið hefur um þetta, og vitnisburði margra merkra manna um það, að þetta séu ekki aðeins traustbyggð skip, heldur alveg sérstaklega góð sjóskip, þá þótti sjútvn. ástæða til að gera sitt til, að þetta mál yrði leyst, án þess að það yrði til tilfinnanlegs tjóns fyrir eigendur bátanna né til tilfinnanlegs þjóðfélagslegs tjóns, sem telja má, ef ágæt veiðiskip eru dæmd úr leik við veiðar hér við landið. Þá er hitt einnig vert að athuga og reyna að leiðrétta, ef bjóða á mönnum að gera stórbreytingar á skipum, sem ekki er þörf á, sem er náttúrlega mjög tilfinnanlegt fyrir þá, sem verða að bera kostnaðinn af þeim. — N. hefur þess vegna komið sér saman um að bera fram till. til þál. á þskj. 827, sem, eins og hv. þm. sjá, er þannig orðuð, að Alþ. skorar á ríkisstj. að gera ráðstafanir til, að þessir bátar fái haffærisskírteini með undanþágu. En legufæri og annað munu eigendur bátanna ekkert vera á móti að laga, en það verði ekki stofnað til þess að rífa bátana að verulegu leyti, eins og gert var við einn eða tvo a. m. k. og byrjað að rífa þann þriðja, en slíkt verði ekki gert, ef dómbærir menn telja það algerlega óþarft, og í öðru lagi, að þeim mönnum, sem hafa orðið fyrir tilstilli hins opinbera að gera mjög kostnaðarsamar aðgerðir á þeim, án þess að þörf væri, þá fái þeir að rannsökuðu máli einhverjar bætur fyrir slíkt.

Ég gat þess, að við flm. till. lítum svo á, að þetta sé það þýðingarmikið mál, að því beri að sinna, og í öðru lagi, að leysa beri vandræði þessara manna einkanlega með tilliti til þess, ef það opinbera hefur skapað þeim óþægindi og fjártjón fram yfir það, sem nauðsyn bar til.

Við flm. væntum þess, að Alþ. taki þessari till. vinsamlega, einkanlega með tilliti til þess, að hér er ekki freklega til orða tekið, heldur er farið fram á, að ríkisstj. gangi úr skugga um þetta mál og uppfylli óskir till.