27.04.1946
Efri deild: 116. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (4207)

135. mál, atvinnudeild háskólans

Jónas Jónsson:

Ég hef ekki séð ástæðu til að fara á fund menntmn., enda hef ég aldrei vitað eins hlægilega aðferð á 25 ára starfsferli sem þm. En ég vil bara segja það, að svo hlægileg sem aðferðin hefur verið, þá er hún þó alveg í stíl við framkomu forseta og menntmrh. Þetta frv. er hættulegt, það er byggt á einberum dónaskap. Reynt hefur verið að halda því fram, að rannsóknarstöðin á Keldum missti Rockefellerpeningana, ef frv. yrði fellt. En það er bara vitleysa. Þjóðin hefur ekkert með þessa peninga að gera. Það er undarlegt, hvernig unglingar nú gera kröfu til að kallast vísindamenn, þótt þeir hafi engan rétt til þess, bara vegna þess að hér hafa verið peningar. Einn þessara manna hefur tekið bók eftir frægan látinn mann, haft endaskipti á henni og snúið öllu við og vill svo vera vísindamaður fyrir að hafa snúið Flóru við: Slík vinnubrögð eru táknræn fyrir það fólk, sem hæstv. menntmrh. dregur að sér. Ég vona svo, ef dagskráin verður samþ., að hægt verði að kryfja til mergjar störf menntmrh.