27.04.1946
Sameinað þing: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (4248)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eysteinn Jónsson:

Það var heldur tilbreytingarlítil þula, sem þulin var hér þrjár stundir samfleytt í gærkvöld af talsmönnum stjórnarflokkanna. Forsrh. flutti gamla ræðustúfinn um það, að Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson hafi ekki verið með í stj., af því að þá langaði svo mikið til að vera ráðherrar. Gengur ráðh. enn þá illa að koma þessu heim og saman, og þótti engum það undarlegt, en þessi ræðukafli forsrh., sem nú er orðinn fastur liður, getur verið skemmtilegt verkefni fyrir þá, sem hafa áhuga fyrir sálarfræði.

17. febr. síðastliðinn sagði blað ráðherrans, Mbl.: „Framsókn skarst úr leik. Hún neitaði allri samvinnu í ríkisstjórn, ef ekki yrði byrjað á því að leysa dýrtíðarmálin.“ Aldrei þessu vant sagði Morgunblaðið þetta satt og hefði forsrh. átt að reyna að jafnast á við blaðið og segja einu sinni satt um þetta. En ekki varð honum þess auðið. Kemur mönnum það ekki mjög á óvart.

Atvmrh. og 11. landsk. (STh) reyndu að leiða athyglina frá stjórnarfarinu með því að tyggja upp staðleysur um stjórnarháttu á árunum 1934–1938. Þessum ræðumönnum er vorkunn, þótt þeir vilji leiða athyglina að öðru en frammistöðu sinni og verður það nánar til mergjar krufið hér á eftir, en það er ekki nægileg afsökun fyrir níði þeirra og ósannindum. Fer bezt á því að svara þeim með því að minna á þær staðreyndir, að á árunum 1934–1938, á 4 árum, var meira fjármagn lagt í nýjar framkvæmdir, aflstöðvar, iðnaðarfyrirtæki og þá alveg sérstaklega fisk- og síldariðnað en gert hafði verið á næstu 10 árum á undan. Þetta var gert samtímis því, sem Spánarmarkaðurinn lokaðist og verðið hrundi. Með framkvæmdum þessara fjögurra ára var lagður grundvöllur að uppganginum á stríðsárunum.

Báðir voru þessir ræðumenn að klifa á ágreiningi í Framsfl. Menn vita, við hvað þeir eiga, yfir hverju þeir og íhaldið hlakka. En þeir ættu ekki að gera sér of háar vonir, þeim mun sárari verða vonbrigðin. Það hefur aldrei verið vinsælt að efna til óvinafagnaðar. Það mun ekki heldur verða nú. Framsóknarmenn standa betur saman en nokkru sinni fyrr. Flokkurinn hefur samúð og fylgi fleiri manna utan sinna vébanda en nokkru sinni áður: Þessir ræðumenn kommúnista ættu að athuga um sín heimamál og minnast þess, að þeir hafa rekið a. m. k. einn ritstjóra frá blaði sínu, til þess að fá þangað nógu blindan talsmann Moskvuafturhaldsins. Þeir þóttust allt ætla að gleypa í vetur við bæjarstjórnarkosningarnar, en urðu að athlægi fyrir montið.

Forsrh. sagði mönnum tíðindi af herstöðvamálinu. Margir munu þó hafa verið litlu nær. Fyrst ræddi ráðh. á sína vísu till. Str. um herstöðvamálið, afbakaði hana eftir því sem honum fannst henta og lagði síðan út af. Niðurstaðan varð sú, að væri farið eftir till., þá yrði það móðgun við volduga vinaþjóð og alger eyðilegging utanríkisþjónustunnar. Ekki mátti það nú minna vera. En um hvað er tillagan. Hún fjallar um tvennt. Í fyrsta lagi að leggja fyrir ríkisstj. að gefa nú þegar nákvæma skýrslu á opnum fundi um, hvað líður hinu svokallaða herstöðvamáli, og í öðru lagi að fela ríkisstj. að leggja fyrir Alþ. öll símskeyti og bréf, sem farið hafa milli hennar og fulltrúa erlendra ríkja og fulltrúa hennar erlendis. Hér er skörp lína dregin. Á opnum fundi á að gefa skýrslu um, hvað málinu líður. En skjölin skulu lögð fyrir Alþ., þ. e. a. s. alþm. Vill nú ekki hæstv. forsrh. skýra það fyrir landsmönnum, hvernig það mætti skoðast móðgun við vinaþjóð að skýra frá, hvernig máli þessu liði og hvernig það gæti eyðilagt utanríkisþjónustuna, að skjöl málsins væru lögð fyrir alþm. Auðvitað er þetta fleipur eitt og ber þess glöggan vatt, að hæstv. forsrh. er ekki í rónni út af framkomu stj. í málinu, þykir það sýnilega ekki góður kostur að gefa út skýrslu um málið, settur upp að vegg með till. og af almenningsálitinu. Þessi skýrsla var að vísu ófullkomin, en niðurstaða hennar er sú, að því er mönnum skilst, að eftir sérstakri málaleitun, fluttri af sendiherra Íslands í Washington fyrir hönd íslenzku ríkisstjórnarinnar, hafi Bandaríkjastjórn fallizt á, að málið skyldi stöðvað a. m. k. í bili. Með hvaða rökum farið var fram á þessa stöðvun a. m. k. í bili og með hvaða móti á hana fallizt — um það hefur ekkert verið sagt.

Samt sem áður sjá nú víst flestir hér, að málefni þessi eru í sjálfheldu og óleyst enn þá. Bandaríkjaherinn er hér enn þá með stjórnarinnar samþykki, en fallizt á að fresta herstöðvamálinu a. m. k. í bili. Það dylst víst heldur engum, að þessum málum er ekið svona á undan sér blátt áfram vegna þess, að hæstv. ríkisstj. getur ekki komið sér saman um neitt í þessum vandamálum, nema helzt það að gera ekki neitt, og þá er hitt jafnaugljóst, að þessi frestaleikur er í samræmi við öll önnur vinnubrögð stj., sem miða í þá átt einvörðungu að framlengja líf sitt og setu, alveg án tillits til þess, hvort hún getur leyst úr aðkallandi vandamálum.

Eftir er svo að skýra það, hvers vegna utanrmn., Alþ. eða þjóðin mátti ekki vita um þessa frestunarsamninga. Hvers vegna hefur þurft að kúga hæstv. ríkisstj. til þess að láta uppi það, sem nú liggur fyrir, og af hverju er því tekið sem fjarstæðu, að skjöl og skilríki málsins séu lögð fyrir alþingismenn? Forsrh. sagði, að bezt hefði verið, að málið lægi í þagnargildi, en að stjórnin hefði átt það undir drenglyndi stjórnarandstæðinga, hvort þyrlað væri upp moldviðri um málið. Stjórnarandstaðan hefur krafizt vitneskju um málið, en enga fengið síðan í nóv. 1945. En einn stuðningsflokkur stj. hefur notað málið og leyndina til taumlausra og hatursfullra árása á vinveitta þjóð og innlenda menn og flokka, með landráðabrigzlum, þ. á m. samstarfsflokka sína í ríkisstj. Það er fyrirsláttur fullkominn, að leyndin dragi úr umræðum um málið og gæti verið til góðs sambúð Íslendinga við aðra. Væri ekki rétt að viðurkenna það, að leyndinni var á haldið vegna þess, að jafnvel hin ófullkomnasta frásögn tíðinda hlaut að leiða í ljós, að innan ríkisstj. voru engin tök á því að aðhafast neitt, hvorki neikvætt né jákvætt í þessu máli. Og við það situr. Þannig er forustan. Þetta er alvarlegt ástand og þannig getur þetta ekki staðið áfram. Það er flestum hugsandi mönnum ljósara nú en nokkru sinni fyrr.

Vinnubrögð kommúnista í herstöðvamálinu eins og öðrum utanríkismálum hefur þó metið. Út af því, sem þeir sögðu í gærkvöld, er ástæða til að minnast nokkrum orðum á afstöðu þeirra til utanríkismála almennt og til herstöðvamálsins sérstaklega. Þeir taka ekki afstöðu frá íslenzku sjónarmiði, heldur frá sjónarmiði hins mikla föðurlands allra kommúnista. Meðan Rússar höfðu vináttusamning við Þjóðverja, kröfðust kommúnistar þess, að Íslendingar sýndu Bretum fullkominn fjandskap — þeir heimtuðu viðskiptasamning við Þjóðverja í jan. 1940 — þeir sögðu, að stríðið væri barátta milli tveggja rándýra um bráð — þeir kröfðust þess, að siglingum til Bretlands væri hætt, þegar Bretland stóð eitt gegn fasismanum og brezku þjóðinni lá við sveltu. Þeir töldu vinsamlega sambúð við brezka herinn og herverndarsamninginn við Bandaríkin til landráða — þangað til Þjóðverjar réðust á Rússa, þá breyttist allt á einni nóttu og ófriðurinn varð að heilögu stríði. Allt, sem „landráðamennirnir“ íslenzku höfðu áður gert til samvinnu við Bandamenn, varð þá of lítið og náði of skammt. Áður var sagt, að íslenzka þjóðin hlyti að líta á brezka og bandaríska herinn hér eins og Danir og Norðmenn á þýzka herinn, en eftir árásina á Rússland hét Bretavinnan landvarnarvinna og hver sem ympraði á því að takmarka þann fjölda, sem að þeim störfum ynni, var stimplaður landráðamaður í þjónustu Quislings og Hitlers.

Kórónan var sett á afskipti kommúnista af utanríkissmálum þegar þeir kröfðust þess, að Íslendingar gerðu sig að athlægi í augum alheimsins með því að segja Þjóðverjum stríð á hendur eftir að þeir voru búnir að tapa. Varla dylst það nokkrum manni, að afstaða kommúnista til þessara örlagaríku atburða mótaðist af allt öðru en því, hvað íslenzku þjóðinni væri fyrir beztu. Hitt ætti mönnum þó jafnframt að vera ljóst, að Íslendingum var á stríðsárunum forðað frá óbætanlegu tjóni, smán og niðurlægingu með því að kommúnistar voru að engu hafðir.

Þrátt fyrir alla þá hneisu, sem kommúnistar hafa bakað sér út af þessum málum, eru þeir enn á stúfunum og þykjast geta lagt orð í belg um utanríkismál, nú um herstöðvamálið. Dettur nokkrum manni í hug, eftir það, sem á undan er gengið, að kommúnistar vilji ekki herstöðvar á Íslandi? Hafa þeir ekki dáðst að innlimun Eistlands, Lettlands og Lithauen. Hafa þeir ekki svívirt Finna fyrir það, að þeir vildu ekki þiggja hervernd stórveldis. Hefur ekki einn aðalspámaður þeirra á sínum tíma lýst með fjálglegum orðum þeirri sælu, sem Pólverjar urðu aðnjótandi, þegar þeir voru þegjandi og hljóðalaust færðir undir verndarvæng erlendrar þjóðar. Af þessu verður að draga þá ályktun, að kommúnistar séu á móti herstöðvum nú af því, að þeir hafa enga von um, að hingað komi sá her, sem þeim líkar, — eða því skyldi það ekki að þeirra dómi vera okkur til góðs, sem öðrum þjóðum, er slíkt hnoss hljóta? Ef samkomulag yrði um það einn góðan veðurdag við móðurland kommúnismans, að eitthvert stórveldanna ætti að hafa herstöðvar á Íslandi, þá kæmi fljótt annað hljóð í strokk kommúnista. Það færi þá eins og nóttina góðu, þegar Þjóðverjar réðust á Rússa og barátta villidýranna um bráð varð að krossferð gegn fasismanum.

Kommúnistar eru að reyna að nota herstöðvamálið með tvennu móti. Til þess að draga athyglina frá þeirri smán, sem afskipti þeirra af utanríkismálum á styrjaldarárunum hafa bakað þeim, og til þess að efla fjandskap í garð vestrænu lýðræðisríkjanna. Hvorugt mun takast. Því veldur tvennt. Það er greypt orðið í meðvitund mikils þorra þjóðarinnar, að kommúnistar megi aldrei ráða neinu um viðhorf hennar út á við. Og á hinn bóginn er það bjargföst sannfæring meginhluta þjóðarinnar, studd langri reynslu, að Íslendingum farnist bezt í nánu samstarfi við lýðræðisþjóðirnar. Slíkt samstarf, án þess að erlendur her dvelji í landinu, það er það, sem þjóðin vill.

Þannig hefur aðalfundur miðstjórnar Framsfl. einróma markað stefnuna. Þessa stefnu telja talsmenn kommúnista landráð. Á því sést, hvert þeir eru að fara. Þeirra barátta er ekki barátta gegn erlendum her í landinu, heldur barátta gegn náinni samvinnu við engilsaxnesku þjóðirnar.

Um þá stefnu, sem mörkuð hefur verið í þessum málum, þarf að sameina sem flesta þjóðholla menn og konur í landinu án tillits til flokkaskipunar og gjalda jöfnum höndum varhuga við ofstopa kommúnista og öfgum þeirra, sem misst hafa jafnvægið vegna uppivöðslu Moskvumanna.

Þá mun ég fara nokkrum orðum um fjármálin.

Ríkisstj. fékk á Alþ. 1944 framlengda alla skatta og tolla, sem áður voru í lögum. Til viðbótar lagði ríkisstj. svo á veltuskattinn illræmda, sem jafngildir 4–5% verðtolli. Þá var lagður á tekjuskattsviðauki, sem þó náði alls ekki til hæstu tekna. Og loks voru dregnar saman nokkrar milljónir með viðaukum á stimpilgjöld, aukatekjur, símagjöld o. fl. Í stjórnarsáttmálanum var talað um skatta á breiðu bökin. Það fyrirheit hefur verið gersamlega að engu haft. Til viðbótar þessum löggjafarráðstöfunum hefur svo stj. úti allar klær til fjáröflunar, meðal annars gert allar hugsanlegar ráðstafanir til aukningar vínsölunni og heimilað gegndarlausa notkun dollarainneigna landsmanna til alls konar vörukaupa. Náðist þá tvennt í senn, að auka tolltekjurnar og veita gæðingum stj. úrlausn um innflutning. Með þessum aðferðum öllum hefur verið dregið saman í ríkissjóð á árinu 1945 nærri 163 millj. kr. samkv. bráðabirgðauppgjöri, sem ég hef fengið í hendur. Umframtekjur hafa því orðið nærri 55 millj. kr. Umframtekjurnar einar hafa því numið þrefalt hærri fjárhæð en allar tekjur ríkissjóðs námu fyrir stríð, en tekjurnar allar meira en áttföldum ríkistekjunum fyrir stríð.

Nú munu margir spyrja: Er þá ekki stórkostlegur greiðsluafgangur og gildir sjóðir eða stórfelld skuldalækkun eftir annað eins tekjuár og aðrar eins aðfarir við fjáröflun? Sú hlið málsins horfir þannig við, samkv. þessu sama bráðabirgðauppgjöri og öðrum upplýsingum, sem ég hef fengið í stjórnarráðinu: Allt þetta óhemju fjármagn, 163 millj. kr., hefur verið notað á árinu. Enginn eyrir afgangs til skuldalækkunar umfram lækkanir á sjóðseignum og enginn eyrir afgangs til að mæta þeim óhemju útgjöldum, sem ákveðin eru úr ríkissjóði á þessu ári og framvegis. Það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi til næsta bæjar, að stj. hefði fengið 55 millj. kr. umframtekjur á einu ári og notað þær allar.

Fjármagnið, sem ríkisstj. hefur kúgað af þjóðinni á árinu 1945 og ráðstafað á því ári, nemur um það bil 60% af verðmæti alls útflutnings 1945, en heildarverðmæti hans var 267 millj. kr. Ekki er þó nýsköpun sú, sem ríkisstj. verður svo tíðrætt um, kostuð af þessu fé, nema að sáralitlu leyti. Allar óvenjulegar framfarir verða, þrátt fyrir þetta, að byggjast á lánum og aftur lánum, og kem ég síðar að því nánar.

Fjármálaráðherrar Sjálfstfl. hafa farið með fjármálin í 7 ár. Á þeim tíma hafa þjóðartekjurnar aukizt stórkostlega. Samt hefur verið haldið öllum tollum og skattar hækkaðir, tekjur ríkissjóðs verið margfaldaðar, en ríkissjóður er févana. Orsakanna er að leita jöfnum höndum til hinnar gegndarlausu verðbólgu, sem af ásettu ráði hefur verið látin haldazt við og vaxa, og til óstjórnar þeirrar og ráðleysis, sem ríkir um yfirstjórn opinberrar starfrækslu. Nokkur dæmi gefa hugmynd um „ráðdeildina“.

Kostnaðurinn við ríkisstj., þ. e. yfirstjórn ríkisins, er talinn í bráðabirgðauppgjöri fyrir árið 1945 2440000 kr., en var samkv. ríkisreikningi 1938 (síðasta árið, sem Framsfl. fór með ríkisstjórnina) 371000 kr. Þessi kostnaður hefur því nálega sjöfaldazt, en menn hafi í huga, að á s. l. ári var meðalvísitalan 277,25. Hér við bætist svo, að á s. l. ári var kostnaður við nýbyggingarráð sem er eins konar stjórnardeild, hvorki meira né minna en 616000 kr. Má því segja, að kostnaður við yfirstjórn ríkisins sé kominn yfir 3 millj. kr. — Til marks um, hvernig á fénu er haldið, má nefna, að hver nýbyggingarráðsmaður fær 34200 kr. laun, en formaðurinn 37620 kr. laun. Fyrir teikningar af einni ríkisbyggingu hafa verið greiddar um 300000 kr. út úr landinu í dollurum.

Þegar hæstv. fjmrh. var búinn að ganga undir það jarðarmen að leggja á veltuskattinn, gaf hann eftirfarandi yfirlýsingu á Alþingi 28. febr. 1945: „Ég undirstrika enn, að breyta verður um stefnu í fjármálunum.“ Enn fremur: „Ég tel óhugsandi að halda áfram á sömu braut og farin hefur verið að undanförnu. Hins vegar er ég ekki við því búinn að svara því, hvaða leiðir beri að fara, til þess að komast út úr ógöngunum.“

Það mun einsdæmi, að fjmrh. gefi slíka yfirlýsingu og játi þannig á sig hvort tveggja í senn, að hann sé á rangri leið og sjái engar leiðir út úr ógöngunum, en sitji samt. En þetta gerði hæstv. fjmrh., og hver hefur svo orðið stefnubreytingin, sem búast hefði mátt við eftir þessa yfirlýsingu? Verðbólgu- og sukkstefnunni hefur verið haldið áfram og ráðherrann fullkomlega látið bugast, svo sem við mátti búast.

Á fjárlögunum 1946 er gert ráð fyrir 140 millj. kr. greiðslum úr ríkissjóði fyrir utan afborganir fastra lána. Ríkisstj. þorði að vísu ekki að framlengja veltuskattinn beinlínis, svo illræmdur var hann orðinn. En svo „viturlega“ og „sanngjarnlega“ er frá því máli gengið, að á þessu ári verða menn að borga tekjuskatt, útsvör og í ýmsum tilfellum jafnvel stríðsgróðaskatt af þeim fjárhæðum, sem þeir borguðu í veltuskatt á s. l. ári. Allir aðrir skattar og tollar voru hins vegar framlengdir, en fjárl. samt afgreidd með 18 millj. kr. greiðsluhalla. Það er vitanlegt, að ríkisútgjöldin á þessu ári nema milljónatugum fram yfir fjárlög.

Það getur engum dulizt lengur, að framsóknarmenn hafa rétt fyrir sér, þegar þeir hafa haldið því fram, að stefna stj. leiðir til stórfellds hallareksturs fyrir ríkissjóð á næstu árum og síðan til þess, að allar meiri háttar framfarir verða annaðhvort að stöðvast eða framkvæmast fyrir lánsfé. Það kemur fyrir ekki, þótt stj. grípi til allra örþrifaráða, sem hugsanleg eru, til þess að leyna þessu um stundarsakir eða fresta því, sem fram hlýtur að koma. Það er hægt að kaupa gálgafrest með örþrifaráðstöfunum, en dómurinn verður ekki umflúinn.

Áhrif þessarar stefnu á toll- og skattapólitíkina má nokkuð sjá á því, að stjórnarliðið æpir í móti hverri till., sem fram kemur hér á Alþ. um leiðréttingu tolla til lækkunar, hversu sjálfsögð sem hún virðist. Hít stjórnarinnar er óseðjandi. Fyrir síðustu kosningar sögðust kommúnistar ætla að fá afnumda alla tolla, til þess að lækka dýrtíðina. Veglegt er orðið þeirra hlutskipti. Það er ekki furða, þótt þeir tali um óljósa stefnu annarra flokka.

Það er reynt að komast hjá því að horfast í augu við staðreyndirnar með því að láta suma af hinum nýju lagabálkum frá þessu Alþ. ekki koma til framkvæmda fyrr en á árinu 1947. En það er skammgóður vermir og alveg augljóst, að sum ákvæði þessara laga verða aldrei til nema á pappírnum, ef ekki verður gerbreytt um stefnu, en það gerir nú ekki mikið til í augum stjórnarliðsins, því að höfuðtilgangurinn, svona fyrst um sinn, er að geta lesið upp í útvarpið fyrirsagnir laganna fyrir kosningarnar.

Flestar till. og frv. stjórnarliðsins á þessu Alþ. eiga eitt sameiginlegt, og það er klausa, sem heimilar ríkisstj. að taka að láni fyrir hönd ríkissjóðs svo og svo margar milljónir til þess að standast kostnað við framkvæmdirnar. Mér telst svo til, að á þessu þingi verði samþykktar lántökur, sem nema um 100 millj. kr., og þar að auki ótakmarkaðar lántökuheimildir í fleira en einu frv. Þá eru ótaldar ábyrgðir, sem nema gífurlegum fjárhæðum. í tvennum lögum eru tilteknar ríkisábyrgðir, sem nema 134 millj. kr. samtals, og fjöldamörgum öðrum lögum ótakmarkaðar ábyrgðarheimildir til handa ríkisstj.

Heildarmyndin af fjármálaafgreiðslunni er þá þessi : Ríkisútgjöld þessa árs verða aldrei undir 160 millj. kr., ríkislántökur, áformaðar og samþykktar, nema ekki undir 100 millj. kr. Ríkisábyrgðir þær, sem áreiðanlega verða veittar, nema aldrei undir 150 millj. kr. Ríkisútgjöldin, ríkislántökur og ríkisábyrgðir nema því samtals á fimmta hundrað millj. króna, fyrir utan allar ábyrgðarheimildir, sem ekki eru bundnar við tilgreindar fjárhæðir. Þessum málum er þá einnig þannig komið að dómi sjálfra forustumanna stjórnarliðsins, að lánsfjáröflun til þeirra framkvæmda, sem fyrirhugaðar eru og mestu máli skipta, er ekki talin framkvæmanleg nema með því að skylda seðladeild þjóðbankans til þess að lána ríkisstj. það fé, sem hún þarf á að halda, sbr. lögin um hina nýju stofnlánadeild sjávarútvegsins.

Það er ekki langt síðan það var notað til ámælis fjármálastjórn landsins, ef stórlán ekki voru gripin fyrirvaralítið, þrátt fyrir markaðshrun, verðfall og stórkostlega fjárhagskreppu. Nú er öldin önnur. Nú þykir „kurteisi“ að lýsa yfir því, að ríkisstj. sé með engu móti kleift að útvega fjármagn til nauðsynlegustu framkvæmda nema með lögþvinguðum lánum úr seðladeild þjóðbankans. Og þetta skeður á sama tíma og þjóðin hefur yfir að ráða meira fjármagni en nokkru sinni fyrr í sögu landsins. Þegar svo er komið nú, hvernig mun þá horfa eftir nokkur misseri, ef þjóðin tekur ekki í taumana? En hvað varðar stj. um það, bara ef hægt er að velta þessu fram yfir kosningar og syngja dýrðin, dýrðin fram á kjördaginn? Vitanlega er þessi fjármálaafgreiðsla öll saman ekki byggð á neinu viti. Þetta eru fjörbrot þeirra manna, sem hafa misst öll tök á viðfangsefninu. Þetta er auglýsingaleikur þeirra manna, sem unnið hafa það til valdanna að breyta í grundvallaratriðum þveröfugt við það, sem þeir telja rétt. Engin tilraun er gerð til þess að fá nokkurt yfirlit um það, sem hægt er að framkvæma vegna fjármagns, efnis eða vinnuafls, og úr öllu verður óskapnaður, þar sem eitt rekur sig á annars horn, framkvæmdir stöðvast í miðju kafi, fjáröflun verður óframkvæmanleg, starfsmenn vantar við nauðsynleg verk, en mönnum hópað að þeim störfum, sem minni þýðingu hafa. Þetta er svo kallað að vinna eftir áætlun. Ef nokkur dirfist að benda á handahófið, kæruleysið, óstjórnina og sukkið, þá er hrópað í kór: Hann er afturhaldsmaður. Hann er á móti nýsköpuninni.

Ríkisstj. hefur átt mjög erfitt með að finna afsakanir fyrir algeru úrræðaleysi sínu í viðureigninni við verðbólguna, hvað þá beinum ráðstöfunum til þess að auka hana. Hún hefur gripið til þess örþrifaráðs að halda því fram, að verðbólgan sé heppilegt tæki til þess að dreifa stríðsgróðanum meðal almennings. „Öðruvísi mér áður brá“, má hér um segja. Áður en á þessari kenningu þurfti að halda, til þess að afsaka samstarf stríðsgróðamanna og kommúnista, kvað við annan tón, eins og alþekkt er. Þá sagði formaður þingflokks Alþfl., að verðbólgan gerði þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Þá sögðu kommúnistar í kosningaávarpi sínu, að verðbólgan gereyðilegði afkomumöguleika launastéttanna og smáframleiðenda, og hún væri til bölvunar fyrir alla, nema braskarana. Þá sagði formaður Sjálfstfl., núv. hæstv. forsrh., að þeir væru óvinir þjóðfélagsins, sem ekki vildu leggja sig alla fram til þess að stöðva hækkun launa og verðlags og gera aðrar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir vöxt verðbólgunnar. Fyrir nokkrum dögum sagði svo þessi sami ráðh. hér í þingræðu, að það hefði verið fávitaháttur og fásinna að stöðva hækkun kaupgjalds og afurðaverðs á stríðsárunum. Svo mikið skal til valdanna vinna að tína svo af sér spjarirnar frammi fyrir alþjóð manna.

Skylt er nú að athuga, hvað hæft er í þessum „nýtízku“ kenningum um verðbólguna og hvernig ríkisstj. hefur tekizt það hlutverk að dreifa stríðsgróðanum meðal almennings eftir þessum nýstárlegu leiðum. Það skiptir vitanlega höfuðmáli, hvorir hafa um þetta rétt fyrir sér, stjórnarliðið eða stjórnarandstæðingar. Ég mun leiða um þetta nokkur vitni og mun velja þau þannig, að eigi verði því haldið fram, að vitnin séu valin stjórnarandstæðingum í vil.

Víkjum þá fyrst að sjávarútveginum. Í bréfi, dags. 28. nóv. 1945, er Samband íslenzkra útvegsmanna skrifaði miðstjórnum landsmálaflokkanna, er komizt svo að orði:

„Eins og yður mun kunnugt, hefur hag smáútgerðarinnar í landinu sífellt farið hnignandi síðan 1942.“

Með þessu er mikið sagt, en allir þeir, sem nokkra nasasjón hafa af sjávarútvegi og afkomu hans á undanförnum árum, vita, að þetta er rétt. Þangað hefur ekki verið veitt stríðsgróðanum með verðbólguráðstöfunum ríkisstj. heldur þvert á móti fjármagnið sogið frá útveginum. Þetta er skemmtilegur vitnisburður fyrir núv. hæstv. forsrh. eða hitt þó heldur, sem hóf sig til valda á herðum kommúnista og Alþfl. á árinu 1942 og tók síðan upp þráðinn aftur. Útvegsmenn og sjómenn muna afkomuna 1940 og 1941, og enginn vafi er á því, að gambur hæstv. ráðh. og gort um afskipti ríkisstj. af sjávarútvegsmálum er að þeirra skilningi naprasta storkun.

Enn fremur segir Morgunblaðið um viðhorfið til sjávarútvegsins nú í janúar út af kauphækkunarkrifum :

„.... vafalaust er þessum flokkum ljóst, að samtímis sem þessar kröfur eru gerðar, er viðhorfið þannig hjá bátaútvegi landsmanna, að vafasamt er, hvort nokkur fleyta fer á sjó á vertíð þeirri, sem nú fer í hönd. Vonandi tekst þó ríkisstj. að greiða þannig úr þessum málum til bráðabirgða, að eigi komi til stöðvunar. Þó er allt í óvissu um, hvort menn fáist á bátana. Og fullvíst er, að verði enn hert á kröfum landsmanna, rekur að því, að enginn fáist á fiskibátana.“

Það þarf naumast að taka það fram, að eftir nokkra daga var það talinn sérstakur sigur stj., að orðið var við kröfum um kauphækkanir.

Þá víkur sögunni til verkamanna og launamanna, en svo hefur mönnum skilizt, að þangað hafi verðbólgan ekki hvað sízt átt að fleyta stríðsgróðanum. Um þetta hefur trúnaðarráð Dagsbrúnar þetta að segja í ársbyrjun 1946:

„Samt sem áður hefur það komið í ljós, að þrátt fyrir þessa grunnkaupshækkun veitist verkamönnum, sem eiga við lægsta grunnkaupið að búa, æ erfiðara að framfæra fjölskyldur sínar. . . . Samtímis þessu er verkamönnum sú staðreynd ljós, að núverandi verzlunar- og innflutningshættir koma hart niður á þeim (sem og öllum almenningi), þar sem fáeinir einstaklingar, er sitja að innflutningnum, græða árlega ótaldar milljónir, löglega og ólöglega, sem teknar eru úr vasa verkamanna og annarrar alþýðu, og veldur stórkostlegri og áframhaldandi rýrnun á tekjum launþeganna.“

Og forseti Alþýðusambandsins hefur einnig lagt orð í belg. Hann segir í tímariti Alþýðusambandsins í sérstöku ávarpi:

„Fyrir vanmátt og úrræðaleysi valdhafanna hefur ósamræmið milli verðlags og kaupgjalds verið svo launþegunum í óhag vegna falskrar vísitölu og svikins verðlagseftirlits, að kauphækkanir þær, sem verkalýðurinn náði 1942 og síðar 1944, eru að engu orðnar.“

Þetta þætti ljótur vitnisburður, ef hann væri frá framsóknarmönnum.

Og loks kemur svo annað aðalmálgagn ríkisstj., Þjóðviljinn, og vill líka vera með og segja sitt álit um það, hversu tekizt hafi. Hann kemst þannig að orði: „sannleikurinn er sá, að hlutur verkamanna er mun lakari nú en hann var fyrir nokkrum árum“, og enn fremur: „ógerlegt að lifa mannsæmandi lífi af tekjum hinna lægst launuðu manna.“

Þetta eru nú vitnisburðirnir um stjórnarstefnuna frá helztu trúnaðar- og forráðamönnum sjávarútvegsins og launastéttanna, og þó eru það þessar stéttir, sem stj. þykist hafa verið að vinna fyrir. Kommúnistar hafa hreint og beint afsakað samstarf sitt við stríðsgróðamennina með því, að þeir yrðu að vera í ríkisstj., til þess að hjálpa til að knýja fram kjarabætur fyrir verkamenn, og bæði sjálfstæðismenn og jafnvel kommúnistar hafa verið að burðast við að telja sjávarútvegsmönnum trú um, að stjórnarstefnan væri þeim í hag. Jafnvel ekki ófyrirleitnustu málsvarar stjórnarliðsins hafa lagt út í að halda því fram, að það væri verið að útdeila stríðsgróðapartí til landbúnaðarins með því að halda afurðaverðinu niðri með þingráðstöfunum og láta verðbólguna og framleiðslukostnaðinn vaxa sífellt. Þess vegna þarf ekki hér sérstakt vottorð um áhrif „útdeilingarstefnunnar“ á afkomu landbúnaðarins. Það nægir að geta þess, að það er tæpast haldinn svo fundur í sveitum landsins, að þar séu ekki samþykkt mótmæli gegn þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur gert sérstaklega til þess að velta byrðum verðbólgunnar yfir á bændastéttina. Þá vita allir, hvernig hefur verið farið með eigendur sparifjár þess, sem dregið hafði verið saman fyrir styrjöldina. Verður þessum vitnisburðum hnekkt? Ég held ekki, eða hvað finnst þeim, sem undir þessu eiga að búa? Er ekki vænlegast fyrir hæstv. ríkisstj. að játa þegar hér er komið sögu — játa það, sem sífellt verður augljósara, að allt þetta tal um blessun og kosti verðbólgunnar er blekking ein, fundin upp til afsökunar stjórnarmyndunartiltækinu?

En það ættu og mættu koma vitnisburðir um áhrif verðbólgunnar frá fleirum en þegar hafa verið nefndir, því að þótt afleiðingar verðbólgunnar verði þungbærar mörgum, sem látið hafa til sín heyra sérstaklega, þá er það þó alveg víst, að engum verður verðbólgan jafnþung í skauti og yngri kynslóðinni, sem nú og á næstu misserum á að stofna heimili og byrja sjálfstætt starf. Hvað skyldi þeirra hlutur af stríðsgróðanum vera mikill, sem nú þurfa að kaupa tvö herbergi og eldhús fyrir 60–70 þús. kr. og 3 herbergi fyrir 100–120 þús. kr. eða borga 8–12 þús. kr. á ári í húsaleigu? Eða hvað skyldi hlutur þeirra af stríðsgróðanum verða mikill, sem nú stofna heimili í sveit eða kaupstað, leggja í ræktun og byggingarframkvæmdir, eða þeirra, sem nú eru að byrja útgerð og sjálfstætt starf við sjávarsíðuna? Sannleikurinn er sá, að verði það öngþveiti látið haldast, sem nú er, skapast slíkt fjárhagslegt misrétti í landinu, að engin dæmi eru til slíks fyrr hér á landi og fá dæmi þess, að svo ógiftusamlega hafi til tekizt í öðrum menningarlöndum. Eftir því sem lengra líður, munu fleiri skilja og viðurkenna baráttu þeirra, sem hafa barizt gegn því, að þessi ófreskja væri alin, en hlutur lýðskrumaranna, sem sér til stundarfylgis hafa ginnt menn út á hálan ís, að sama skapi verða minni.

Þegar flett hefur verið ofan af kenningunni um dreifingu stríðsgróðans, þá mundi margur spyrja: Hvar er þá stríðsgróðinn? Já, hvar er stríðsgróðinn? Þá er komið að kjarna málsins. Það er einmitt það, sem ekki má minnast á án þess að valdhafarnir missi stjórn á sér. Stjórnarliðið hefur staðið eins og veggur, allt frá því að stj. var mynduð, gegn því, að gerðar væru fullnægjandi ráðstafanir til allsherjar uppgjörs eigna í landinu, en það er eina leiðin til þess að stríðsgróðinn geti orðið gerður upp. Stjórnarsamstarfið er einmitt byggt á því, að þetta verði ekki gert. Væri slíkt uppgjör látið fara fram, þá sæist það svart á hvítu, hvaða áhrif stefna ríkisstj. hefur haft á eignaskiptinguna í landinu. Þá kæmi það í ljós, hvert það fjármagn hefur raunverulega runnið, sem „kjarabótaspámenn“ kommúnista þóttust ætla að dreifa til almennings með tilstyrk verðbólgunnar. Þá kæmi í ljós að það, sem menn sögðu um eðli og áhrif verðbólgunnar fyrir síðustu alþingiskosningar, var rétt, en síðari fullyrðingar hreinar fjarstæður. Þá sæjust í allri sinni nekt afleiðingar þess ljóta leiks, sem stríðsgróðamenn og kommúnistar hafa leikið undanfarin misseri. Þá mundi líka skapast sterkt almenningsálit um ráðstafanir til þess að leiðrétta eitthvað af því misrétti, sem orðið er. En þá væri líka úr sögunni grundvöllurinn fyrir samstarfi kommúnista og núv. forsrh. Þá væri í sundur líftaug stj., sem allt byggist á. En hún er þessi : Stríðsgróðamenn hafi frjálsar hendur á öðru leytinu, en kommúnistar reki á hinn bóginn „kjarabótapólitík“ í gæsalöppum. Framleiðslustéttirnar og alþýða manna borga brúsann, svo sem vitni hafa nú um gengið, en „nýsköpunarsöngurinn“ á að slæva dómgreindina. Í þessu samstarfi hangir svo Alþfl. og núverandi forkólfar lýsa því jafnframt yfir, að sá flokkur hafi tekið forustuna um frjálslynda umbótastefnu. Ekki er þeim klígjugjarnt.

Stefna Framsfl. er glöggt mörkuð um þessi vandamál. Hann telur algera stefnubreytingu knýjandi nauðsyn: Lækkun verðbólgunnar, sem miðast fyrst og fremst við að auka kaupmátt peninganna, til þess að skapa framleiðslunni öruggan starfsgrundvöll og tryggja um leið afkomu þeirra, sem taka laun. Ráðstöfunum til lækkunar verðbólgunni verður að fylgja undandráttarlaust uppgjör stórgróðans, sem safnazt hefur á tiltölulega fáar hendur vegna stríðsviðskipta og verðbólgu. Með því móti einu fæst grundvöllur að heilbrigðu fjármálalífi og tækifæri til leiðréttingar því herfilega misrétti, sem orðið er og sífellt fer vaxandi. Það verður að forða landsmönnum, ekki sízt ungu kynslóðinni, frá örbirgð þeirri, sem sýnilega verður hennar hlutskipti, ef ekkert verður aðhafzt í rétta stefnu, og atvinnuvegum landsmanna lyft úr þeirri sjálfheldu, sem þeim er búin. Þetta verður að gera áður en það er orðið of seint.

Enginn vafi leikur á því, að þrái þeirra og metnaður, sem fyrir stj. standa, er svo mikill, að þeir ætla sér að halda áfram svo sem gengið hefur, meðan þeir geta með einhverjum óyndisúrræðum haldið sér við völd, og það alveg án tillits til afleiðinga þess framvegis. En hitt er líka jafnljóst, að það er í lófa lagið fyrir landsmenn að hnekkja þessum fyrirætlunum. Þótt viljinn sé ríkur hjá forustumönnunum til þess að hanga, þá eru þeir á glóðum elds og tæpt stendur um samheldnina. Fylgistap þessara flokka veldur stefnubreytingu — það er alveg víst. En fylgistap er líka það eina, sem slíku getur valdið. Mótmæli láta þeir sem vind um eyrun þjóta, óánægju meta þeir einskis, ef þeim er fylgt samt. Boðskapur kjörseðilsins er það eina, sem þessir menn skilja.